Hnakkaþon

23. janúar 2015

Útflutningskeppni sjávarútvegsins verður haldin í Háskólanum í Reykjavík 23. - 24. janúar og er opin öllum nemendum HR.

Hnakkaþon er samkeppni fyrir upprennandi sérfræðinga í markaðsmálum, hugbúnaði, tækni og vörustjórnun til að sanna hæfni sína og hæfileika í að þróa og útfæra lausnir fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi. Áskorun Hnakkaþonsins varðar einn af megin atvinnuvegum þjóðarinnar og öll þau umsvif sem þarf til að koma hágæða vöru á alþjóðlega markaði.

Keppnin er samstarfsverkefni Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Háskólans í Reykjavík og er opin öllum nemendum HR.

Vinningsliðið hlýtur ferð til Bandaríkjanna í boði Icelandair Group og sendiráðs Bandaríkjanna á Íslandi.

Fyrir hverja?

Hnakkaþonið er opið öllum nemendum HR sem áhuga hafa á viðskiptum, vörustjórnun, markaðsetningu og öðrum þáttum sjávarútvegs. Þátttaka er endurgjaldslaus og pizzur, gos og kaffi er í boði fyrir þátttakendur á meðan á keppni stendur.

Allt að 5 þátttakendur geta verið saman í liði. Eindregið er hvatt til þess að lið séu mynduð af nemendum frá fleiri en einni deild.

Hvar og hvenær?

Dagana 23. og 24. janúar í Háskólanum í Reykjavík.

Áskorunin í stuttu máli:

Hvernig má koma ferskum íslenskum þorskhnökkum á markað í hágæða matvöruverslunum og veitingastöðum á austurströnd Bandaríkjanna og skapa þar eftirspurn eftir vörunni? Hafa þarf í huga veiðar, flutninga innanlands frá Dalvík og í flugfrakt eða sjóflutningi, flutningaleiðina til Bandaríkjanna og svo dreifingu erlendis alla leið á disk neytenda.

Í verkefninu þarf að leggja áherslu á að hámarka söluverðmæti, lágmarka flutningskostnað og tryggja rétta markaðssetningu ferskra sjávarafurða. Til þess þarf að viðhalda ferskleika alla aðfangakeðjuna, frá veiðum, vinnslu, flutningum, dreifingu og til verslana - þar sem þegar er búið að vinna markaðsstarf með áherslu á uppruna matarins. Markmiðið er að varan sé komin í sölu til neytenda 48 tímum eftir að fiskurinn er unninn en sölutími matvælanna er sjö dagar frá afhendingu.

Til að gefa þátttakendum áþreifanlega innsýn í verkefnið munu talsmenn ólíkra fyrirtækja í virðiskeðjunni hitta nemendur og lýsa áskorunum sem þau fást við:

  • Samherji
  • HB Grandi
  • Icelandair Group
  • Iceland Seafood International
  • Matís

Lið og/eða einstaklingar geta skráð sig til leiks til 21. janúar með því að senda póst á skraning@ru.is. Nánari upplýsingar veitir Birna Þórarinsdóttir, verkefnastjóri atvinnulífstengsla,birnath@ru.is.

Facebook-síða Hnakkaþons