Vinna að kvikmynd um sögu íslensku vitanna

27. janúar 2015

Ljósmál ehf. vinnur nú að gerð heimildarmyndar um sögu íslenskra vita. Þetta er fyrsta mynd sinnar tegundar hér á landi og er unnin í samstarfi reyndra innlendra kvikmyndagerðarmanna og Íslenska vitafélagins, með stuðningi Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.  

„Saga vitanna spannar yfir rúmlega 80 ára tímabil og er stærri hluti af mótunarsögu íslensks samfélags en almennt hefur komið fram. Hún er saga tækniframfara og þróunar, hluti af sjálfstæðisbaráttu lítillar þjóðar. En hún fjallar einnig um glímuna við óblíð náttúruöfl og sorgir og sigra þjóðar sem hefur ávallt lifað í návígi við hafið,“ segir Dúi J. Landmark, framleiðandi myndarinnar.

Ísland vitavæddist á rúmum 80  árum, og sú uppbygging er stór hluti af framfara- og sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar, sögu hafnamála, útgerðar og fiskveiða og síðst en ekki síðast öryggismálum sjómanna og sæfarenda.  Margir af þeim sem tengjast siglingum og sjávarútvegi þekkja sögu vitana vel og vita hversu mikilvægt þeirra hlutverk var.

Leikstjóri myndarinnar er Einar Þór Gunnlaugsson, framleiðandi er eins og áður segir Dúi J. Landmark, handritshöfundur er Kristján Sveinsson sagnfræðingur, ráðgjafi er Sigurbjörg Árnadóttir, formaður Vitafélagsins, og tónlist semur Ragnhildur Gísladóttir.

Mikill metnaður er lagður í framleiðslu myndarinnar, jafnt til að hægt sé að gera vitasögunni skil á sem bestan hátt, en einnig til þess að hið sjónræna umhverfi vitanna fái að njóta sín til fullnustu. Sýningar verða bæði í sjónvarpi og kvikmyndahúsi, auk erlendra kvikmyndahátíða og ráðstefna sem t.a.m. tengjast strandmenningu allri, vitum og sjósókn.  Til að gefa gleggri hugmynd um verkefnið má hér sjá kynningarmyndband: http://vimeo.com/114219142 

„Eins og oft er með verkefni af þessum toga var þetta búið að vera lengi í farvatninu, hugmyndin búin að þróast og taka ýmsum breytingum í gegnum tíðina. Það var svo margt sem kveikti áhuga okkar Einars Þórs Gunnlaugssonar leikstjóra þegar við fórum að kafa í sögu vitanna. Handritshöfundur myndarinnar, Kristján Sveinsson sagnfræðingur þekkir þetta efni manna best, enda höfundur bókar um sama efni. Margir tengja dulúð og rómantík við vitana, og þeir eru jú einstaklega myndrænir margir hverjir og því heillandi efni að fást við," segir Dúi.

Til að megi gera slíkri sögu skil þarf að leita samstarfs hjá breiðum  hópi, þá sem þekkja sögu vitanna, hafa komið að byggingu þeirra og viðhaldi, hvort sem um er að ræða starfsmenn Vitamálastofnunar (nú Vegagerðarinnar) ,Landhelgisgæslunnar eða íslenska sjómenn og útgerðarmenn.“

Tökur á myndinni hefjast snemma vors 2015, og gert er ráð fyrir að hún verði tilbúin til sýninga vorið 2016.


Reykjanesviti

er elsti viti á Íslandi. Fyrsti Reykjanesvitinn var reistur árið 1878 og kveikt á honum 1. desember sama ár. Átta árum síðar reið jarðskjálfti yfir Reykjanesið og fyrsti vitinn laskaðist og hrundi úr honum. Sá viti sem nú stendur var reistur árið 1907, en kveikt á honum 20. mars árið 1908. Vitinn skemmdist töluvert í jarðskjálftanum árið1926. Vitinn er 31 metra hár, og stendur á útsuðurstá Reykjanestangans á Bæjarfelli, nokkkuð upp af Valahnjúk, þar sem fyrsti vitinn stóð.

Nánari upplýsingar og greinar um vita má sjá hér.

Viðburðir