Rektorar ræða sjávarútveg

Tækifæri í alþjóðlegustu grein landsins
13. júní 2016

Hilda Jana Gísladóttir, sjónvarpsstjóri N4,  ræddi fyrir skemmstu um tækifæri og áskoranir nútímalegs sjávarútvegs við þá Ara Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík og Eyjólf Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri. Þeir sem vilja horfa á þáttinn geta smellt hér.

Samræðurnar snérust ekki síst um námið haftengda nýsköpun, samstarfsverkefni háskólanna tveggja, sem hefst í haust. Á undanförnum árum hefur orðið mikil verðmætaaukning í sjávarútvegi vegna margháttaðrar nýsköpunar sem byggist á samstarfi hefðbundins sjávarútvegs og fyrirtækja meðal annars í líftækni, upplýsingatækni, véltækni og fjölmörgum öðrum atvinnugreinum. Þetta kallar á frekari menntun og þekkingu í tengslum við sjávarútveg hér á landi. 

„Með þessu fær fólk sýn á hvernig það getur komið áfram nýjum verkefnum innan sjávarútvegs. Það er það sem við þurfum í dag. Við erum komin svo langt með að nýta allan aflan. Það er í rauninni bylting sem hefur orðið. Næsta ferli við að ná meiri verðmætum úr okkar auðlindum mun byggjast á nýsköpun," sagði Eyjólfur.

Nám og atvinnulífið 

„Hlutverk okkar í HR er mjög skýrt. Það er að styðja við atvinnulífið, hvar sem það er og hvernig sem það er. Sjávarútvegurinn er engin undantekning þar á. Við höfum verið að horfa til þess hvernig við getum vakið áhuga fleiri á því að kynna sér háskólanám, læra um rekstur, tækni og viðfangsefni eins og sjávarútvegsfræðina og sérstaklega að finna leiðir til að skapa ný verðmæti og ný störf,“ segir Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík. Hann segir námið nýtast einstaklega vel með atvinnulífinu en einnig sem undirstaða í öðru námi.

Sjávarútvegur og alþjóðaviðskipti

Hilda Jana spurði þá hvort ungt fólk liti á sjávarútveg sem áhugaverðan valkost. Ari svaraði með þeim orðum að eitt af stóru viðfangsefnunum hér á Íslandi væri að sýna fólki hvernig nútíma sjávarútvegur væri í raun og veru. Oft sæi fólk enn fyrir sér aðeins slor og kulda þegar sjávarútvegur væri ræddur en raunveruleikinn væri svo allur annar, flóknari og áhugaverðari í dag. Við það bætti Eyjólfur. „Þetta er alþjóðlegur atvinnuvegur, sem byggir á vöruþróun og þekkingu sem nær alveg frá hafi og yfir í markaðsetningu þar verið er að tala beint við viðskiptavininn.“ Sagði Eyjólfur að hann fyndi fyrir vakningu á tækifærum í atvinnugreininni. Þetta myndi birtast í aukinni ásókn í sjávarútvegfræði og nýrri samsetningu nemendahópsins. Ræddu hann og Hilda Jana því næst um að fólk væri að átta sig betur á því að ef fólk hefði áhuga á alþjóðaviðskiptum þá væri sjávarútvegur eitt helsta sóknarfærið hér á Íslandi fyrir ungt og efnilegt fólk.

 

  • Meðal nám­skeiða sem kennd verða eru nýsköpun og stofnun fyrirtækja, markaðsfræði, rekstrarstjórnun, alþjóðaviðskipti, upplýsingatækni og veiðitækni.
  • Kennarar eru frá viðskiptadeild HR, auðlindadeild HA og fyrirtækjum í sjávarútvegi.
  • Nemendur munu í samstarfi við fyrirtæki í Eyjum vinna styttri og lengri verkefni sem snúa meðal annars að vinnslutækni, skráningu, ferlum og markaðsmálum. Þeir kynnast þannig virðiskeðjunni sem hefst við veiðar og lýkur á borði neytenda út um allan heim..
  • Námið er þrjár annir og veitir diplómagráðu í haftengdri nýsköpun en útskrifaðir nemendur munu einnig geta nýtt einingar í áframhaldandi nám við Háskólann í Reykjavík og Háskólann á Akureyri.
  • Nánari upplýsingar um námið

 

Viðburðir