„Það hvílir mikil ábyrgð á okkur“

12. febrúar 2015

Vilhjálmur Vilhjálmsson forstjóri HB Granda segir nauðsynlegt að íslensk fyrirtæki móti sér stefnu um samfélagsábyrgð.

HB Grandi ákvað nýlega að ganga til liðs við Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð. Hvers vegna? Vilhjálmur Vilhjálmsson forstjóri verður fyrir svörum. „Við eigum eiginlega allt undir samfélaginu og það hvílir mikil ábyrgð á okkur, meðal annars hvað varðar umgengni auðlinda. Við þurfum að mínu mati að vera ákveðin fyrirmynd og umgangast hlutina af virðingu — nátturuna og umhverfið.“

Vilhjálmur segir að innleiðing og mótun stefnu um samfélagsábyrgð skapi ákveðið tækifæri til að gera starfsfólk meðvitaðara. „Ástæðan fyrir því að við gengum í Festu var kannski það að við vildum ná betur utan um hlutina,“ segir Vilhjálmur. Hann segist líta á stefnu um samfélagsábyrgð sem verkfæri fyrir starfsfólk til að setja heilsteyptari markmið og vinna hlutina skipulega. „Við höfum í sjálfu sér alltaf verið meðvituð um nauðsyn þess að umgangast auðlindir okkar og samfélag af ábyrgð en þessi vinna auðveldar okkur að framfylgja þeirri hugsun og við fáum betri sýn á hlutina.

Sem dæmi um það sem fyrirtækið leggur sérstaka áherslu á nefnir hann meðvitund um að draga úr mengunarvöldum. „Okkar helstu markmið núna snúa að því að draga úr olíu- og bensínnotkun og við reynum statt og stöðugt að finna skástu leiðirnar í þeim efnum.“

HB Grandi fjárfesti nýlega í fimm nýjum fiskiskipum. „Í sjálfu sér er ódýrara að reka fiskiskip með því að nota svartolíu en við töldum rétt að skipta yfir í MD olíu, sem er dýrari kostur en mengar minna.“ Vilhjálmur segir að þó breytingin muni eflaust draga úr hagnaði til skamms tíma muni hún til lengri tíma vinna með fyrirtækinu. „Okkar viðskiptamenn eru mjög meðvitaðir um samfélagslega ábyrgð og kunna að meta þessa hugsun.

Hvers vegna ákvað HB Grandi að gerast félagi í Festu? „Með því að ganga í Festu fá starfsmenn aukna fræðslu um samfélagsábyrgð og verða meðvitaðari. Fyrir vikið verður mun auðveldara fyrir fyrirtækið að setja sér skýr markmið og framfylgja þeim, þó svo að hugsunin hafi alltaf verið sú að nauðsynlegt sé að bera virðingu fyrir náttúru og samfélagi.“

 

Vilhjálmur segir svona vinnu vera mikilvæga fyrir alla hagsmunaaðila og skila sér út í alla starfsemina og til samfélagsins. „Ef við tökum sjávarútveginn í heild og auðlindir hafsins þá er það okkar stefna að skila þeim í ekki síðra ástandi en við tókum við þeim. Að leggja ríka áherslu á samfélagsábyrgð og móta skýra og skriflega stefnu í þeim efnum hjálpar okkur að framfylgja þessari hugsun, gera heilsteyptari markmið og halda utan um alla þætti fyrirtækisins á skynsaman hátt. Þetta varðar starfsemina í heild, hegðun okkar og framkomu — allt saman. Samfélagið, umhverfið og náttúran eru undir og það er eins gott að við stöndum okkur.“


„Samfélagið, umhverfið og náttúran eru undir og það er eins gott að við stöndum okkur.“

Vilhjálmur Vilhjálmsson forstjóri HB Granda talaði við Lovísu Eiríksdóttur á skrifstofum HB Granda að Grandagarði miðvikudaginn 21. janúar 2015. Hrefna Björg Gylfadóttir tók myndirnar


.

Þetta viðtal er hluti af Sögum af samfélagsábyrgð, verkefnis á vegumFestu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð fyrirtækja, sem Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi er stoltur aðili að. Það er birt í tengslum við ráðstefnu Festu og Samtaka atvinnulífsins, Árangur og ábyrg fyrirtæki sem verður haldin í Hörpu 29. janúar.

Sögur af samfélagsábyrgð eru á vegum Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð fyrirtækja. Festa er líka á Facebook og Twitter.

Viðburðir