Við erum rétt að byrja

Kolbeinn Árnason
4. júní 2015

Íslenski sjávarútvegurinn hefur náð miklum árangri sem á varla sinn líka. Þessi árangur byggir á ötulli vinnu fólksins í greininni á liðnum árum og öflugri virðiskeðju sem nær allt frá veiðum til markaðssetningar og sölu erlendis. Það er þó hægt að gera enn betur og til mikils að vinna. 

Það eru margar áhugaverðar tölur yfir íslenskan sjávarútveg sem áhugavert er að rýna í og setja umfang hans og mikilvægi í samhengi. Sæm dæmi áætlum við að íslenskur sjávarútvegur framleiði um það bil 20 milljónir máltíða hvern einasta dag allt árið um kring. Þetta eru 20 milljónir máltíða af gæðamatvöru sem byggja á ábyrgum veiðum og þýðir um leið að um 20 milljónir manna þurfa daglega að taka ákvörðun um að borða íslenskan fisk.

Velgengni íslensks sjávarútvegs byggir á öflugri virðiskeðju sem nær allt frá veiðum til markaðssetningar og sölu erlendis. Í þessu ferli felast mestu verðmæti og mesti styrkur íslensks sjávarútvegs. Sameining Landssambands íslenskra útvegsmanna og Samtaka fiskvinnslustöðva í október var mikilvægur liður í að styrkja enn frekar þessa virðiskeðju og ég tel að við getum gert enn betur.

Sjávarútvegurinn ber mikla ábyrgð gagnvart íslensku samfélagi og við viljum standa undir þeirri ábyrgð. Í því felst krafa um hagkvæman rekstur og verðmætasköpun, krafa um ábyrgð gagnvart umhverfinu og sjálfbæra nýtingu auðlindarinnar. Við berum líka ábyrgð gagnvart þeim sem starfa við sjávarútveg og þeim samfélögum sem á honum byggja.

Sjávarútvegurinn er útflutningsgrein og velgengni hans byggir á því að standast erlenda samkeppni þegar kemur að gæðum, þróun, verði og kostnaði.  Við teljum okkur gera það býsna vel. Þannig er íslenskur sjávarútvegur sá eini innan OECD sem ekki þiggur ríkisstyrki, og raunar sá eini sem skilar meiru í ríkiskassann en hann þiggur.

Sjávarútvegurinn gerir þó gott betur, hann greiðir meiri skatt hér á landi en nokkur önnur atvinnugrein og það án þess að veiðigjöld séu tekin með í reikninginn.

Íslendingar fá nær fjörutíu prósentum meira verðmæti úr veiddu kílói af þorski en Norðmenn, samkvæmt skýrslu McKinsey & Company um íslenskt efnahagslíf frá árinu 2012. Í sömu skýrslu kemur einnig fram að engin þjóð aflar hlutfallslega jafn mikilla tekna í sjávarútvegi og Íslendingar.

Þetta er afskaplega gleðilegt því engin sjálfstæð þjóð á jafn mikið undir sjávarútvegi og Íslendingar.

Af þessu erum við afskaplega stolt og oft hugsa ég til þess hve ánægjulegt það er að fá að starfa fyrir svo öfluga atvinnugrein. Reyndar tel ég að við ættum að geta nýtt okkur góða stöðu okkar til að fá enn betra verð fyrir framúrskarandi afurðir okkar. Því þótt ég sé stoltur þá tel ég að við getum gert enn betur.

Íslendingar eru fiskveiðiþjóð og við verðum að byggja til framtíðar þegar kemur að sjávarútvegi. Þetta hefur lengi verið ljóst þeim sem starfa í sjávarútvegi. Því hefur verið samstaða um að ganga vel um auðlindina, tryggja vöxt og viðgang fiskistofna og stjórna veiðum úr þeim af ábyrgð. Nú horfum við til þess að þessi aðferðafræði er að bera ávöxt enda merki um vaxandi fiskistofna sem vonandi munu skila okkur aukinni veiði og betri afkomu í framtíðinni. 

Hreinna haf


"Við höfum einnig hugað að umhverfismálum í víðara samhengi og getum nefnt mörg dæmi af árangri í þeim efnum. Sem dæmi þá eyðum við nú meira en helmingi minni olíu til að veiða hvert kíló af fiski en við gerðum fyrir um 20 árum. Við höfum tekið mörg jákvæð skref í umhverfismálum, en ég tel að við getum gert enn betur."

Við höfum einnig hugað að umhverfismálum í víðara samhengi og getum nefnt mörg dæmi af árangri í þeim efnum. Sem dæmi þá eyðum við nú meira en helmingi minni olíu til að veiða hvert kíló af fiski en við gerðum fyrir um 30 árum. Við höfum tekið mörg jákvæð skref í umhverfismálum, en ég tel að við getum gert enn betur.

Sjávarútvegurinn er ekki eingöngu mikilvægur í þjóðahgslegu tilliti heldur stendur hann undir afkomu margra byggðarlaga og skapar fjölda starfa víða um land. Sjávarútvegurinn og þróun hans ræður miklu um afkomu byggðarlaga víða á landinu og við þurfum að vera tilbúin til að ræða þessi mál í samhengi. Það er ánægjulegt að sjá að víða blómstra sjávarútvegsfyrirtæki og stunda fjárfestingar í atvinnutækjum til framtíðar. Það var til dæmis gaman að fá að vera viðstaddur þegar HB Grandi og Vopnfirðingar tóku á móti nýjum Venusi nýverið.

Góður aðbúnaður og öryggi starfsmanna er metnaðarmál fyrir sjávarútveginn og það er ánægjulegt að horfa til þess árangurs sem náðst hefur þegar kemur að veiðum. Betri skip, bætt fræðsla og aukin vitund um slysavarnir hefur þar skilað markverðum árangri. Miðað við upplýsingar sem nýlega hafa komið fram má þó betur gera í fiskvinnslu og hljóta samtökin að leggja metnað sinn í að ganga fram fyrir skjöldu í að bæta þar úr. Hér getum við því gert betur.

Íslenskum fyrirtækjum í sjávarútvegi hefur tekist að fá gott verð fyrir afurðir sínar með stöðugri framþróun í gæðum og vöruflokkum, öflugu sölu- og markaðsstarfi og sífellt betri ferlum í flutningum og afhendingu. Þetta hefur tekist með því að byggja upp öflug fyrirtæki í greininni og með samvinnu við flutningsfyrirtæki, rannsóknarstofnanir og iðnfyrirtæki sem hafa skapað vinnslutæki á heimsmælikvarða og aukið þannig verðmæti og nýtingu sjávarfangs.

Þessi samvinna milli atvinnugreina hefur orðið til þess að sjávarútvegurinn hefur orðið eins konar suðupottur nýsköpunar sem síðan hefur leitt af sér aukna sköpun verðmæta. 

En hvað er nýsköpun?  Nýsköpun getur átt sér stað á ýmsum sviðum. Hún er mikilvæg í viðskiptum, öllu vísindastarfi, tækniþróun, stjórnun, listum, menningu og svo að segja í öllu okkar umhverfi. Hún byggir á því að við leitum leiða til að búa til eitthvað nýtt eða gera það sem þegar er gert enn betur. 

Og hvernig gerum við hluti betur? Jú, við getum skapað nýja tækni, fundið ný viðskiptatækifæri eða betri leiðir til  markaðssetningar og þannig skapað meiri eftirspurn eftir því sem við framleiðum. Og þar með getum við fengið betri verð fyrir afurðir okkar og vörur.

Eins og ég sagði áðan þá framleiðir Íslenskur sjávarútvegur um það 20 milljónir máltíða daglega. Það er auðséð að verðmæti hverrar máltíðar þarf ekki að aukast mikið til að úr því verði samanlagt stórar tölur, tölur sem þýða auknar gjaldeyristekjur fyrir íslenskt samfélag.

Einn af þeim fjölmörgu þáttum sem geta aukið á verðmæti sjávarfangs er markaðs og kynningarstarf erlendis. Á ársfundi samtakanna í ár leggjum við upp með að fræðast um það hvað hægt er að gera í þeim málum og höfum fengið fjölda sérfræðinga, bæði innlenda og erlenda, til að fjalla um þau frá ýmsum hliðum. Að auki hyggjumst við kynna hvernig sjávarútvegurinn hyggst vinna þessi mál áfram. 

Ég vona að við höfum öll af þessu gagn, vegna þess að það er til mikils að vinna; því þrátt fyrir alla þá stórkostlegu hluti sem sjávarútvegurinn hefur áorkað á liðnum árum þá erum við nefnilega bara rétt að byrja.

Viðburðir