Það felast tækifæri í umhverfismálum

Haukur Þór Hauksson, aðstoðarframkvæmdastjóri SFS skrifar:
1. október 2015

Virðing fyrir umhverfinu, ábyrg nýting auðlinda og sjálfbærni er forsenda þess að íslenskt atvinnulíf verði farsælt um ókomin ár og bæti lífskjör þjóðarinnar.

Í gær fór fram í fyrsta sinn Umhverfisdagur atvinnulífsins. Að deginum stóðu Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu. Stundum greinir þessa aðila á um ýmislegt enda fara hagsmunir þeirra ekki alltaf saman. Mikinn samhljóm má þó finna meðal allra samtakanna þegar kemur að umhverfismálum. Sífellt meiri umhverfisvitund má greina á meðal forsvarsmanna fyrirtækja sem og almennings. Fyrirtæki finna sífellt fyrir auknum kröfum um hreint umhverfi og rekjanleika matvara. Þessar kröfur koma frá nýrri kynslóð neytenda sem hefur alist upp við mun meiri umræðu um umhverfismál en áður var. Þetta er ný kynslóð sem tengir gæði við sjálfbærni og gerir ríkar kröfur.

Aukin meðvitund um umhverfismál felur í sér tækifæri fyrir íslenskar sjávarafurðir í samkeppninni við aðrar þjóðir á erlendum mörkuðum. Íslendingar eiga því ekki að líta á aukna umræðum um umhverfismál sem ógn heldur sem tækifæri. Ísland býr yfir hreinum og góðum fiskimiðum sem koma til með að skipta neytendur og þar með íslensk fyrirtæki sífellt meira máli í framtíðinni.

Ríkisstjórn Íslands hefur tilkynnt að Ísland muni á komandi árum draga umtalsvert úr losun gróðurhúsalofttegunda. Með nýjum skipum og góðu fiskveiðistjórnunarkerfi brennir íslenski skipaflotinn sífellt minni olíu. Endurnýjun skipaflotans er mikilvægt umhverfismál og ljóst er að menn taka alla jafna tillit til þess við mat á nýjum fjárfestingarkostum. Þá má auk þess nefna að íslenskar fiskvinnslur eru knúnar áfram af rafmagni úr endurnýjanlegum orkugjöfum. Þessar staðreyndir munu án efa nýtast betur til markaðssetningar á íslenskum afurðum í framtíðinni.

Við sem þjóð þurfum að móta langtímahugsun og heildræna sýn á nýtingu auðlinda okkar og skila auðlindum í jafngóðu eða betra ástandi til komandi kynslóða.

Áherslur á sjálfbærni og virðingu fyrir náttúrunni eru innbyggð í stjórnkerfi fiskveiða því það felur í sér hagræna hvata til góðrar umgengni um auðlindina og að langtímahagsmunir séu hafðir að leiðarljósi. Þetta kerfi er  grundvöllur þess að hér er rekinn ábyrgur sjávarútvegur sem tryggir hvort tveggja, sjálfbærni og arðsemi. Fiskveiðistjórnunarkerfi okkar er byggt á rústum fyrra fyrirkomulags sem leiddi til ofveiði og of mikils ágangs á auðlindir sjávar og skilaði af þeim sökum minni arði fyrir þjóðarbúið. Lykillinn að arðbærni núverandi fyrirkomulags er sjálf umhverfisverndin.

Arðbærni og umhverfisvernd eru ekki andstæðir pólar heldur samvirkandi þættir. Það er skylda sjávarútvegsins að vernda og verja vistkerfi sjávar og gera ekkert sem spillt getur því að íslenskur sjávarútvegur sé ábyrgur og vistvænn og að afurðir hans séu hreinar og ómengaðar. Þetta gildir vitanlega einnig hjá öðrum greinum sem byggja á nýtingu lifandi auðlinda, svo sem í ferðmennsku og orkunýtingu – það er að segja í helstu atvinnuvegum þjóðarinnar.

 

Haukur Þór Hauksson

Aðstoðarframkvæmdastjóri SFS


Fyrirtæki finna sífellt fyrir auknum kröfum um hreint umhverfi og rekjanleika matvara. Þessar kröfur koma frá nýrri kynslóð neytenda sem hefur alist upp við mun meiri umræðu um umhverfismál en áður var. Þetta er ný kynslóð sem tengir gæði við sjálfbærni og gerir ríkar kröfur. Aukin meðvitund um umhverfismál felur í sér tækifæri fyrir íslenskar sjávarafurðir í samkeppninni við aðrar þjóðir á erlendum mörkuðum.

Viðburðir