Vinsamleg samskipti við Rússa

6. ágúst 2015

Samskipti Rússland og Íslands skipta báðar þjóðir miklu máli og hafa lengi gert. Í Seinni heimsstyrjöldinni fluttu skipalestir vistir og vopn til Austurvígstöðvanna í gegnum Ísland. Djarfir sjómenn réttu fram hjálparhönd en guldu oft fyrir með lífi sínu þótt ekki tilheyrðu þeir neinum her og ekki fengu þeir orður fyrir hugdirfsku.

Þessi saga lifir enn sterku lífi í hjörtum íslensku og rússnesku þjóðanna. Fyrr í sumar kom hingað rússneska seglskiptið Kruzenshtern til að heiðra minningu Íshafsskipalestanna og tengsla Íslands og Rússlands. Báðar þjóðirnar áttu gagnkvæma hagsmuni af viðskiptunum þá og þannig er það enn í dag.

Sjávarbyggðir vítt og breitt um landið hafa byggt upp starfsemi sína í kringum þessa verslun og í Rússlandi er fólk og fyrirtæki sem byggja afkomu sína á vinnslu og sölu á íslenskum fiski. Ísland hefur átt langt og farsælt viðskiptasamband við Rússland. Sú langa saga stóð órofin þótt kalt stríð geysaði um áratuga skeið og bandarísk herstöð hafi verið staðsett á Miðnesheiði. Þessi langa og trausta viðskiptasaga er ein ástæða þess að samskipti Rússa og Íslendinga eru almennt góð enda sýna útflutningstölur að viðskipti milli íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja og Rússa hafa vaxið jafnt og þétt á liðnum árum.

Viðskiptabann Evrópusambandsins gegn Rússlandi hefur nú sett hagsmuni Íslands í uppnám. Viðskiptabannið átti að renna út nú í júli en hefur verið framlengt. Það er mikilvægt að fram komi að engin stefnubreyting hefur orðið af hálfu Íslands og engar nýjar yfirlýsingar verið settar fram í tengslum við viðskiptabannið. 

Viðskiptabann er ekki uppbyggileg leið til að leysa ágreiningsmál. Það hefur sannast æ ofan í æ að frjáls viðskipti milli landa greiða fyrir bættum samskiptum milli þjóða og eru grunnur að gagnkvæmum skilningi og uppbyggilegum viðræðum þjóða í milli.

Viðskiptabannið hefur ekki orðið til þess að bæta ástandið í Úkraínu og það eru engin sýnileg merki þess að framlenging þeirra muni skila árangri. Þau hafa eingöngu orðið til þess að rýra lífskjör almennings. Það er kaldhæðnislegt að nú eru aðeins örfáir dagar síðan aflétt var viðskiptabanni á Íran sem staðið hafði í á þriðja áratug og skilaði engum árangri allan þann tíma. Viðskiptabann Bandaríkjanna á Kúbu nær aftur til ársins 1960 og hefur jafn lítinn árangur borið.

Uppbyggileg samskipti sem byggjast á gagnkvæmri virðingu hafa margsannað gildi sitt. Íslenskur sjávarútvegur mun því styðja áframhaldandi viðskipti við Rússland enda mikilvægt að rækta gömul vinasambönd þó vindar blási í heimsmálunum.

Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu 1. ágúst. 

Viðburðir