Forvarnir gegn bakteríusýkingum í fiskeldi

24. mars 2015

 Erindið verður í Hátíðasal Háskóla Íslands þriðjudaginn 24. mars nk. kl. 12.10.

Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir, vísindamaður og kennslustjóri framhaldsnáms við Læknadeild Háskóla Íslands, fjallar um rannsóknir á fisksjúkdómum og þróun forvarna gegn sjúkdómum í fiskeldi í fyrirlestraröðinni Vísindi á mannamáli í Háskóla Íslands. Rannsóknirnar stundaði Bjarnheiður á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Erindið verður í Hátíðasal Háskóla Íslands þriðjudaginn 24. mars nk. kl. 12.10.

Fiskeldi er í miklum vexti á heimsvísu en um helmingur fiskafurða kemur nú úr eldi. Fæðuframboð og umhverfisþættir setja fiskeldi hins vegar skorður og góðar vistvænar forvarnir gegn smitsjúkdómum eru því mjög mikilvægar fyrir uppgang atvinnuvegarins. Kýlaveikibróðir er sjúkdómur sem herjar á allar tegundir í fiskeldi á Íslandi en hann má rekja til tiltekinnar bakteríu. Í erindinu fer Bjarnheiður yfir rannsóknir sínar og samstarfsfélaga á eðli bakteríunnar en með erfðatækni tókst þeim að þróa bóluefni sem veitir öfluga vörn gegn kýlaveikibróður í laxfiskum. Bjarnheiður starfaði við Rannsóknadeild fisksjúkdóma á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum á árunum 1986-2014 en tók nýverið við starfi kennslustjóra framhaldsnáms við Læknadeild.

Um fyrirlestraröðina 
Vísindi á mannamáli er fyrirlestraröð Háskóla Íslands sem hófst haustið 2014 að frumkvæði Lífvísindaseturs og Líffræðistofu Háskóla Íslands.
Markmiðið er að varpa ljósi á það hvernig vísindamenn háskólans reyna að afhjúpa leyndardóma náttúrunnar og hvaða þýðingu vísindarannsóknir hafa fyrir daglegt líf fólks og atvinnulíf í landinu.

Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.