Verkfall sjómanna

Fréttatilkynning
17. október 2016

Fyrir liggur niðurstaða kosninga aðildarfélaga Sjómannasambands Íslands, Verkalýðsfélags Vestfjarða, VM Félags vélstjóra og málmtæknimanna og Sjómannafélags Íslands um verkfallsboðun hinn 10. nóvember næstkomandi. Samkvæmt henni hafa sjómenn samþykkt að fara í verkfall.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) telja niðurstöðuna vonbrigði. Það er á sameiginlegri ábyrgð allra aðila að reyna til þrautar að koma í veg fyrir að starfsemi stöðvist um lengri eða skemmri tíma vegna verkfallsaðgerða. SFS bindur vonir við að aðilar leggi allt kapp á að ná saman um samning áður en verkfall hefst.

Samninganefndir náðu saman um samninga í sumar, en þeir voru síðar felldir í atkvæðagreiðslu sjómanna. Nú vekur jafnframt athygli að nokkur fjöldi sjómanna kýs að taka ekki þátt í atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun. Með hliðsjón af þessu er sérstaklega brýnt að aðilar setjist enn á ný niður og reyni að ná samkomulagi um kjaramál. Verkfall er neyðarúrræði og komi til þess mun það valda samningsaðilum og samfélaginu öllu tjóni.

Frekari upplýsingar veitir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, í síma 693-3531.

Viðburðir