Stjörnur í Einhamar Seafood

19. febrúar 2016

„Það var ótrúlega gaman að heimsækja þetta flotta fyrirtæki og sjá þá hljóðlátu byltingu sem orðið hefur í íslenskum sjávarútvegi á undanförnum árum og áratugum. Bættar samgöngur og kröfur markaðarins um ferskleika hafa greinilega skapað sóknarfæri fyrir fyrirtæki eins og Einhamar Seafood,“ segir Elín Helga Sveinbjörnsdóttir, starfsmaður auglýsingastofunnar Hvíta hússins, sem kom að gerð nýrrar auglýsingar Arion banka.

Í auglýsingunni er Alda Agnes Gylfadóttir, framkvæmdstjóri Einhamars Seafood í Grindavík, í aðalhlutverki. Alda segir starfsmenn Einhamars kunna athyglinni vel.

„Nú bíð ég bara eftir því að Hollywood hafi samband,“ segir Alda glettin.

Alda er þó ekki ein um að vera í sviðsljósinu þessa dagana.  Pétur Jóhann Sigfússon hefur undanfarnar vikur verið með regluleg innslög í Ísland í dag þar sem hann heimsækir vinnustaði og fær að spreyta sig á hinum ýmsu störfum. Í síðasta þætti heimsótti hann Grindavík og fékk að kynnast fiskvinnslustörfum hjá Einhamar og veitti Elías Magnús Rögnvaldsson, verkstjóri á staðnum, honum dygga leiðsögn. Pétur lét vel að reynslunni og sagði að þetta kæmist nokkuð nálægt því að vera skemmtilegasta vinna í heimi.

Þess má svo til gamans geta að Alda Agnes verður fundarstjóri áráðstefnu SFS sem haldin verður 1. apríl á Hótel Nordica og verður því hægt að berja stjörnuna augum.

Innslagið má sjá á Vísir.is með því að smella hér.

Einarhamar Seafood á Facebook

Heimasíða Einhamars Seafood

 

Viðburðir