Aflamarkskerfi

Aflamarkskerfið

Íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið er aflamarkskerfi eða kvótakerfi og er markmið þess að hámarka afrakstur fiskistofnanna og að arðsemi veiðanna verði sem mest til lengri tíma litið.

Í upphafi tíunda áratugarins var aflamarkskerfið fest í sessi á þann veg að útgerðarfyrirtækjum var úthlutað varanlegri aflahlutdeild í þeim tegundum sem voru kvótabundnar, þ.e. ákveðnu hlutfalli af leyfðum hámarksafla í viðkomandi fiskistofni. Það varð til þess að skapa meiri stöðugleika í rekstrinum og stuðlaði að því að fyrirtækin skipulögðu rekstur sinn með langtímamarkmið í huga. Einnig var fyrirtækjum heimilað að framselja sín á milli bæði aflahlutdeild, þ.e. varanlegan veiðikvóta og aflamark, þ.e. kvóta innan fiskveiðiársins. Þetta var gert í því skyni að útgerðarfyrirtækin gætu hagrætt í rekstri sínum, sameinað veiðiheimildir og aukið arðsemi greinarinnar. Frá tilkomu aflamarkskerfisins hefur stærstur hluti veiðiheimildanna skipt um hendur.

Á þessari síðu er að finna upplýsingar um aflamarkskerfið, en það er bundið í lögum um stjórn fiskveiða.

Á vorþingi 2002 var lögunum breytt og tekin upp ákvæði um svonefnt veiðigjald, eða auðlindagjald, en þær breytingar má finna hér.

Árið 2005 vann Dr. juris Guðrún Gauksdóttir, dósent við Háskólann í Reykjavík og formaður Rannsóknastofnunar í auðlindarétti álitsgerð sem ber heitið " Lögfræðiálit Dr. Guðrúnar Gauksdóttur um aflaheimildir og eignarrétt.pdf

Staðleysur og staðreyndir um íslenska kvótakerfið 


Sjávarútvegur er ekki einkamál sjómanna eða útgerðarmanna eða nokkurra annarra, segja hagfræðingarnir Axel Hall, Ásgeir Jónsson, Sveinn Agnarsson og Tryggvi Þór Herbertsson, heldur er hann meginstoð íslensks efnahagslífs og afkoma hans skiptir sköpum fyrir lífskjör almennings, hvar sem er á landinu. 


Síðustu vikur hefur umræðan um fiskveiðistjórnun hérlendis verið á miklu flugi vegna deilna um veiðar smábáta og nýjustu skýrslu Hafrannsóknarstofnunar um ástand nytjastofnanna. Í þessari orrahríð hafa mörg stór orð fallið og ýmsum staðhæfingum verið varpað fram. Þetta er ekki aðeins eðlilegt, heldur nauðsynlegt því opin og fjörleg umræða er ómissandi í lýðræðisþjóðfélagi. Hins vegar hefur málefnagrundvöllurinn ekki verið jafn sterkur. Hér ber að hafa í huga að sjávarútvegur er höfuðatvinnugrein landsmanna og því miklir, en oft ólíkir, hagsmunir í húfi. Þessi togstreita hefur sett sitt mark á fréttatíma fjölmiðla, sem virðist oft og tíðum vera meira í ætt við manntafl á milli einstakra hagsmunahópa fremur en óvilhöll og yfirgripsmikil umfjöllun sem veltir upp öllum hliðum málsins. Ennfremur er því líkast að einstakir fjölmiðlar haldi sumum skoðunum meira til haga en öðrum og varpi misvísandi mynd til landsmanna. Dæmi um þetta er þegar sóknarmarkskerfi í Færeyjum var dásamað marga fréttatíma í röð, án þess að fjalla um fiskveiðasögu eyjanna í heild sinni.

Því fer fjarri að núverandi fiskveiðastjórnunarkerfi sé hafið yfir gagnrýni né heldur að það sé meitlað í stein. Framfarir í fiskvísindum eða breytingar á pólitískum áherslum munu án efa verða til þess, að fiskveiðistjórnun við landið mun breytast á næstu árum. En breytingarnar verða að vera á réttum forsendum. Margt af þeirri gagnrýni sem nú er varpað fram er ekki réttmæt og umræðan um meinta galla kvótakerfisins virðist að miklu leyti snúast um staðleysur, sem virðast víða teknar sem viðurkenndar staðreyndir. Í þessu tilefni hafa undirritaðir tekið saman tíu staðleysur sem oft er varpað fram sem algildum sannleik í opinberri umræðu um núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi. Jafnframt er gerð tilraun til að hrekja þær með reynslurökum.

 

1. Sjávarútvegur í Færeyjum gengur vel vegna þess hve fiskveiðikerfið þar er gott

Færeyingar byggðu fiskveiðar sínar að mestu á sókn á fjarlæg mið allt fram til loka áttunda áratugarins. Eftir að Íslendingar færðu út landhelgi sína í 200 mílur um miðjan áttunda áratuginn, fylgdu aðrar þjóðir við norðanvert Atlantshaf fljótlega í kjölfarið. Árið 1977 var svo komið að færeyski flotinn hafði að mestu flust á heimamið. Á áttunda og níunda áratugnum voru fjárfestingar í sjávarútvegi gífurlegar í Færeyjum og nam heildarfjárfesting allt að 40-50% af landsframleiðslu eyjanna, mest í búnaði til veiða og vinnslu. Aukin afkastageta fiskiskipaflotans auk Hráefnasjóðsins svokallaða (sem tryggði lágmarksfiskverð til útgerðanna) leiddi til þess að fiskistofnarnir við eyjarnar voru ofnýttir nær allan níunda áratuginn og var oft veitt allt að tvisvar sinnum meira en fiskifræðingar lögðu til. Ofveiðin leiddi til þess að í byrjun tíunda áratugarins hrundu fiskistofnarnir við Færeyjar og við tók ein dýpsta efnahagskreppa sem vestrænt ríki hefur orðið fyrir á friðartímum. Bankakerfið hrundi, landsframleiðslan féll um þriðjung, fjórði hver maður var án atvinnu og einn af hverjum tíu flutti úr landi. Þessi atburðarás lýsir því vel hvað gerist, ef fiskveiðar eru ekki takmarkaðar í þjóðfélagi sem byggir svo mjög á einni auðlind. Svo lengi sem veiðarnir eru arðsamar munu nýir aðilar þyrpast inn og þeir sem fyrir eru fjárfesta í skipum og búnaði þar til fiskistofnarnir hafa verið ofveiddir.

Færeyingar tóku upp kvótakerfi að kröfu Dana árið 1992, en því var varpað fyrir róða eftir aðeins eitt ár og sóknarmarkskerfi innleitt, sem hefur verið við lýði síðan. Erfitt er að dæma árangur þessa kerfis, enn sem komið er. Kreppan í Færeyjum og gjaldþrot sjávarútvegsfyrirtækja þar, leiddi til þess að flotinn skrapp saman um allt að helming frá því sem mest var og bankarnir héldu að sér höndum hvað varðaði lán til nýrra skipakaupa. Vegna þessa hafa fjárfestingar staðið í stað í greininni og sóknin hefur ekki aukist úr öllu valdi því skipin eru bæði eldri og færri en áður. Hversu lengi þetta ástand varir skal ósagt látið. En ef marka má reynslu annarra ríkja mun sóknarkrafturinn aukast í náinni framtíð og því er vafasamt að draga sterkar ályktanir af því tímabundna ástandi sem nú ríkir á eyjunum og yfirfæra það á Ísland. 


2. Kvótakerfið takmarkar nýliðun í sjávarútvegi

Kvótakerfið hindrar allar veiðar án kvóta og nýliðar verða að kaupa kvóta af þeim sem fyrir eru til þess að hefja veiðar. Þannig er nýliðun án kvótakaupa hindruð. Mörgum Íslendingum finnst mikilvægt að fisknir einstaklingar geti keypt bát og hafið útgerð og unnið sig upp eins og verið hefur frá alda öðli. Þessum hinum sömu finnst kvótakerfið hefta það. Óvíst er að hægt sé að finna fískveiðistjórnunarkerfi, sem myndi ekki hindra innkomu nýrra aðila með einhverjum hætti, því ef aðgangur er frjáls og veiðarnar eru arðsamar, fjölgar nýliðum þar til fiskistofnarnir hrynja. Sóknarmarkskerfi, til að mynda, hlýtur að vera byggt á einhvers konar takmörkunum. Annað hvort með því að takmarka sóknargetuna með tæknilegum hindrunum, þ.e. banna skipum að fjárfesta í búnaði, eða hindra aðgang nýrra skipa. Hér áður fyrr á Íslandsmiðum, gat nýtt skip aðeins bæst í flotann ef gamalt skip var tekið út í staðinn. Ef slíkt er ekki gert er aðeins hægt bregðast við með því að stytta veiðitímann þar til arðsemi er ekki lengur til staðar í greininni og nýir aðilar hætta að streyma inn. Stundum er þetta þó ekki nóg. Veiðum á Kyrrahafslúðu, undan strönd N-Ameríku, er t.d. stjórnað með sóknarmarki og taka þær aðeins einn dag því fjöldi skipa kemur á vettvang og veiðir leyfilegan hámarksafla á einum degi. Þetta er þó aðeins eitt dæmi af mörgum um langtíma áhrif sóknarmarkskerfis á fiskveiðarnar ef nýliðun er ekki takmörkuð.

Með aflamarkskerfinu verður kvótinn aðeins hluti af þeirri fjárfestingu sem þarf til þess að hefja útgerð. Svipaður kostnaður myndi leggjast til í sóknarmarkskerfi, þar sem réttindin til þess að veiða eru þá innifalinn í verði skipsins sem verður að kaupa til þess að geta hafið útgerð. Þetta sést best á því að undanfarin ár hafa krókaleyfisbátar gengið kaupum og sölum á verði sem er langt yfir raunverðmæti bátanna. 


3. Sóknarmark er góð byggðastefna

Ef sóknarmark yrði tekið upp í fiskveiðum við Ísland yrðu áhrifin eftir landshlutum mjög mismunandi. Þeir útgerðarstaðir sem eru næstir miðunum gætu hagnast á kostnað þeirra staða sem fjær eru. Þetta stafar af því að við sóknarmark verða veiðarnar að keppni á milli einstakra skipa og byggðarlaga. Þeir sem eiga styst til hafnar frá miðunum hafa því möguleika til þess að veiða mest. Veiðiþol fiskistofnanna er takmarkað og ef þeir sem eru nær veiða meira, hlýtur minna að koma í hlut þeirra sem fjær eru. Þess vegna myndi sóknarmark hugsanlega leiða til byggðaröskunar innan landsbyggðarinnar, styrkja sumar byggðir en veikja aðrar. Það er því eðlilegt að Vestfirðingar séu hallir undir sóknarmarkskerfi, en frá Vestfjörðum er stutt á góð þorskmið. Sóknarmark gæti hins vegar aldrei leitt til byggðastefnu sem landið í heild gæti sætt sig við.

Sóknartakmarkanir hafa, þar sem þær hafa verið reyndar, leitt til offjárfestingar, slæmrar nýtingar framleiðslufjármuna og lélegrar afkomu. Jafnvel þótt útgerðarstaðir sem fjærst eru miðunum myndu sætta sig við að hætta útgerð, myndi sóknarmarkið ekki vera nein byggðablessun þegar til lengri tíma er litið, jafnvel ekki á Vestfjörðum. 


4. Íslendingum hefur ekki tekist að byggja upp fiskistofnana þrátt fyrir að aflamarkskerfið hafi verið við lýði í 17 ár.

Þegar rætt er um uppbyggingu fiskistofna er mikilvægt að rugla ekki saman ákvörðun um heildarafla og því hvernig veiðunum er stjórnað. Fiskveiðistjórnunarkerfið hérlendis byggir á tveim þrepum. Fyrst er heildarafli tegunda ákvarðaður út frá tillögum Hafrannsóknarstofnunar. Næsta þrep felst í að útgerðum í aflamarkskerfi er úthlutað kvóta og krókaleyfisbátum sóknardögum. Aflamarksskip geta ekki veitt umfram kvóta sína, nema þá leigja eða kaupa viðbótarkvóta. Bátar í sóknardagakerfi geta hins vegar veitt eins mikið og þá lystir eða allt þar til veiðar í þessum hluta kerfisins eru stöðvaðar, en það gerist þegar heildarafli í sóknarkerfi hefur náð ákvörðuðu hámarki. Það er því ljóst að ef menn eru telja að mistök hafi átt sér stað við fiskveiðastjórnun og afli sé því minni af þeim sökum, að þá er það ekki kvótakerfinu að kenna heldur líffræðilegri óvissu um ástand og veiðiþol fiskistofna sem leitt hafa til rangra ákvarðana um heildarafla. Ef t.d. sóknarmark væri við lýði mundu yfirvöld samt sem áður reyna að koma í veg fyrir veiðar umfram veiðiþol. Sú viðleitni væri auðvitað erfiðari og háð gæftum á miðunum.

Ljóst er að heildarafli hefur í einhverjum tilfellum farið fram úr áætlun og sögur hafa verið uppi um að einhverju magni þorsks sé landað framhjá vikt. Þetta magn er þó óverulegt ef miðað er við að heildar botnfiskafli var um 504 þúsund tonn fiskveiðiárið 1999/2000. Því er ljóst að eingöngu ef umtalsvert brottkast fiskjar er fylgifiskur kvótakerfisins geta verið tengsl á milli uppbyggingar fiskistofnana og aflamarkskerfisins sem leiðir okkur að næsta atriði. 


5. Kvótakerfið ýtir undir brottkast fisks og sóun

Um árabil hefur það orðspor fylgt kvótakerfinu að það leiði til brottkasts fiskjar og sóunar verðmæta. Nú nýverið gerði Gallup umfangsmikla könnun meðal sjómanna um hvað hæft sé í þessum staðhæfingum. Niðurstöður hennar sýndu að allt að 25.600 tonnum af bolfiski er hent árlega. Þetta eru ógnvænlegar tölur og hafa þær verið raktar beint til kvótakerfisins. Í kjölfarið hafa menn gjarnan tengt brottkastið við rányrkju og þverrandi fiskistofna. Hér má þó ekki hrapa að ályktunum. Það brottkast sem hefur verið gefið til kynna með nafnlausum könnunum, er mjög lítill hluti af afla eða aðeins um 5% af heildarafla. Það ætti ekki að skipta sköpum um viðgang fiskistofna, jafnvel þó það væri ívið meira. Þá er heldur ekki víst að brottkastið dragi úr hagkvæmni kvótakerfisins. Í fyrsta lagi verða afföll í allri framleiðslu, hvort sem um er að ræða ræktun grænmetis, mjólkurframleiðslu eða í fiskveiðum. Ef aftur er miðað við 5% brottkast má segja að "nýtingarstuðulinn" í bolfiskveiðum sé um 95%. Ennfremur er ljóst, að sá fiskur sem hent er aftur í sjóinn er yfirleitt verðlítill eða verðlaus vegna t.d. sjúkdóma, holdafars eða stærðar og því ekki mikið verðmætatap þó hann komi ekki að landi.

Í öðru lagi er ekkert sem bendir til þess að nýtingarstuðlar séu hærri í öðrum stjórnunarkerfum. Það er t.d. alþekkt í sóknarmarkskerfi að meiri áhersla er lögð á magn en gæði og meiri afli er innbyrtur en hægt er að ísa eða frysta. Þá má einnig benda á að í könnun sem SKÁÍS gerði meðal sjómanna árið 1990 kom fram, að um 40 þúsund tonnum væri hent fyrir borð. Eins og fram kemur hér að neðan var einungis um helmingur afla veiddur á kvótaskipum á þessum tíma. Það er því ekki hægt að slá neinu föstu um hvort sóknarmarkskerfi eða aflamarkskerfi leiði til meira brottkasts. 


6. Kvótakerfið hefur verið lýði frá árinu 1984

Kvótakerfið í núverandi mynd varð til árið 1990, þótt aflamarkskerfi hafi fyrst verið tekið upp í botnfiskveiðum 1984. Frá 1985 og fram til 1990 var öllum skipum hins vegar gefinn kostur á að velja á milli sóknar- og aflamarks og mörg nýttu sér fyrri kostinn. Aflamarkskerfi hafði þó verið við lýði í síldveiðum frá 1975. Árið 1986 voru aðeins um 30% af heildarþorskafla veidd af kvótaskipum. Þetta hlutfall hafði vaxið í um 50% á árunum 1988-90. Til að hvetja útgerðarmenn til að flytja sig yfir í aflamarkskerfið var sóknarmarksskipum, sem fluttu sig yfir í aflamarkskerfið á árunum 1986-87, gefinn kostur á að auka hlutdeild sína í heildarafla. Ný lög um stjórn fiskveiða voru síðan sett árið 1990. Allir bátar 6 brúttórúmlestir og stærri voru nú settir á samræmt aflamark og var skipum, sem höfðu lágt aflamark, úthlutaðar sérstækur bætur sem námu 40% af því sem upp á vantaði til að þau næðu meðaltali í sínum skipaflokki. Enda þótt aflamarkskerfið teygi þannig rætur sínar allt til ársins 1984 fer því fjarri að kvóti allra skipa hafi byggt á veiðireynslu áranna 1981-83 eins og oft er haldið fram. 


7. Aflamarkskerfið eykur fjárfestingu og skuldasöfnun útgerðarinnar er óeðlileg

Undanfarinn áratug hafa skuldir sjávarútvegs vaxið mikið að krónutölu. Þetta má rekja til kvótakerfisins að einhverju leyti. En eftir að það kom til sögunnar árið 1990 hafa útvegsfyrirtækin átt hægara með að fá lán þar sem fjármálastofnanir höfðu nú tryggari veð fyrir lánum en áður þekktist. Lánin hafa síðan verið notuð til þess að fjármagna hagræðingu innan greinarinnar. Í stuttu máli er sagan sú að hagkvæmari útgerðir kaupa þær óhagkvæmari út úr sjávarútvegi. Í kjölfarið fækkar störfum en skuldir vaxa. Greinin notar meira fjármagn, en ekki á sama hátt og áður. Helstu verðmætin felast nú í kvótastöðu - ekki skipum og vinnsluhúsum. Þrátt fyrir þetta er eiginfjárstaða greinarinnar mjög sterk um þessar mundir að teknu tilliti til kvótaeignar og greinin er vel undir það búin að mæta skakkaföllum. Með öðrum orðum, eignir og skuldir útgerðanna hafa vaxið með tilkomu kvótakerfisins - eignirnar þó hraðar.

Hagræðing hefur verið afar knýjandi í íslenskum fiskveiðum á síðustu árum. Þorskafli hefur minnkað um rúmlega helming frá árinu 1981 og sóknin varð að minnka. Til þess að ná þessu sama markmiði í sóknarmarkskerfi hefðu þurft að koma til stórfelld uppkaup á fiskiskipum eða mikill stuðningur stjórnvalda við óhagkvæmar útgerðir. 


8. Mikil búseturöskun hefur átt sér stað í kjölfar kvótakerfisins

Ástæðan fyrir fólksflutningum geta verið mjög margvíslegar, s.s. af félagslegum, atvinnulegum, heilsufarslegum og menntunarlegum ástæðum, eins og kemur glögglega fram í ágætri skýrslu Byggðastofnunar frá árinu 1997: "Misjafnt er milli landshluta á landsbyggðinni í hve miklum mæli fólk er ánægt með einstaka þætti búsetuskilyrðanna, t.d. eru Vestfirðingar og íbúar bæjanna á norðanverðum Austfjörðum ánægðir með atvinnumálin í byggðarlagi sínu þó svo að þaðan hafi verið mikill brottflutningur."

Kvótaflutningar eiga sér yfirleitt stað í tengslum við hagræðingu af einhverjum toga, sem er oft forsenda þess að fyrirtækin geti greitt hærri laun. Þessar færslur hafa því stutt við byggð á allmörgum stöðum um landið, þó það sé alls ekki sjálfgefið að fólksfjöldi vaxi í kjölfar bættrar kvótastöðu. Þvert á móti. Fólksfækkun hefur jafnvel átt sér stað á sumum stöðum sem bætt hafa við sig kvóta, s.s. Fjarðarbyggð. Kvóta- og fólksflutningar á milli sveitarfélaga eru því aðeins einn þáttur í ferli sem á sér djúpar orsakir. Ekki er hægt að tengja þessa tvö atriði saman með jafn afgerandi hætti og margir vilja vera láta.

Ekki er heldur hægt að skilja þessar breytingar án þess að skoða þær í sögulegu samhengi. Rót vandans í mörgum smærri sveitarfélögum liggur í þeim óhóflegu fjárfestingum í fiskveiðum og vinnslu, sem ráðist var í á áttunda áratugnum. Það leiddi til mjög örrar fólksfjölgunar þann áratuginn á smærri stöðum, sem nú er að nokkru að ganga til baka. Afkastageta fiskvinnslunnar vítt og breitt um landið hefur lengi verið mun meiri en þörf er á og því er viðbúið að staðir á landsbyggðinni takist á um hráefni og kvóta. 


9. Smábátum hefur vegnað verr eftir upptöku kvótakerfisins

Árið 1984 var bátum undir 10 brúttórúmlestum úthlutuð 3,77% af heildarafla ársins, en sókn sérhvers báts hvorki takmörkuð með sóknar- eða aflamarki. Aftur á móti var heimilt að stöðva veiðarnar ef hinn sameiginlegi heildarkvóti færi fram úr áætlun. Þessari heimild var þó ekki beitt, enda þótt aflinn árið 1984 yrði 5,9% af heildarafla og í raun hafa smábátar ætíð fengið sérmeðferð innan fiskveiðistjórnunarkerfisins. Næstu sex ár þar á eftir þrefaldaðist afli smábátanna frá 15 þúsund tonnum í 48 þúsund tonn og hlutdeild þeirra í heildarþorskafla var orðin rúm 14% árið 1990. Þessa miklu hlutdeildar- og aflaaukningu má að mestu rekja til mikillar fjölgunar smábáta, en þeim fjölgaði úr 1060 bátum árið 1984 í 2045 báta árið 1990. Með lögunum 1990 var aflamark sett á 6-10 brúttórúmlesta báta, en minnstu bátarnir, krókaleyfisbátarnir svokölluðu, stóðu eftir sem áður utan við kerfið. Afleiðingar þessa urðu þær, að krókaleyfisbátunum fjölgaði úr 742 árið 1990 í 1126 árið 1994. Aflahlutdeild þeirra jókst úr 5% árið 1990 í 22% fiskveiðiárið 1994/95. Heildarveiðin það árið nam 164 þúsund tonnum og þar af veiddu krókaleyfisbátar 36 þúsund tonn. Á síðustu árum hefur þessum bátum fækkað á ný, en afli þeirra aukist í tonnum talið. Fiskveiðiárið 1999/2000 var þorskaflinn rúm 41 þúsund tonn eða 16% af heildarafla og heildarbotnfiskafli nálega 60 þúsund tonn.

Af þessu má draga tvær ályktanir. Í fyrsta lagi sýnir þetta í smækkaðri mynd hvernig að sóknarmarkskerfi þróast yfir tíma. Sóknartakmarkanir smábáta hafa ekki aðeins leitt til mikillar fjölgunar nýliða, heldur einnig til mikilla fjárfestinga í tækjum og búnaði sem bátarnir nota við veiðar sínar. Það hefur síðan valdið því að afli þeirra hefur staðfastlega farið fram úr áætlunum. Í öðru lagi má segja að þrátt fyrir háværa umræðu um illa meðferð á smábátasjómönnum hefur vegur þeirra vaxið gífurlega frá upphafi aflamarkskerfisins. Kvótakerfið hefur haldið veiðum aflamarksskipa í skefjum en gefið smábátum nær frítt spil til þess að auka sínar veiðar. 


10. Kvótakerfinu ætti að varpa fyrir róða

Stöðugt rekstrarumhverfi skiptir miklu fyrir öll atvinnufyrirtæki. Sjávarútvegsfyrirtæki þurfa að glíma við meiri óstöðugleika en þekkist í flestum öðrum greinum, vegna náttúrulegra sveiflna í stofnstærðum. Vart getur talist heppilegt að bæta pólitískri óvissu þar á ofan. Hafa ber í huga að sjávarútvegur er ekki einkamál sjómanna eða útgerðarmanna eða nokkurra annarra, heldur er hann meginstoð íslensks efnahagslífs og afkoma hans skiptir sköpum fyrir lífskjör almennings, hvar sem er á landinu. Í þessu ljósi er umræða um kvótakerfið oft óábyrg. Gagnrýnendur eru margir og stórorðir, en það er aðeins andstaðan við núverandi kerfi sem sameinar þá. Engin samstaða hefur náðst um nokkra aðra leið. Sumir vilja stjórna með handafli, aðrir með sóknarmarki og enn aðrir viljafrjálsar veiðar. Hægt er að sjá fyrir umbætur á núverandi kerfi, s.s. auðlindagjald, en gagnger umbylting, sem allir gætu sætt sig við, er mjög ólíkleg. 

Niðurlag

Sú uppsveifla sem nú er að ganga yfir, er sú hin fyrsta frá stríðslokum sem ekki er knúin áfram af útflutningi sjávarafurða. Í kjölfarið breiddist sú skoðun út, að sjávarútvegur skipti ekki lengur máli fyrir efnahagslíf hérlendis því hátæknigreinar og nýja hagkerfið væru að taka við. Hins vegar hafa atburðir síðustu vikur og mánuði sannað, að lítið hefur breyst í íslensku efnahagslífi. Landið er háð sjávarútvegi sem skapar bróðurpartinn af vöruútflutningi hérlendis. Hægt er að komast undan þessu tímabundið með erlendum lántökum, sem landsmenn hafa gert síðustu ár í ríkum mæli. Samhliða því hefur efnahagslífið teygst lengra í átt til verslunar og þjónustu en annars hefði verið mögulegt. Hins vegar er staðreyndin sú að landsmenn verða enn að styðjast við sjávarútveg. Vegna þessa hafa Íslendingar ekki sama svigrúm og aðrar stærri þjóðir til að hræra í sjávarútvegi á pólitískum forsendum, því það kemur beint niður á lífskjörum þjóðarinnar. Þetta þýðir ekki að aldrei megi megi víkja frá ýtrustu hagkvæmnissjónarmiðum, en ef það gerist verður það að vera að yfirlögðu ráði og þjóðin öll verður að gera sér grein fyrir afleiðingum þess. Hér má einnig benda á að hagsmunir einstakra hópa innan sjávarútvegsins þurfa alls ekki að fara saman við hagsmuni heildarinnar.

Stór hluti þjóðarinnar virðist vera þeirrar skoðunar að leggja beri auðlindaskatta á útgerðina, þar sem auðlindin sé lögfest eign þjóðarinnar allrar og því skuli hún öll njóta afrakstursins. Þeir hinir sömu verða að hafa í huga að ef skattleggja á auðlindahagnaðinn þá þarf hann að vera fyrir hendi og eina þekkta raunhæfa kerfið sem tryggir hann, er aflamarkskerfi líkt og hið íslenska, allt annað eru töfluæfingar. Því ættu nefndir veiðigjaldssinnar fremur öðrum að standa vörð um núverandi fyrirkomulag fiskveiðistjórnunar á Íslandi. 

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 9. júní 2001.

Rætur brottkasts

Enginn mælir brottkasti bót. En það er vissulega undarlegt hversu lítið fer fyrir heiðarlegum tilraunum til að greina hvað býr að baki því brottkasti sem á sér stað á Íslandsmiðum. Meiri áhersla er lögð á hasar en skilning. Markmiðið virðist ekki vera að upplýsa heldur að grafa undan stjórnun fiskveiða með öllum tiltækum ráðum.

Rætur brottkasts

Þegar rætt er um brottkast er í raun verið að tala um tvö ólík mál. Fiski er hent ef hann er mjög smár og að heita má verðlaus. Líklega er stærsti hluti brottkasts af þessum toga. Þetta brottkast hefur tíðkast um aldir og hefur ekkert með fiskveiðistjórnunarkerfið að gera. Gegn þessu brottkast og smáfiskadrápi almennt er unnið með lokun smáfiskssvæða um lengri og skemmri tíma. Brottkast af þessum toga hefur einnig farið minnkandi eftir því sem möskvar hafa verið stækkaðir og kjörhæfni veiðarfæra aukist. Enn er þó hægt að gera betur í þessum efnum og eru miklar vonir bundnar við nýja þróun í smáfiskaskiljum.

En brottkast er einnig af öðrum toga. Ef skip er gert út án aflahlutdeildar verður að leigja heimildir fyrir öllum þeim afla sem landað er. Við þær aðstæður skapast hvati til að að henda verðminnsta fiskinum og er sá hvati því meiri sem leiguverð aflaheimilda er hærra. Þessi hluti virðist hafa farið vaxandi að undanförnu af heimatilbúnum ástæðum.

 

Þáttur Hæstaréttar

Það er sameiginlegt markmið allra fiskveiðistjórnunarkerfa að ná tökum á stærð fiskiskipaflotans, þótt þetta markmið sé nálgast á mismunandi hátt í mismunandi kerfum. Þetta markmið er ekki viðbrögð við neinni sérstakri neyð heldur nauðsynleg ráðstöfun til að fyrirbyggja neyð vegna ofveiði sem óheftar tæknivæddar fiskveiðar leiða óumflýjanlega af sér. Það var þetta atriði sem Hæstarétti yfirsást þegar hann kvað upp svonefndan Valdimarsdóm. Fáeinum vikum fyrr höfðu ríki heims samþykkt sérstaka áætlun á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um takmörkun á stærð fiskiskipaflota sinna. En Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að þetta mætti ekki á Íslandi, einu landa. Í kjölfarið hefur bæst í flotann fjöldi skipa sem tekin höfðu verið úr umferð. Þessi skip eru flest án aflahlutdeildar.

 

Áhrif framsals

Hvað sem okkur finnst um dómgreind Hæstaréttar ber okkur að hlíta dómum hans.

Fyrst ekki má koma í veg fyrir að skipum fjölgi eiga menn að skoða hvort ekki megi þrengja heimildina til leigu aflaheimilda. Ef það væri gert hyrfi rekstrargrundvöllur flestra þeirra útgerða sem byggja á því að flokka aflann og henda öllu nema stórfiskum. Með því móti mætti líklega ná mikilsverðum árangri í baráttunni gegn brottkasti.

 

Með lögum skal land byggja

Útgerðarmenn kvótalausra báta verja brottkast sitt með því að segja að fiskveiðistjórnunarkerfið geri þá að lögbrjótum. Gera lögin menn að lögbrjótum? Að sjálfsögðu, í þeim skilningi að ef engin væru lögin væru heldur ekki neinir lögbrjótar. En lögin gera ekki alla menn að lögbrjótum,--aðeins suma. Eiga þeir að fá forgang til veiða? Svari hver fyrir sig.

 

Togveiðhólf

Togveiðihólf í fiskveiðilandhelgi Íslands

Hér að ofan eru á myndrænan hátt sýnd þau svæði og á hvaða tímum einstökum flokkum fiskiskipa er heimilt að stunda veiðar með botntrolli, skv. 5. grein laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Afmörkun svæðanna miðast við stærðir skipa og aflvísa þeirra. 

Skipunum er skipt í þrjá flokka í lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands:

1. flokkur: Fiskiskip 42 metrar og lengri. Enn fremur öll fiskiskip með aflvísa 2.500 eða hærri.
2. flokkur: Fiskiskip lengri en 29 metrar en styttri en 42 metrar með aflvísa lægri en 2.500. Enn fremur fiskiskip styttri en 29 metrar en með aflvísa 1.600 og hærri. Í þennan flokk falla einnig fiskiskip 39 metrar og styttri sem togveiðiheimildir höfðu eftir þeirri viðmiðun skv. 3. gr. laga nr. 81 31. maí 1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, enda verði ekki um aukningu á aflvísum þeirra að ræða eftir 1. júní 1997.
3. flokkur: Fiskiskip styttri en 29 metrar, enda séu þau með lægri aflvísa en 1.600. Enn fremur fiskiskip 26 metrar og styttri sem togveiðiheimildir höfðu eftir þeirri viðmiðun skv. 3. gr. laga nr. 81 31. maí 1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, enda verði ekki um aukningu á aflvísum þeirra að ræða eftir 1. júní 1997.

Nánari upplýsingar er að finna í lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 29/1997. Lögin má nálgast með því að smella hér.

Kort það sem hér er sýnt er frá Sjómælingum Íslands. SFS ber ekki ábyrgð á ef þær upplýsingar sem gefnar eru á kortinu eru rangar, eða ef breytingar sem kunna að verða gerðar gera þær rangar, þó þær séu réttar nú.

Reglugerð og friðunarsvæði við Ísland 2015

Hrygningarstopp 2015


Sækja kort og upplýsingar sem pdf skjal hér

Á heimasíðu Fiskistofu eru kortin hér að ofan uppfærð reglulega

Áhugaverðir tenglar tengdir sjávarútvegi