Stjórnendanám í Háskólanum í Reykjavík í haust

9. júní 2015

Námslínan „Stjórnendur í sjávarútvegi“ mun hefja göngu sína í september 2015 en námslínan var kennd í fyrsta sinn vorið 2014 við góðar undirtektir. Námið samanstendur af fjórum lotum sem kenndar eru með fjögurra vikna millibili á fimmtudegi og föstudegi frá kl. 9:30-17:30.

Kennsla byggist að miklu leyti á hagnýtum verkefnum tengdum atvinnulífi og alþjóðaumhverfi.

Námið hefst þann 24. september 2015 og því lýkur 22. janúar 2016. 

Lokafrestur skráningar er 17. september. 

Á slóðinn hér fyrir neðan má sjá nánari upplýsingar um námið. Auk þess má lesa ögn um reynslu nemenda sem tóku þátt í stjórnendalotunni í fyrra. 

Nánari upplýsingar og skráning

Þá má benda á að Háskólinn í Reykjavík býður einnig upp á námsleiðina Iceland School of Fisheries fyrir erlenda stjórnendur og sérfræðinga í sjávarútvegi með það að markmiði að þróa og dýpka skilning þeirra á atvinnugreininni. Við hvetjum ykkur til að vekja athygli þeirra sem kunna að hafa áhuga á þessum valmöguleika. 

Nánari upplýsingar um Iceland School of Fisheries 

Alda Agnes Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Einhamars Seafood í Grindavík, segir tvær ástæður hafa ráðið því að hún kaus að fara í námið í fyrra. „Annars vegar voru kúrsarnir mjög áhugaverðir og „to the point“ og hins vegar var þetta frábær vettvangur til skoðanaskipta og vangavelta við kollega í greininni.

Hvað fannst þér gagnlegast?

„Námið var frábært og stóð undir væntingum. Það sem mér fannst gagnlegast og kom að mörgu leyti á óvart hversu öflugt það reyndist, voru einmitt skoðanaskipti og reynsla annara í greininni sem menn deildu gjarnan og ræddu um í náminu, bæði innan kennslustunda og utan. Hefði alls ekki viljað missa af þessu.“

Rósa Guðmundsdóttir, framleiðslustjóri G. Run í Grundarfirði, lýsir ástæðunni fyrir því að hún dreif sig í stjórnendanámið með eftirfarandi orðum. "Mér fannst þetta spennandi tækifæri til að „dusta rykið“ af fyrri háskólamenntun minni í HR. Einnig var námið vel skipulagt þannig það var heppilegt að koma því fyrir með vinnu. Gagnlegast fannst mér tengslanetið sem myndaðist. Þarna kynntist maður mun betur  fólki sem vinnur í sömu stöðu og maður sjálfur. Þetta tengslanet er ómetanlegt.“

Viðburðir