Minna útflutningsverðmæti 2014

2. júní 2015

Árið 2014 var útflutningsverðmæti sjávarafurða 244 milljarðar króna en árið á undan var verðmætið 272 milljarðar samkvæmt vef Hagstofunnar. Hér er um töluverða lækkun útflutningsverðmæta að ræða eða um 10%. Þorskurinn er enn okkar verðmætasta tegund og nemur verðmæti hans 89 milljörðum króna eða um 36% af heildarútflutningsverðmæti sjávarafurða. Útflutningsverðmæti uppsjávartegunda eins og síldar, kolmunna, makríls og loðnu nam samtals 62 milljörðum króna.

Útflutningsverðmæti loðnuafurða hafa lækkað á milli ára, en meginástæða lækkandi útflutningsverðmæta er að loðnuaflinn hefur minnkað um 350 þúsund tonn á milli ára. Heildarafli loðnu fór úr 460 þúsund tonnum árið 2013 í 111 þúsund tonn árið 2014 samkvæmt vef Fiskistofu.

Gengi krónunnar hefur einnig styrkst á milli ára um 4,5% bæði gagnvart Bandaríkjadollara og evru. Eins hefur verðvísitala uppsjávarfisks lækkað um 0,5% á milli ára. Úkraína hefur verið stór kaupandi í uppsjávartegundum eins og síld og makríl, en mikilvægir markaðir í Austur-Evrópu hafa verið erfiðir og mikil óvissa ríkir þar. 

 

Þorskurinn heldur stöðu sinni


Þorskurinn er enn okkar langmikilvægasti stofn og nam útflutningsverðmæti hans 89 milljörðum króna eða 36% af heildarútflutningsverðmætum sjávarafurða á árinu 2014. Verðmæti þorsks hækkar um 2 milljarð á milli ára. Veiði á ufsa og ýsu minnka um 10 þúsund tonn á milli ára hvor um sig og skila minna verðmæti í útflutning, þó svo að verðvísitala botnfisks hafi hækkað um 1%. 

Viðburðir