„Þá vakti mig skip“

Ræða framkvæmdastjóra SA á sjómannadaginn
6. júní 2016


Ég gekk til sjávar og sagði

við sjóinn: Hæ, góðan daginn,
hvernig hefurðu það?
Sæmilegt veður, sólskin.
Svafstu vel, eða hvað?

En sjórinn leit upp og sagði, 
syfjuðum rómi: Daginn,
geispaði súr á svip,
ég er með hamrandi hausverk,
var rétt að velta út af,
þá vakti mig skip.

Með þeim orðum sem birtast í kvæðinu fyrir ofan hóf Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, ræðu sína á sjómannadeginum. Kvæðið heitir Morgunböl og er eftir Kristján frá Djúpalæk en um þessar mundir eru 100 ár frá fæðingu skáldsins  Kristjáns frá Djúpalæk sem er líklega þekktastur fyrir Sjómannavalsinn en Svavar Benediktsson samdi lagið sem gerði valsinn ódauðlegan. 

Þorsteinn var staddur á Eskifirði á þessum degi og fór yfir þann mikla árangur sem áunnist hefur í íslenskum sjávarútvegi undanfarin ár. Ræðuna má lesa hér að neðan: 

„Með hlutaskiptakerfinu tengjast hagur sjómanna og útgerðarmanna órjúfanlegum böndum. Það eru sameiginlegir hagsmunir að vernda veiðistofna og stunda sjálfbærar og ábyrgar veiðar. Nú er verið að uppskera árangur vegna áratuga átaks við uppbyggingu mikilvægasta fiskistofns Íslands.

Sjómennskan hefur breyst undanfarna áratugi. Tækniþróun hefur breytt tækni við veiðar og aðbúnaður allur um borð hefur tekið stakkaskiptum. Sú þróun tekur aldrei enda og nú eru í byggingu skip sem líta út töluvert öðru vísi en þau sem fyrir eru. Bent hefur verið á að útlit minni á hönnun víkingaskipanna á sínum tíma.

Grettistaki hefur verið lyft til að bæta öryggi við störf á sjó og þar eiga hlut að bæði samtök útvegsmanna og sjómanna. Nú er kominn tími til að svipað átak eigi sér stað í fiskvinnslunni þar sem slys á fólki eru allt of algeng.

Menntun sjómanna og skipstjórnarmanna verður að taka mið af tækniþróun hvers tíma og að koma inn í brú og vélarrúm nútíma fiskiskips  minnir meira á stórt tölvuver en fiskveiðar.

Samstarf stjórnvalda og útvegsmanna er mikilvægt. Nauðsynlegt er að halda ítrustu hagsmunum Íslands fast fram á alþjóðavettvangi, bæði gagnvart samningum um flökkustofna og um réttindi á hafsbotni og landgrunninu. Sama á við um hafrannsóknir og rannsóknir á fiskistofnum. Útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki mótmæla því ekki að greiða þann kostnað sem þessu fylgir en finnst óeðlilegt að greiða miklu hærri skatta og gjöld en aðrar greinar sem einnig nýta auðlindir til lands og sjávar.

Íslenskur sjávarútvegur hefur breyst mikið síðustu áratugi og í stað reglulegra björgunaraðgerða til að tryggja afkomu fyrirtækjanna er greinin nú grunnur að framförum á fjölmörgum öðrum sviðum og hefur jákvæð áhrif á aðrar atvinnugreinar. Greinin er því miklu mikilvægari en ef mælt er í fjölda beinna starfa, veltu, skattgreiðslna. Rannsóknir og háskólastarf, framhaldsskólar og þróun ótaldra fyrirtækja í verslun, þjónustu, innflutningi og framleiðslu byggja á viðskiptum við sjávarútveginn svo ekki sé minnst á ráðgjafafyrirtæki og verkfræðistofur.

Sjávarútvegurinn er máttarstólpi landsbyggðarinnar og þótt mörg byggðarlög hafi átt undir högg að sækja og muni jafnvel eiga það áfram þá er og verður fiskvinnsla og útgerð

Djúpilækur sem Kristján Einarsson kenndi sig við er við Langanesströnd nyrst í Norður Múlasýslu „…á þrályndrar Austfjarðarþokunnar nyrstu mörkum, hvar þagnar ei brimsins gnýr og sjaldan er rótt“ eins og hann orðaði það sjálfur. Árið 1960 kom út eftir hann ljóðabókin Við brunninn og síðasta ljóðið í þeirri bók nefnist Þjóðvísa en fyrsta og síðasta erindi þess hljóða svo:

                                          Hafið geymir minn hjartans vin
                                          í hulduskógunum sínum.
                                          Ó, sjómenn, ef að sjáið þið hann
                                          þá segið frá raunum mínum.

                                          …

                                          Sjómenn, ef hulduheimar þeir
                                          og hafmeyjar birtast sýnum:
                                          Ef sjáið þið unga sveininn minn
                                          þá segið frá raunum mínum.“

 

Viðburðir