Skattlagning með uppboði aflaheimilda

Færeyingar vinna að því að ná sambærilegum árangri og Íslendingar hafa náð
27. október 2016

Í aðdraganda alþingiskosninga hefur nokkuð verið rætt um uppboð aflaheimilda. Þeir sem fylgjandi eru slíkum tilraunum hafa talið að með þeirri leið megi innheimta frekari rentu af auðlindum sjávar. Um þetta má hafa efasemdir. Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, fjallar um málið og horfir til reynslu annarra þjóða. 

Íslenskur sjávarútvegur hefur í senn skilað sjálfbærri, umhverfisvænni og ábyrgri nýtingu fiskistofna, hagkvæmni við veiðar og vinnslu og arðsemi. Fyrirtæki í sjávarútvegi greiða skatta og gjöld hér á landi og skapa þúsundir starfa. Því til viðbótar hafa þessi fyrirtæki greitt veiðigjald frá árinu 2004 fyrir nýtingu auðlindarinnar. Önnur fyrirtæki sem nýta auðlindir hér á landi hafa ekki greitt sambærilegt gjald og sjávarútvegur. Á tímabilinu 2009-2015 voru greiddir alls 45 ma.kr., á föstu verðlagi ársins 2015, í veiðigjald til ríkisins.

Í veiðigjaldi felst skattur. Uppboð er annað form skattlagningar. Það má kalla uppboð ýmsum nöfnun, líkt og markaðslausn eða hvaðeina, en skattur er það eftir sem áður. Til eru þau ríki sem hafa efnt til uppboða á aflaheimildum. Í öllum tilvikum hefur verið um að ræða ríki sem vilja fá aukna fjármuni frá sjávarútvegi í ríkissjóð í stað þess að fjármagna hann með ríkisstyrkjum. Íslendingar búa blessunarlega ekki við það vandamál, eitt fárra ríkja í heiminum.

Að gefnu tilefni er rétt að víkja stuttlega að tilraunum annarra ríkja með uppboðum á aflaheimildum. Uppboð fóru fram á afmörkuðu svæði í Austur-Rússlandi á árunum 2001-2003 og í Eistlandi á árunum 2001-2004, auk þess sem Færeyingar gerðu tilraun með uppboð árið 2011 og aftur nú í sumar. Bæði Rússar og Eistar létu af uppboðum á aflaheimildum.

Reynsla Rússa

Þegar efnt er til uppboða ber ríkið áhættu af því ef lítil eða engin þátttaka verður í uppboðunum. Í þessu lentu Rússar meðal annars, þar sem enginn bauð í aflaheimildir í nokkrum útboðum og fengust því engar tekjur í þeim tilvikum. Þátttaka í öðrum uppboðum var betri. Það kom þó á daginn að fjárhagsleg staða sjávarútvegsfyrirtækja í Austur-Rússlandi breyttist verulega í kjölfar uppboðanna. Skuldir sjávarútvegsfyrirtækja á svæðinu jukust um 30% frá árslokum 2000 til ársbyrjunar 2002. Hafa fræðimenn talið hina auknu skuldsetningu vera vísbendingu um að fyrirtækin hafi keypt kvóta á uppboðum verulega umfram það sem fjárhagsleg staða þeirri leyfði. Enn fremur hefur verið sýnt fram á að ólöglegar veiðar hafi aukist á því tímabili sem uppboð fóru fram. Bent hefur verið á að ástæða þessa sé að líkindum sú að kostnaður fyrirtækja af uppboðum leiddi til þrýstings um að auka verulega við tekjur. Talið er að land­anir framhjá vigt og ólöglegar veiðar hafi numið um 120 ma.kr. á nefndu tímabili. Aukinheldur hafa sérfræðingar bent á að á þeim árum sem uppboð stóðu yfir hafi fjárfesting í greininni verið of lítil. Árið 2004 hurfu Rússar aftur til fyrra kerfis, sem byggði á úthlutun aflaheimilda á grundvelli veiðireynslu.

Reynsla Eista

Í Eistlandi voru 10% aflaheimilda boðin upp á ári hverju á tímabilinu 2001-2004. Uppboðin leiddu til þess að veruleg samþjöppun varð og flotinn fækkaði úr 90 skipum árið 2000 í 24 skip árið 2001. Hagræðis var sannanlega þörf, en samþjöppun varð einnig vegna gjaldþrots smærri útgerða sem ekki fengu úthlutað aflaheimildum í uppboðum. Þá var einnig talið að uppboðin hafi leitt til aukinnar sóunar á auðlindinni og verulega minna starfsöryggis sjómanna.

Tilraunir Færeyinga

Færeyingar vinna nú að því að setja á stofn fiskveiðistjórnunarkerfi sem getur skilað sambærilegum árangri og það íslenska. Færeyingar gerðu m.a. í þessu skyni tilraun í sumar með uppboð á litlum hluta aflaheimilda. Eitt markmiða nefndra uppboða var að skila auknum tekjum í færeyskan ríkissjóð. Í tilteknum uppboðum voru verðin sannanlega há. Í þeim uppboðum fóru um 70% uppboðinna aflaheimilda til tveggja burðugra fyrirtækja. Á það hefur verið bent að hið háa verð geti ekki endurspeglað markaðsverð. Ætla má að með hinum háu tilboðum hafi hinir stærri verið að tryggja framtíðargrundvöll sinn á kostnað hinna smærri. Annað markmið Færeyinga var að nýta uppboð til að stuðla að nýliðun í sjávarútvegi. Niðurstaða uppboðanna var sú að engir nýir aðilar keyptu aflaheimildir að þessu sinni.

Í uppboðum felst óvissa, sem leiðir til þess að fyrirtæki draga úr fjárfestingum og þar með dregur úr framþróun. Frá því að Færeyingar tilkynntu árið 2007 að gerðar yrðu gagngerar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu fyrir árið 2018, hefur ekkert nýtt skip bæst við færeyska fiskiskipaflotann. Til samanburðar má benda á að hér á landi hafa 10 nýir togarar komið inn í flotann á umliðnum árum og er þar um að ræða um 20% endurnýjun hans.

Að lokum skal nefnt að stéttarfélög sjómanna í Færeyjum eru mótfallin uppboðum á aflaheimildum, enda telja þau sýnt að atvinnuöryggi félagsmanna sinna verði ógnað verulega með fyrirvaralausum tilfærslum aflaheimilda. Sömu sjónarmið eiga að sjálfsögðu við um atvinnuöryggi sjómanna og fiskvinnslufólks hér á landi. 

Vítin eru til að varast þau

Af fyrrgreindu leiðir að óskynsamlegt er að auka óvissu í atvinnugrein sem þegar skilar arðsemi. Sjávarútvegur greiðir skatta og gjöld hér á landi, líkt og önnur fyrirtæki, auk þess sem veiðigjald hefur verið greitt fyrir nýtingu auðlindarinnar frá árinu 2004. Íslenskur sjávarútvegur er einstakur á heimsvísu að þessu leyti. Sú ákvörðun að breyta formi skattlagningar úr veiðigjaldi í uppboð með ófyrirséðum afleiðingum, eða blöndu af hvoru tveggja, er áhætta sem Íslendingar eiga ekki að taka. Aðrar þjóðir hafa reynt að feta þann stíg, án nokkurs árangurs.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptasblaðinu 27. október 2016.

 

Viðburðir