„Aðalmarkmiðið að efla þorpið og samfélagið“

Fiskur og ferðamenn
11. október 2016

Hjá Fisk­vinnsl­unni Íslands­sögu hf. á Suður­eyri geng­ur rekst­ur­inn ekki bara út á að veiða og snyrta fisk. Ferðaþjón­usta verður æ stærri hluti af starf­sem­inni en í sum­ar heim­sóttu um 3.300 ferðamenn fisk­vinnsl­una. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi veittu Óðni Gestssyni framkvæmdastjóra Íslandssögu fyrir skemmstu verðlaun á sjávarútvegssýningunni 2016 fyrir skemmtilegt framtak. Í umsögn samtakanna sagði meðal annars að Íslandssaga hafi stuðlað að vexti og viðgangi annarra fyrirtækja í nærumhverfi sínu, meðal annars með öflugu samstarfi við ferðaþjónustufyrirtækið Fisherman sem einnig er á Suðureyri. í kjölfarið ákváðu samtökin að útbúa myndband með þessari skemmtilegu sögu frá Suðureyri sem hér má sjá að ofan. 

„Íslandssaga hefur í samstarfi við önnur fyrirtæki á Suðureyri unnið ötullega að því að skapa fjölbreyttara atvinnulíf á Vestfjörðum og um leið auka verðmæti sjávarfangs. Þar með hafa skapast auknir möguleikar fyrir fjölskyldur að starfa og vinna ólík störf innan bæjarfélagsins.“  


Óðinn Gestsson, framkvæmdastjóri Íslandssögu, segir þó aðalmarkmiðið ekki að bæta meiri tekjum í reksturinn, heldur mun frekar að efla þorpið og samfélagið. „Það er miklu meira virði fyrir okkur ef það bætir lífið í þorpinu að laða fleiri ferðamenn hingað. Það getur líka verið gefandi að taka á móti þessum erlendu gestum og sýna þeim hvað við fáumst við. Viðbrögð þessa ágæta fólks sem sækir okkur heim eru oft mjög skemmtileg og þess eru dæmi að starfsmönnum hafi borist gjafir frá útlöndum.“

70 á launaskrá

Í dag gerir Íslandssaga út einn smábát, hefur kvóta upp á um 600 þorskígildistonn og 70 manns á launaskrá, þar af 50 í vinnslu og 20 við veiðar. „Í gegnum samninga við aðra höfum við aðgang að rúmlega þúsund ígildistonnum til viðbótar,“ útskýrir Óðinn en fiskvinnslan verkar á bilinu 3.500 til 5.500 tonn árlega.

 Hann segir ferðamennina hafa blandast inn í reksturinn þegar byrjað var að bjóða upp á sjóstangaveiði á svæðinu. Stangveiðimönnum hafi gengið illa við að flaka og litið við í fiskvinnslunni til að fá aðstoð og um leið viljað fá að skoða sig um. Þetta hafi svo undið upp á sig og fjölgun skemmtiferðaskipa á svæðinu hafi vantað enn frekari afþreyingu. 

Íslandssaga vinnur nú með ferðaþjónustufyrirtækinu Fisherman en Elías Guðmundsson, athafnamaður á Suðureyri hefur byggt upp starfsemi þess. Fisherman heldur utan um heimsóknir ferðamannanna í vinnsluna og hefur reksturinn vaxið jafnt og þétt. Nú starfrækir Fisherman gistiheimili, affihús og veitingastað og skipuleggja matarferðir um svæðið. Í ferðunum eru ferðamönnum meðal annars sýndir fiskhjallar og lífið niðri á bryggju og við flökunarborðið hjá Íslandssögu, auk þess sem náttúruundur á svæðinu eru heimsótt.

Í viðtali við Morgunblaðið lýsti Óðni stöðinni þannig að sannkölluð sprenging hafi orðið í fjölda gesta. „Við ákváðum að hafa ferðirnar á auglýsingaprís fyrsta árið og rukka 500 kr. á haus fyrir hvern gest. Á móti fjárfestum við í að koma upp móttökuaðstöðu og kaupa sloppa og hárnet fyrir fólkið. Gestirnir fylgja síðan línu sem merkt hefur verið í gegnum húsið. Leiðbeiningarnar eru skýrar: það má horfa en ekki snerta.“

Eins og aðrar fiskvinnslur leggur Íslandssaga ofuráherslu á gæði og öryggi vörunnar og gætu sumir haldið að væri varasamt að hleypa gestum inn í vinnslurýmið. Óðinn segir að komi ekki að sök þó að ferðamennirnir fái að skoða sig um. „Ekki þarf nein sérstök leyfi fyrir þessu. Þá höfum við látið alla okkar stærstu kaupendur vita og enginn þeirra gert neinar athugasemdir.“

„Aðalmarkmiðið að efla þorpið“

Er ekki flókið dæmi að reikna út að Íslandssaga hafði um 1,5 milljónir króna í aukatekjur af ferðamönnunum í sumar. Þá mætti reikna með að tekjurnar muni aukast með hækkuðum aðgangseyri og fleiri gestum. Óðinn segir þó aðalmarkmiðið ekki að bæta meiri tekjum í reksturinn, heldur mun frekar að efla þorpið og samfélagið.

„Það er miklu meira virði fyrir okkur ef það bætir lífið í þorpinu að laða fleiri ferðamenn hingað. Það getur líka verið gefandi að taka á móti þessum erlendu gestum og sýna þeim hvað við fáumst við. Viðbrögð þessa ágæta fólks sem sækir okkur heim eru oft mjög skemmtileg og þess eru dæmi að starfsmönnum hafi borist gjafir frá útlöndum.“