Útboð á togararalli

13. janúar 2015

Verkefnið "Stofnmælinga botnfiska á Íslandsmiðum" (togararall) hefur farið fram frá árinu 1985 en það er mikilvægur þáttur í árlegu mati á stofnstærð botnfiska.

Vegna næsta togararalls sem fram fer í mars hefur verið óskað eftir tilboðum í leigu á allt að þremur togurum.

Rannsóknaskipið Árni Friðriksson mun einnig taka þátt í rallinu eins og undanfarin ár en ekki er gert ráð fyrir þátttöku rannsóknaskipsins Bjarna Sæmundssonar. Til margra ára hafa svokallaðir Japans togarar sinnt þessu verkefni skv. útboðum. Vakin er athygli á að stærðarmörk hafa verið rýmkuð miðað við fyrri útboð þannig að fleiri togarar geta tekið þátt. Helstu skilyrði eru eftirfarandi:

• Mesta lengd: Á bilinu 47-70 m
• Skráð breidd: Á bilinu 9-14 m
• Brúttótonn: Á bilinu 660-2230
• Togkraftur: A.m.k. 29 tonn
• Gilt haffærisskírteini
• Togari gerður út september-desember 2014
• Vistarverur: Hreinar og snyrtilegar
• Vinnuaðstaða: Nægilega rúmgóð og björt

Gefinn er kostur á tilboðum til eins, þriggja eða fimm ára. Allar frekari upplýsingar um útboðið veita Ríkiskaup, s. 530 1400 og má nálgast útboðsgögn á
http://www.rikiskaup.is/utbod/utb/15753

http://www.rikiskaup.is/utbod/utb/15753
Fyrirspurnarfrestur er til 13.janúar og opnunarfundur 22.janúar.

Togararallið hefur mikið vægi í stofnmati og veiðiráðgjöf fyrir þorsk, ýsu, gullkarfa, steinbít, hlýra, keilu, löngu, skötusel, hrognkelsi og margar tegundir flatfiska. Einnig fást upplýsingar um útbreiðslu og líffræði fjölmargra annarra fisktegunda. Rannsóknasvæðið er umhverfis allt Ísland, frá grunnslóð og niður á 500 m dýpi, og alls er togað á um 600 stöðvum.