Sveiflur í veiðigjöldum

28. júlí 2016

Veiðigjald fiskveiðiársins 2016/17 liggur nú fyrir og ljóst er að gjaldstofn til veiðigjalda lækkar á milli ára vegna samdráttar í hagnaði. Um umtalsverðar fjárhæðir er að ræða, enda lækkunin 47% í afkomu fiskveiða á milli ára. En hvernig getur staðið á því að á sama tíma og fregnir berast af góðir afkomu útgerðarinnar skuli veiðigjöld lækka vegna samdráttar í hagnaði?“ Hallveig Ólafsdóttir, hagfræðingur hjá SFS, fer yfir málin.  

Skýringin felst í þeirri staðreynd að veiðigjöld eru reiknuð eftir á og þær tölur sem liggja til grundvallar veiðigjöldum fiskveiðiársins 2016/2017 eru frá árinu 2014. Góð afkoma (afkoma fyrir skatta) var í fiskveiðum árið 2013 en lækkaði um 13 milljarða árið 2014, þar af leiðandi lækkar veiðigjaldið á milli fiskveiðiáranna 15/16 og 16/17. SFS hefur bent á að  reiknigrunnur veiðigjaldsins er fenginn úr ritinu Hagur veiða og vinnslu, sem byggir á könnun Hagstofunnar sem eru allt að tveggja og hálfs árs gamlar. Á tveimur árum geta orðiðmiklar breytingar á afkomu í sjávarútvegi.

SFS hefur  talað fyrir því að veiðigjöld endurspegli afkomu greinarinnar á hverjum tíma. Lækkunin nú á milli ára er hins vegar birtingarmynd þess að veiðigjöld eru ekki byggð á því rekstrarári sem þau eru greidd á heldur tveggja ára gömlum tölum sem fyrr segir. Flest bendir til að veiðigjald hækki umtalsverð á milli áranna 16/17 og 17/18 sem byggir þá á grunni ársins 2015.

Ágæt afkoma

SFS ásamt veiðigjaldanefnd og ASÍ og fleiri aðilum hafa bent á að ógegnsæi fylgi því að útreikningar veiðigjalds byggi á gögnum sem eru 2 ára gömul. Eigendur fiskiskipa munu greiða veiðigjald á fiskveiðiárinu 2016/17 vegna hreins hagnaðar (EBT) ársins 2014. Þetta þýðir að fyrir grein eins og sjávarútveg, sem er háð miklum verðsveiflum og aflabrögðum, getur orðið mikið ósamræmi á upphæð veiðigjalds miðað við afkomu þess árs þegar það er greitt.

 

Fyrir næsta fiskveiðiár 16/17 er gert ráð fyrir að veiðigjöld verði samtals 5.780 m.kr. Að teknu tilliti til skuldaafsláttar og afsláttar smærri útgerða má ætla að gjöldin nemi 4.780 m.kr. Ástæða þess að veiðigjöldin eru áætluð 4.780 m.kr. er að fyrir tveimur árum varð m.a. loðnubrestur en loðnuveiði er sannkölluð vítamínsprauta fyrir afkomu greinarinnar. Þá sveiflast fjármagnskostnaður óvenju mikið á milli áranna 2013 og 2014 og er raunar stærsta skýringin á breytingu afkomu á milli ára. Verðlækkanir eru einnig ein ástæðan.

Heildstæð stefna um auðlindanýtingu

Á árunum 2009-2014 hafa alls verið greiddir 36 ma.kr. í veiðigjöld (á verðlagi ársins 2014). Í ljósi reynslunnar og þeirra ágalla sem eru á því að styðjast við gömul gögn í útreikningi veiðigjalds er mikilvægt að halda áfram að þróa leiðir sem að færir gjaldið í þá átt sem endurspeglar afkomu greinarinnar á hverjum tíma. Með því er tryggt aukið gagnsæi . Þá er dregið úr ósamræmi milli ára á milli afkomu og niðurstöðu álagningar þar sem ekki væri um að ræða eftiráskattlagningu sem byggir á tveggja ára gömlum tölum. Mikilvægt er að stjórnvöld móti heildstæða stefnu í gjaldtöku á sjávarútveginn og aðrar atvinnugreinar sem að nýta auðlindir í landinu sem tryggir það að auðlindir verði nýttar á sem skynsamlegastan og arðbærastan hátt.

Íslendingar báru gæfu til þess á níunda áratugnum að hverfa frá eftiráreiknuðum skatti og yfir í staðgreiðslu. Helstu rökin fyrir þeirri breytingu voru ekki þau að við fengum skattlausa árið 1987, þó margir hafi fagnað því, heldur að aðstæður fólks gætu gjörbreyst á milli ára. Þannig lentu sumir í því að hafa góðar tekjur eitt árið en lækka verulega í launum það næsta og áttu þá í erfiðleikum með að standa undir eftiráreiknaða skattinum. Sömu rök gilda um veiðigjöldin.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 28. júlí 2016.


Mikilvægt er að stjórnvöld móti heildstæða stefnu í gjaldtöku á sjávarútveginn og aðrar atvinnugreinar sem að nýta auðlindir í landinu sem tryggir það að auðlindir verði nýttar á sem skynsamlegastan og arðbærastan hátt.“ Þetta segir Hallveig Ólafsdóttir hagfræðingur SFS.

Viðburðir