Verðmæti vísinda – Frá grunnrannsóknum til lækningavara á markaði

18. nóvember 2014

Zymetech grundvallast á áratugarannsóknum við Háskóla Íslands á meltingarensímum úr þorski og hagnýtingu ensímanna í lækningavörur og snyrtivörur á markaði.

Ágústa Guðmundsdóttir, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, fjallar um tilurð og vöxt líftæknifyrirtækisins Zymetech og tengsl þess við grunnrannsóknir í skólanum í öðru erindi fyrirlestraraðarinnar Vísindi á mannamáli sem Háskóli Íslands stendur fyrir. Erindið verður í Hátíðasal Háskóla Íslands þriðjudaginn 18. nóvember nk. kl. 12.10.
 
Líftæknifyrirtækið Zymetech byggist á rannsóknum Ágústu og Jóns Braga Bjarnasonar heitins, prófessors í lífefnafræði við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands. Zymetech grundvallast á áratugarannsóknum við Háskóla Íslands á meltingarensímum úr þorski og hagnýtingu ensímanna í lækningavörur og snyrtivörur á markaði.
 
Fjallað verður um gildi grunnrannsókna í nýsköpunarferlinu og það hvernig djúp þekking á ensímum, örverufræði, matvælafræði, lífefnafræði, frumulíffræði og lyfjafræði nýtist beint í hagnýtri líftækni. Nýsköpunarferli líftæknifyrirtækja er langt og flókið. Alþjóðlegir markaðir líftækniafurða, eins og t.d. lækningavara, eru stórir, kröfuharðir og nýjungagjarnir. Því krefst þróun nýrra lækningavara fyrir slíka markaði sífelldrar uppbyggingar hugvits og aukinnar þekkingar. Kostnaður við einkaleyfi, skráningu lækningaafurða, erlenda ráðgjafa, markaðsmál, leyfisveitingar og fleira er mikill en nauðsynlegur fyrir alþjóðlega markaðssetningu.
 
Zymetech hefur átt gott samstarf við Háskóla Íslands og Landspítala – háskólasjúkrahús um öflun rannsóknastyrkja, menntun framhaldsnema og birtingu vísindagreina. Einnig býður samstarfið upp á störf fyrir unga vísindamenn og aðgengi að sérhæfðri aðstöðu til grunn- og læknisfræðilegra rannsókna. Mikilvægi rannsóknasjóða fyrir nýsköpun og áframhaldandi uppbyggingu hugvits innan fyrirtækja á alþjóðamarkaði verður einnig rætt.
 
Boðið verður upp á hádegishressingu að erindi loknu.