Sjáv­ar­út­vegur er mik­il­væg­asta at­vinnu­grein lands­ins

Íslenskur sjávarútvegur í alþjóðlegu samhengi
23. ágúst 2016

„Aflaverðmæti íslenskra skipa hefur tvöfaldast á sambærilegu verðlagi síðustu rúm 30 árin. Þetta er góður árangur og sýnir að aðgæsla hefur verið sýnd við veiðarnar og ráðgjöf fiskifræðinga verið fylgt í meginatriðum, auk þess sem betri skipulagning við veiðar og vinnslu skilar sér í meiri verðmætum,“ seg­ir dr. Ágúst Ein­ars­son, pró­fess­or og höfund­ur bók­ar­inn­ar Íslensk­ur sjáv­ar­út­veg­ur í alþjóðlegu sam­hengi, sem nýlega kom út. 

Ágúst er prófessor við Háskólann á Bifröst og fyrrverandi rektor skólans. Hann hefur skrifað margar bækur, þar á meðal Hagræn áhrif tónlistarHagræn áhrif kvikmyndalistar og Hagræn áhrif ritlistar

Ágúst segir sjávarútveg eldfimt en afar skemmtilegt málefni og nauðsynlegt að gera því skil á íslenskri tungu. Margir geri sér ekki grein fyrir því hve alþjóðleg og fjölbreytt greinin sé því hávaðinn í kringum deiluefnin sé oft svo mikill. Í bók­inni kem­ur meðal ann­ars fram að fram­lag sjáv­ar­út­vegs og tengdra at­vinnu­greina til lands­fram­leiðslu Íslands sé 20 prósent. 

Eins og hefðbund­inn sjáv­ar­út­veg­ur er skilgreindur skilar hann um 8-9 prósent til lands­fram­leiðslunn­ar,“ seg­ir Ágúst en bendir á að sjávarútvegur sé mun víðfemari heldur en þessi tala gefur til kynna og bendir á fram­leiðslu í tengsl­um við sjáv­ar­út­veg, svo sem á vél­búnaði og veiðafær­um, sé mik­il auk þess sem markaðsstarf í kring­um grein­ina hafi vaxið mjög. Þegar allt sé tekið sam­an starfi um 24 þúsund manns í sjávarútvegi á Íslandi þá sé fram­lag sjáv­ar­út­vegs­ins til lands­fram­leiðslunn­ar um og yfir 20 prósent, sem sé mjög mikið og meira en í öðrum at­vinnu­grein­um.

„Þetta gerir sjáv­ar­út­veg að mik­il­væg­ustu at­vinnu­grein lands­ins.“ 

Aðgæsla sýnd við veiðarnar 

Aflaverðmæti íslenskra skipa hefur tvöfaldast á sambærilegu verðlagi síðustu rúm 30 árin. Þetta er góður árangur og sýnir að aðgæsla hefur verið sýnd við veiðarnar og ráðgjöf fiskifræðinga verið fylgt í meginatriðum, auk þess sem betri skipulagning við veiðar og vinnslu skilar sér í meiri verðmætum. 

Ágúst segir að hefðbundinn sjávarútvegur, veiðar og vinnsla, hefur verið uppspretta stærsta hluta gjaldeyris- eða útflutningstekna landsmanna í meira en heila öld en hin síðari ár hafa fleiri atvinnugreinar bæst við og nú skilar ferðaþjónustan meiri gjaldeyristekjum en hefðbundinn sjávarútvegur. Ef útflutningstekjur fyrirtækja sem tengd eru sjávarútvegi eru hins vegar taldar með þá heldur sjávarútvegur sessi sínum sem mikilvægasta atvinnugreinin í útflutningstekjum hérlendis.

„Hlutdeild í gjaldeyrisöflun segir þó ekki alla söguna. Það sem markar fyrst og fremst mikilvægi einstakra atvinnuvega er framleiðni þeirra, það er annars vegar hversu mikið er framleitt á hvern starfsmann, framleiðni vinnuafls, og hins vegar framleiðni fjármuna, það er hversu mikið er framleitt á hverja fjárfesta krónu sem er framleiðni fjármagns. Á Íslandi er framleiðni vinnuafls og fjármuna almennt lág, sérstaklega í þjónustu eins og í ferðaþjónustu. Ástæðan fyrir góðum lífskjörum hérlendis er fyrst og fremst sú að hér er mikil atvinnuþátttaka og unnið er lengur í hverri viku en raunin er í sambærilegum löndum. Framleiðni í sjávarútvegi er góð hérlendis miðað við aðrar atvinnugreinar en framleiðni fjármagns í orkufrekum iðnaði er lág. Framleiðni vinnuafls og fjármuna í ferðaþjónustu er lítil hérlendis. Þetta undirstrikar mikilvægi sjávarútvegs í efnahagslífinu,“ segir Ágúst. 

Dr. Ágúst Ein­ars­son, pró­fess­or og höf­und­ur bók­ar­inn­ar Íslensk­ur sjáv­ar­út­veg­ur í alþjóðlegu sam­hengi.

Íslenskur sjávarútvegur stendur vel á alþjóðavísu

Atvinnuhættir heimsins eru að gerbreytast, meðal annars með aukinni sjálfvirkni og vélmennum. Segir Ágúst að mjög mörg störf muni hverfa á næstu áratugum, meðal annars í frumvinnslu sjávarfangs, en störfum sem krefjast aukinnar menntunar mun fjölga. Brýnt er því að gera sér vel grein fyrir hvernig tækniþróunin verður í sjávarútvegi á heimsvísu næstu áratugina. 

„Íslenskur sjávarútvegur stendur sig vel á alþjóðavísu og mikil gróska er í tengdum greinum og framleiðslu nýrra afurða í hátækniatvinnugreinum. Það ber því að hlúa sérstaklega að mannauðnum og nýsköpun einstaklinga og fyrirtækja og gera það í meira mæli en nú er gert.
Meginniðurstaða þessarar bókar er sú að samkeppnisstaða íslensks sjávarútvegs sé sterk í alþjóðlegu samhengi. Sjávarútvegur leggur til stóran hluta af lífskjörum landsmanna, beint og óbeint, og meira en aðrar atvinnugreinar gera, og hlutfallslega mun meira en sjávarútvegur erlendis gerir í einstökum þjóðríkjum. Mikilvægt er því að standa vörð um þessa mikilvægu atvinnugrein sem gerði Íslendinga að velmegandi þjóð á 20. öld,“ segir Ágúst og bætir við í nútímaefnahagslífi skiptir fjölbreytt atvinnulíf öllu fyrir lífskjörin. Á síðustu öld var lífið í þessu landi fiskur. Þær aðstæður eru auðvitað breyttar en sjávarútvegurinn er og verður áfram hryggjarstykkið í efnahagslífi þessarar þjóðar og mun gegna mikilvægu hlutverki í nýrri atvinnuháttabyltingu á 21. öldinni.“

Gott kerfi og hagkvæmt

„Það hef­ur verið ósætti um marga hluti í tengsl­um við sjáv­ar­út­veg eins og fisk­veiðistjórn­un­ina,“ seg­ir Ágúst. Hann segir fiskveiðistjórnunarkerfið þó vera það verkfæri sem hefur skapað þau miklu verðmæti sem orðið hafa til innan sjávarútvegsins.

Almenn samstaða ríki meðal sérfræðinga í auðlindahagfræði um að viðskipti með aflaheimildir skipta miklu máli hvað varðar hagkvæmni í sjávarútvegi. Reynsla af framsali rennir einnig stoðum undir þessa skoðun. Viðskipti með aflaheimildir grisja úr þá aðila sem síður standa sig í veiðum og hleypa þeim að sem standa betur að vígi. Framsal kvóta er hins vegar ekki sársaukalaust fyrir atvinnuöryggi á einstökum stöðum og vandinn magnast þegar afli minnkar.

Ágúst segir það fyrirkomulag sem Íslendingar hafa komið upp við stjórn fiskveiða í sókn á heimsvísu. „Um aldamótin síðustu voru fimm ríki með kerfi einstaklingsbundinna og framseljanlegra aflahlutdeilda en um 2010 voru 22 ríki sem stýrðu veiðum með þessum hætti og veiddu þau um fjórðung af heimsaflanum. Íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið þykir gott að mati sérfræðinga erlendis og er talið hagkvæmt.“

Greiða ætti hærri veiðileyfagjald

Fer Ágúst yfir árangur kerfisins í bók sinn og bendir meðal á að síðustu 35 ár var hagnaður í sjávarútvegi nær enginn að meðaltali fyrstu 25 árin. Tekjur og hagnaður fyrirtækja í sjávarútvegi á föstu verðlagi hafa hins vegar aukist verulega frá árinu 2000 og á það bæði við um veiðar og vinnslu. „21. öldin hefur, það sem af er, verið íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum gjöful. Margt bendir til þess að það geti haldið áfram, ef vel er á málum haldið. Bankahrunið árið 2008 veitti sjávarútveginum þungt högg en honum tókst að vinna sig út úr því og það tók um sjö ár að ná fyrri stöðu. Þróun gengis, fjármálaleg endurskipulagning og innkoma makrílsins í íslenska lögsögu áttu sinn þátt í velgengni sjávarútvegs hér á landi eftir hrun,“ segir Ágúst og er hann því þeirrar skoðunar að greiða ætti hærra veiðileyfagjald en nú er gert.

En hvers vegna þarf að stjórna fiskveiðum umfram flest annað í efnahagslífinu? 

Í bókinni leitast Ágúst við að svara þessari spurningu sem oft hefur valdið miklum deilum hér á landi og annarsstaðar í heiminum. Eða eins og segir: „Ástæðan liggur í sérstöðu fiskistofna. Ef veiðum er ekki stjórnað verður ávallt veitt of mikið og fiskistofnum jafnvel útrýmt eða þeir nýttir á óhagkvæman hátt. Hins vegar er ekki saman hvernig veiðum er stjórnað og margar aðferðir eru nýttar til þess. Álitamál, eins og stjórnkerfi veiða, gjald fyrir veiðileyfi, eignarréttur, framsal, veðsetning veiðiheimilda og byggðamál, eru fjölmörg og fá mál hafa valdið jafn miklum deilum hérlendis síðustu áratugina og stjórnun fiskveiða.“ 

Rekur Ágúst því næst nokkrar leiðir sem hafa verið notaðar við stjórn fiskveiða í heiminum og bendir á að víða sé atvinnugreinin ríkisstyrkt. „Þegar rætt er um ríkistyrki í sjávarútvegi erlendis verður að hafa í huga að þeir eru oft á tíðum tilkomnir vegna þess að á vettvangi stjórnmála hefur ekki þótt ásættanlegt að leggja í þá nauðsynlegu hagræðingu sem þörf er á vegna offveiði og offjárfestingar. Einnig þarf að hafa í huga að víðar er sjávarútvegur jaðarstærð í hagkerfi landanna, öfugt við Ísland.“ 


Í bókarlok leggur höfundur fram tillögur til umbóta til að efla sjávarútveg hérlendis og greinir frá því hvernig taka eigi á helstu ágreiningsefnum tengdum sjávarútvegi. Víða er leitað fanga og er bókin ríkulega skreytt ljósmyndum og skýringarmyndum. Útgefendur bókarinnar eru Háskólinn á Bifröst og Háskólinn á Akureyri. Rektorar háskólanna, Eyjólfur Guðmundsson og Vilhjálmur Egilsson, fylgja bókinni úr hlaði með inngangsorðum. Bókin er seld í Bóksölu stúdenta.

Dr. Ágúst Einarsson er prófessor emeritus við Háskólann á Bifröst og fyrrverandi rektor skólans. Hann hefur gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum og var meðal annars alþingismaður og prófessor við Háskóla Íslands og hefur setið í fjölda stjórna og ráða.

Viðburðir