Upplýsingar sem gætu skilið milli lífs og dauða á fimm tungumálum

SFS hvetur fólk til að miðla upplýsingum
6. desember 2016

Átak í fræðslu um krabbameinsleit til kvenna af erlendum uppruna

Hafið er átak á vegum Krabbameinsfélags Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) til að kynna krabbameinsleit í brjóstum og leghálsi sérstaklega fyrir konum af erlendum uppruna. Í átakinu felst dreifing á plakati með upplýsingum um leitina á fimm algengustu tungumálum sem töluð eru í landinu; íslensku, ensku, pólsku, rússnesku og tælensku auk bættra upplýsinga á heimasíðu krabb.is.

Átakinu var hleypt af stokkunum með kynningu í vinnslusal HB Granda nú á aðventu en hjá fyrirtækinu starfa 25 þjóðerni.

Að sögn Láru G. Sigurðardóttur, læknis og fræðslustjóra Krabbameinsfélagsins, er skipulögð krabbameinsleit ekki í boði í mörgum löndum og því þekki margar konur af erlendum uppruna ekki til þessarar tegundar heilsuverndar né þess ríka ávinnings sem hún skilar. „Við óttumst að konur af erlendum uppruna leiti síður til Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins en þær íslensku einmitt af þeim orsökum og viljum því leggja okkur sérstaklega fram um að auka vitund þeirra um mikilvægi þess að mæta í leit þegar boð berst um að bóka tíma.“  

Öllum konum á aldrinum 23 til 65 ára er boðið að koma í leghálskrabbameinsleit á þriggja ára fresti og konum 40 til 69 ára er boðið í leit að brjóstakrabbameini á tveggja ára fresti.

Innan sjávarútvegsfyrirtækja starfar mikill fjöldi kvenna af erlendum uppruna. Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), segir að samtökin hafi viljað leita leiða til að koma upplýsingum áleiðis til þeirra kvenna sem starfa hjá fyrirtækjum innan samtakanna. „Það er þó ekki hlaupið að því enda er fiskvinnslur mjög fjölþjóðlegir vinnustaðir og þar að auki dreifðar hringinn í kringum landið. Við ræddum við Krabbameinsfélagið um hvernig best væri að miðla þessum mikilvægu upplýsingum sem geta svo sannarlega verið lífsnauðsynlegar,“ segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir.

Samhliða dreifingu á plakatinu til heilsugæslustöðva, vinnustaða og annarra fjölsóttra staða verður vakin athygli á leitinni með auglýsingum á erlendum tungumálum á Facebook. Þjónustuskrifstofur Krabbameinsfélagsins um land allt taka þátt í dreifingu plakatsins. Þeir sem vilja nálgast plakat geta sent beiðni á krabb@krabb.isog til þjónustuskrifstofa Krabbameinsfélagins sem finna má á www.krabb.is.

Nánari upplýsingar veita: Lára G. Sigurðardóttir, læknir og fræðslustjóri Krabbameinsfélagsins í síma 895 0804 og Karen Kjartansdóttir, samskiptastjóri SFS í síma 692 9797. 

Viðburðir