Verkstjórafundur Íslenska sjávarklasans 2015

8. desember 2014

„Það er mikill áhugi fyrir fundinum og því var ákveðið að lengja hann frá því sem áður var og nú spannar hann tvo daga, fimmtudag og föstudag. Á fundinum gefst verkstjórum í íslenskum sjávarútvegi tækifæri til að mynda tenglsanet og fræðast um þær áskoranir  og tækifæri sem nú blasa við í greininni,“ segir Eyrún Huld Árnadóttir, verkefnastjóri Íslenska sjávarklasans.

Dagana 8. – 9. janúar verður þar haldinn Verkstjórafundur Íslenska sjávarklasans. Þetta verður í þriðja sinn sem Íslenski sjávarklasinn stendur að fundi fyrir verkstjóra í íslenskum sjávarútvegi, en íslensku sölufyrirtækin stóðu að þeim um árabil fyrir aldamót. Tilgangur þeirra var að efla tengsl milli verkstjóra og skiptust þeir á hugmyndum um bætta vinnslu og aðferðir. Eyrún segir að nú sem áður sé helsta markmiðið með fundunum að auka samstarf, samvinnu og kynni á meðal verkstjóra í fiskvinnslufyrirtækjum og vinnsluskipum í landinu. Þannig megi auka verðmæti í sjávarútvegi.

Á fundinum verða þrjú megin viðfangsefni: Sölumál og fisk- og fullvinnsla, lenging hillutímans og loks öryggi starfsmanna. Þau voru að nokkru leyti valin í samráði við verkstjóra í vinnslum landsins. Flutt verða margvísleg erindi, pallborðsumræður um lengingu hillutíma og lögð verður sérstök áhersla á umræður í hópum. Auk þess verður farið í heimsókn í Marel og Samhenta í Garðabæ.

Verkstjórafundur Íslenska sjávarklasans verður að þessu sinni haldinn í samstarfi við Icelandic Group, Kælismiðjuna Frost, Marel, Skagann og Samhenta dagana 8.-9. janúar nk.

 

Skráning á fundinn fer fram á sjavarklasinn@sjavarklasinn.is.

Staðsetning: Hús Sjávarklasans, Grandagarði 16, 101 Reykjavík

Verð: 22.400 kr. / 20.900 kr. á mann fyrir tvo eða fleiri. 

Viðburðir