Tækifæri til að byggja svæði upp til framtíðar

14. apríl 2015

„Ég held að það sé margsannað að kvótakerfið er það sem gerir okkar sjávarútveg hagkvæman og við viljum hafa hagkvæman sjávarútveg. Við erum reyndar alltaf í ákveðinni togstreitu vegna þess að það er mikill sársauki sem fylgir því þegar að sú hagræðing sem fylgir kvótakerfinu,“ Svanfríður Jónasdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri Dalvíkur og fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar í útvarpsþættinum Sprengisandi undir stjórn Sigurjóns M. Egilssonar. Í þættinum ræddu þau Svanfríður og Daði Már Kristófersson, doktor í umhverfis- og auðlindahagfræði, um fiskveiðistjórnun og kosti og galla fiskveiðistjórnunarkerfis Íslendinga, þróun þess og byggðaþróun.

Tækniþróun og hagræðing

Daði og Svanfríður bentu bæði á að tæknivæðingin hefði orðið til þess að sífellt færri þyrfti til að sækja fiskinn og sífellt færri þyrfti til að verka hann. „Því meiri hagkvæmni sem við köllum eftir í sjávarútvegi, þeim mun færri hendur þurfum við til þess að koma að þessari grein,“ sagði Svanfríður. „Þetta er mjög erfitt fyrir sjávarplássin og þetta er hluti af því sem að gerir það að verkum að menn líta á kvótakerfið sem svona, ja, líta svona með ákveðinni andúð á það og telja að það sé upphaf og endir þessara erfiðleika. Ég veit ekki hvort að við værum nokkuð sáttari eða hvort að sjávarplássin á Íslandi væru nokkuð betur stödd þó að við værum með sambærilegan slaka og við vorum með hérna fyrir 30, 40 árum síðan, þegar að húsin voru að verða gjaldþrota, frystihúsin, útgerðin var verr rekin, skipin voru gömul og úrelt, það þurftu fleiri og svo framvegis og svo framvegis. Vorum við eitthvað, værum við eitthvað betur stödd? Ég held ekki.

Ég held að sjávarútvegur sem kallar á vel menntað fólk, er tæknivæddur og býður þess vegna upp á fjölbreytileg störf sé í rauninni það sem við viljum,“ sagði Svanfríður.

Ótal, ótal möguleikar

Sigurjón spurði þá hvort ekki væri möguleiki á að þessi nýju störf, sem yrðu til vegna frekari nýtingar af sjávarafurðanna, gætu ekki orðið til í meira mæli í hefðbundnum sjávarplássum.  Svanfríður benti þá á að víðs vegar hefðu þessi nýju störf orðið til í byggðunum þótt ekki væri það algilt. „Ég var í forystu fyrir Samtökum sjávarútvegssveitarfélaga á meðan ég var bæjarstjóri, að þar er baráttan sú að til þess að sjávarplássin geti mætt hagræðingarkröfunni, sem er mjög grimm á köflum að þá eigi þau að fá hluta af veiðigjaldinu til þess að takast á við þessa breytingu með því þá að skapa ný störf eða stuðla að atvinnusköpun og þá mögulega í öðrum greinum þar sem væri meiri vöxtur, ja, mögulega til þess að bjóða einmitt svona nýsköpunarfyrirtækjum upp á einhver tækifæri heima hjá sér vegna þess að þetta kostar tíma og þolinmótt fjármagn. Grindvíkingarnir eru með frábæra hluti í gerjun hjá sér en þetta verður ekki alls staðar, það er alveg klárt en við erum að gera stórkostlega hluti og íslenskur sjávarútvegur er auðvitað, getur stært sig af því að við erum að nýta ótrúlega stórt hlutfall af fiskinum sem við tökum úr sjónum. Það er ekki bara flakið. Við erum að vinna roðið, við erum nota ensím til þess að búa til bæði fegrunarvörur og heilsuvörur, við erum að þurrka auðvitað bæði hausa og dálk og annað og selja til manneldis í öðrum löndum og öðrum álfum, við erum með svo ótal, ótal möguleika þarna. Ég held líka að ef okkur tekst að kynna þessa möguleika fyrir ungu fólki að þá fáum við fleiri til þess að koma og taka þátt í greininni,“ sagði hún.

Sjávarútveg þarf að skilgreina upp á nýtt

Svanfríður taldi jafnframt að þróun í sjávarútvegihefði skapað fjölbreyttari tækifæri víða á landsbyggðinni, hefði haft góð áhrif og væri líkleg til að laða ungt fólk að svæðum sem það hefði annars ekki litið á sem ákjósanlegt framtíðarheimili. Daði Már sagði að þessi þróun undirstrikaði þörfina á því að endurhugsa það sem við köllum sjávarútveg nú til dags.

„Þetta er miklu stærri partur af íslensku atvinnulífi en bara í veiðum og vinnslu. Þetta eru mjög fjölbreytt störf en það er held ég alveg rétt að það er, það er kannski ekki auðvelt að láta þau störf verða til á sama stað og vinnslan var,“ sagði Daði.

 


Ég held að sjávarútvegur sem kallar á vel menntað fólk, er tæknivæddur og býður þess vegna upp á fjölbreytileg störf sé í rauninni það sem við viljum,“ sagði Svanfríður Jónasdóttir, fyrrverandi þingkona Samfylkingarinnar og fyrrverandi bæjarstjóri Dalvíkur. 

Efasemdir um gildi kvóta sem byggðaúrræðis 

Sigurjón benti þá á að bæði Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefðu rætt við hann í þættinum Sprengisandi að þeir vildu auka það sem hann kallaði hlut „félagslegra úrræða“ innan kvótakerfisins. Nú væri um það bil 5% aflaheimilda notuð í þessi úrræði. Varpaði Sigurjón þeirri spurningu til Daða hvort betur færi að hluti af veiðigjöldunum kæmi til sveitarfélaganna, líkt og Svanfríður legði til, í stað þess að auka aflahlutdeild ríkisins.

Daði svaraði að hans mat væri að einhvers konar kvótakerfið væri nauðsynlegt til að halda ábata- og arðsömum sjávarútvegi. Hitt væri svo annað mál að á því væru gallar. Hins vegar gæti fátt komið í veg fyrir tæknivæðingu innan sjávarútvegsins frekar en annar staðar í samfélaginu. Óvissan sem færanleiki kvótans skapaði öðrum atvinnugreinum í sjávarbyggðum gæti líka dregið þrótt úr atvinnulífi byggða. „Persónulega held að það að koma mótvægisaðgerðum inn í kvótakerfið sé hæpið, það sé skárra að reka sjávarútveginn vel, taka auðlindagjald og nýta það síðan í þá breiðari hliðaraðgerðir gegn þessum neikvæðu afleiðingum, hvort að það er síðan fyllilega mögulegt eða ekki, það er svona meira, hvað eigum við að segja, empirísk spurning en það sé skynsamlegri leið heldur en að auka við þessa plástra,“ sagði hann.

Mikilvægt að byggja upp atvinnu í takt við breytta tíma

Svanfríður varpaði þá fram spurningu: „Þegar við erum að horfa á byggðamál ætlum við að vinna með fortíðinni eða framtíðinni?“ Sagði hún að vissulega væri hægt að reyna að viðhalda fiskvinnslu og útgerð á „einhverjum smáum skala á einhverjum stöðum“ ef að fólk vildi.  „Ég held að fólk væri tilbúnara til þess að hoppa vagninn með framtíðinni og velta fyrir sér hvert er framtíðin að leiða okkur? Eigum við ekki að reyna að komast þangað og biðja þá frekar um stuðning til að fara þangað vegna þess ef þú horfir bara á, horfðu bara á eins og byggðakvótann sem er verið að úthluta, horfðu á virði hans ef hann yrði seldur á markaði, þetta eru ofboðslegir peningar. Það væri hægt að gera margt við þessa peninga sem væri líklega til þess að hjálpa ýmsum svæðum á landinu til þess að koma sér fram inn í framtíðina frekar en að festa sig í nútíð eða fortíð.“ 

Smellið hér til að hlusta á þann hluta þáttarins sem vitnað er til. 

Viðburðir