Sjávarútvegur er suðupottur nýsköpunar

21. maí 2015

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi tilnefninga til hvatningarverðlauna sjávarútvegsins. Verðlaunin voru fyrst veitt á stofnfundi samtakanna í október síðastliðnum og verða nú veitt í annað sinn á aðalfundi sem haldinn verður 29. maí. Karen Kjartansdóttir, kynningarfulltrúi SFS, segir segir tilgang verðlaunanna að veita þeim viðurkenningu sem hafa lagt sitt af mörkum til að bæta og efla sjávarútveg með einhverjum hætti. Hún segir fjölda tilnefninga hafa borist og erfitt hafi verið að velja á milli góðra verka. Fimm aðilar hafi þó verið tilnefndir til úrslita að þessu sinni. Þær tilnefningar sýni vel fjölbreytta starfsemi atvinnuvegarins.

Matreiðslumeistarinn og Eyjamaðurinn Gísli Matthías Auðunsson á veistingastaðnum Matur og drykkur vill hefja íslenska matarhefð til vegs og virðingar, kveikja á henni áhuga og þróa.

Ómótstæðilegir réttir úr hráefni sem víða fer forgörðum

Veitingastaðurinn Matur og drykkur fær tilnefningu fyrir að gera íslenskum sjávarafurðum góð skil. „Hefur þeim tekist að nálgast hef bundna íslenska matarmenningu af virðingu en um leið á framúrstefnulegan hátt. Einn af hápunktum matseðilsins er þorskhaus sem í meðförum matreiðslumanna staðarins er algjör sælkeramatur. Þar er verið að gera ómótstæðilegan rétt úr hráefni sem sums staðar fer forgörðum, eins og í Noregi þar sem þorskhausum er yfirleitt hent.“

Þrautseigja við sæbjúgnaveiðar

„Þá má nefna Hannes Sigurðsson hjá Hafnarnesi VER á Þorlákshöfn. Hann hefur átt frumkvæðið að veiði og eldi á sæbjúgum, þróað tæki til veiða og vinnslu og eytt ómældum tíma og fjármunum í verkefnið,“ segir Karen. „Hannes er uppátektarsamur og þrautseigur og hefur tekist að skapa mikla atvinnu á svæðinu. Í dag er svo komið að hann getur selt alla sæbjúgnaframleiðsluna þurrkaða til Kína og allar líkur á að þessi starfsemi fari vaxandi, með enn meiri atvinnu- og verðmætasköpun fyrir íslenskt samfélag.“

Ofurkæling sem eykur gæði og hagræði

Einnig er tilnefnd ofurkælingartækni sem þróuð hefur verið af Matís, Skaganum, 3X og Fisk Seafood. „Þessi tækni þykir gott dæmi um hugvitið sem knýr áfram framþróun íslensks sjávarútvegs og gjöfula samvinnu rannsóknar-, tækni- og sjávar- útvegsfyrirtækja. Hefur ofurkælingin verið í þróun um nokkuð langt skeið og tekur tæknin stöðugum framförum, nú síðast með ofurkælitækjum sem nota má um borð í ísfisktogurum,“ útskýrir Karen.  „Ofurkælingin eykur gæði og hagræði í útflutningi ferskra sjávarafurða á erlenda markaði og hjálpar meðal annars til við að minnka notkun á ís í flutningunum.“

Skrúfa sem sparar olíu

Skipaverkfræðistofan Skipasýn, Vinnslustöðin og Hraðfrystihúsið Gunnvör í Hnífsdal eru tilnefnd fyrir þróun nýrrar skipsskrúfu sem þó byggist á eldri hugmyndum. „Hvatningarverðlunin eru ekki bara ætluð verkefnum sem þegar eru orðin að veruleika. Nýja skrúfan er mjög áhugaverð tilraun og til marks um viðleitni greinarinnar til að bæði minnka eldsneytisnotkun og lágmarka umhverfisáhrif fiskveiða.“ 

Birna Jónasdóttir, rokkstjóri Aldrei fór ég suður, segir tækifærin á Vestfjörðum óendanleg. 

Kynna ný atvinnutækifæri í sjávarbyggðum

Loks hlýtur tilnefningu viðburðurinn Heimkomuhátíð á tónlistarhá- tíðinni Aldrei fór ég suður sem haldin er á Ísafirði. „Á Heimkomuhátíðinni var tónlistarviðburðurinn notaður til að kynna atvinnutækifæri í heimabyggð. Þetta var mjög gott framtak og sýndi að mörg áhugaverð störf eru í boði hjá spennandi fyrirtækjum sem eru að byggja upp alþjóðlega starfsemi í heimabyggð. Okkur þótti þetta ekki síst skemmtilegt framtak því einhverjar öflugustu og framsæknustu útflutningsgreinar okkar Íslendinga eru einmitt listir, ekki síst tónlist, og sjávarútvegur,“ segir Karen.

Fjölbreytt atvinnulíf undir merkjum sjávarútvegs

Tilnefningarnar að þessu sinni gefa ágætan þverskurð af því fjölbreytta atvinnulífi sem þrífst undir merkjum sjávarútvegsins. „Þegar maður lítur yfir sviðið er ekki annað hægt en að taka eftir því hve margt er að gerast í tækni og nýsköpun innan. Orðið hefur til suðupunktur hugmynda þar sem gott fæðist af góðu og stöðugt leitað nýrra leiða til að skapa enn meiri verðmæti úr því sem við fáum úr hafinu,“ segir Karen Kjartansdóttir. 

Viðburðir