Vísbendingar um stærsta árgang þorsks frá upphafi rannsókna

15. apríl 2015

Stofnvísitala þorsks mældist sú hæsta frá upphafi rannsóknanna árið 1985 og er nú tvöfalt hærri en árin 2002-2008, en svipuð og hún var árið 2012. Hækkun vísitölunnar má einkum rekja til aukins magns af stórum þorski. Þessar góðu fréttir fengust úr bráðabirgðaniðurstöðum togararallsins sem Hafrannsóknastofnun birti í dag. . 

Fyrsta mat á 2014 árgangi þorsks bendir til að hann sé meðal stærstu árganga frá 1985, svipaður og árgangar 2008, 2009 og 2011. Hann kemur í kjölfar lítils árgangs frá 2013.

Útbreiðsla þorsks var meiri en í mörgum fyrri stofnmælingum í mars og góður afli fékkst á stöðvum allt í kringum landið.

Magn fæðu í þorski var minna en árin 2010-2014. Loðnan var lang mikilvægasta bráð þorsksins eins og ávallt á þessum árstíma. Mest var af loðnu í mögum þorsks út af Vestfjörðum, við suðurströndina og Norðausturland. Af annarri fæðu má helst nefna síld, kolmunna, ísrækju og ýmsar tegundir fiska.


Fyrsta mat á 2014 árgangi þorsks bendir til að hann sé meðal stærstu árganga frá 1985, svipaður og árgangar 2008, 2009 og 2011. Hann kemur í kjölfar lítils árgangs frá 2013. Útbreiðsla þorsks var meiri en í mörgum fyrri stofnmælingum í mars og góður afli fékkst á stöðvum allt í kringum landið.

Mynd Peter Prokosch

Ýsa

Lengdardreifing ýsunnar sýnir að ýsa minni en 58 cm er undir meðaltali í fjölda, en stærri ýsa er yfir meðaltali. Lengdardreifing og aldursgreiningar benda til að árgangurinn frá 2014 sé stór eftir röð sex lítilla áranga. 

Ýsan veiddist á landgrunninu allt í kringum land en meira fékkst af ýsu fyrir norðan land en sunnan. Þessi breyting hefur átt sér stað undanfarinn áratug, en árin 1985-1999 fékkst alltaf mun meira af ýsu við sunnanvert landið.

Botnhiti

Hitastig sjávar við botn mældist að meðaltali hátt líkt og undanfarin ár, en þó um einni gráðu lægra en í stofnmælingunni 2013. Í hlýsjónum við sunnan- og suðvestanvert landið var hitastig við botn í lægri kantinum miðað við árin 2003-2014. Við Vestfirði var hitastig svipað og í fyrra, en lægra en fjögur ár þar á undan. Við norðan- og norðaustanvert landið var botnhiti nærri meðallagi hlýju áranna frá 1996.

Stofnmæling botnfiska á Íslandsmiðum (marsrall) fór fram í 31. sinn dagana 25. febrúar til 22. mars. Fjögur skip tóku þátt í verkefninu; rannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson og togararnir Bjartur NK og Ljósafell SU. Togað var með botnvörpu á tæplega 600 stöðvum allt í kringum landið. Helstu markmið marsrallsins eru að fylgjast með breytingum á stærð, útbreiðslu og líffræðilegu ástandi botnlægra fiskistofna auk breytinga á hitastigi sjávar á landgrunninu. 

Nánar á vef Hafrannsóknarstofnunar. 

Viðburðir