Aukning kaupmáttar til sjós síðustu ár, en samdráttur hjá landverkafólki

14. desember 2015

Ákveðið frost hafði verið síðustu ár í samskiptum útgerðarmanna og viðsemjenda þeirra í stétt sjómanna en ákveðið var í sumar að ýta stóru málunum til hliðar og reyna að finna sameiginlegan flöt til samninga. Um þetta var fjallað í Morgunblaðinu fyrir helgi en þar sagði Friðrik Friðriksson, lögfræðingur Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, að útgerðarmenn hafi gengið af heilindum til slíkra viðræðna og nokkur atriði hafi verið komin á blað. Að mati samtaka sjómanna hafi það ekki verið nóg til að fara með slíkt í atkvæðagreiðslu félagsmanna og upp úr hafi slitnað.

Friðrik segir að kjarasamningur aðila sé í gildi þó svo að hann hafi ekki verið endurskoðaður frá því fyrir tæpum fimm árum. Í lögum sé skýrt kveðið á um að eldri samningur gildi þar til nýr sé gerður. Almennar hækkanir hafi verið uppfærðar, en samningurinn sem slíkur hafi hins vegar ekki verið endurskoðaður. Viðræðum hafi ekki verið slitið, þær séu eftir sem áður undir verkstjórn ríkissáttasemjara. Hins vegar sé ekkert í gangi eins og er.

Góð laun í greininni

„Við höfum uppfært kaupliði árlega frá 2011 í samræmi við almennar launahækkanir síðustu ár, enda hafa þær verið upp á 2,8-4,25%,“ segir Friðrik. „Nú er hins vegar verið að tala um 32% hækkun á lægstu launum fram til ársins 2018. Okkar skoðun er sú að um slíkar hækkanir þurfi þá að semja í heildarkjarasamningi til lengri tíma.

Kaupmáttur meðallauna sjómanna hefur aukist um 6,5% frá árinu 2008, en á sama tíma hefur kaupmáttur meðallauna á almennum vinnumarkaði dregist saman um 2,7%. Þannig að sjómenn tóku enga skerðingu á sig í hruninu á meðan aðrir á almennum vinnumarkaði tóku á sig 15-20% tekjuskerðingu á meðallaunum samkvæmt útreikningum SA. Það gleymist oft í þessari umræðu að sem betur fer eru greidd góð laun í þessari atvinnugrein og fiskimenn hafa notið góðs gengis sjávarútvegsfyrirtækja síðastliðin misseri. Það reyndist hins vegar ekki vera grundvöllur til að ljúka samningum.“

Friðrik segir að ekki megi heldur gleyma því að undanfarin ár hafi verið mikil óvissa um hver yrði þróunin með fiskveiðistjórnarkerfið, hvort sem fyrrverandi eða núverandi ríkisstjórn ætti í hlut. Þetta ætti þátt í því að kjarasamningum hefði ekki verið lokið á síðustu árum, en launakostnaður væri stór liður í kostnaði útgerðarfyrirtækja.

Nokkur mál frágengin

Á 30 samningafundum á undanförnum árum hefur verið farið yfir samningana og stöðu mála. Á fundum í haust tókst að þoka málum áfram og meðal þess sem komið var á blað voru ákvæði um uppfærslu olíuverðs miðað við ákveðið viðmið og mánaðarleg uppgjör í staðinn fyrir að vera með 4-5 uppgjör í mánuði þar sem kauptrygging hefur verið gerð upp vikulega.

Þá var, að sögn Friðriks, komið samkomulag um breytt ákvæði skiptakjara á frystitogurum og áður var búið að semja um að efla starfsþjálfun vélstjórnar- og skipstjórnarmanna með starfsþjálfunarplássum um borð í fiskiskipunum. Unnið er að því að koma þessu á laggirnar í samvinnu við Tækniskólann.

Hafa rætt mönnunarmál

„Mönnunarmál hafa verið til umræðu þó svo að þau séu í sjálfu sér ekki hluti af kjarasamningi, heldur er ákveðið í lögum hver réttindamönnun er um borð í skipunum. Í hlutaskiptakerfinu hafa menn sæst á skiptahlutföll miðað við ákveðinn fjölda manna um borð eftir því hvaða veiðiskapur er í gangi, tölurnar hækka og lækka eftir því hversu margir eru í áhöfn,“ segir Friðrik.

Þá má nefna að samkvæmt Tekjublaði Frjálsrar verslunar í fyrra kom fram að sjómenn hefðu siglt fram úr forstjórum í launum. Sú framúrsigling hófst raunar á árinu 2013. Eða eins og segir í grein Fjálsrar verslunar: „Tvö hundruð efstu sjómennirnir eru með 2,5 milljónir kr. að jafnaði á mánuði en forstjórarnir 2,3 á milljónir á mánuði. Báðar þessar stéttir hækkuðu í launum um 100 þúsund kr. á mánuði í fyrra. Tekjur um 3.500 einstaklinga eru birtar og þeirra á meðal eru stjórnendur allra helstu fyrirtækja landsins.“

Viðburðir