Sjávarútvegur og samfélagið

30. desember 2016

Umliðin ár hafa verið einstök í efnahagslegu tilliti. Góðærið, sem við héldum að aldrei kæmi til baka eftir skellinn árið 2008, kom blessunarlega aftur. Verðbólga hefur haldist í sögulegu lágmarki, kaupmáttur hefur sjaldan verið meiri og við höfum haft sex ára samfellt hagvaxtarskeið. Lífið á Íslandi hefur verið gott. Þetta er meðal þess sem fram kemur í grein eftir Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, sem fyrst birtist í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins. 


Sjávarútvegur hefur gengið vel. Áætlað er að árið 2015 hafi EBITDA sjávarútvegs numið alls 71 ma.kr., hagnaður numið 45 ma.kr., arðgreiðslur í heild 12,9 ma.kr., skuldir lækkuðu og greinin greiddi tæplega 23 ma.kr. í bein opinber gjöld, þ.e. tekjuskatt, veiðigjald og tryggingagjald.
Þegar litið er yfir árið sem senn er á enda og mögulega þróun ársins 2017 er hins vegar ljóst að blikur eru á lofti.


Minna súrefni í styrkingu krónu


Íslenska krónan er einn stærsti áhrifavaldur í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja hér á landi. Tekjur fyrirtækjanna eru í erlendri mynt en gjöld eru að jafnaði til jafns í íslenskri krónu og erlendri mynt. Með þannig samsetningu tekna og gjalda má því gróflega áætla að 10% styrking krónu leiði til tæplega 5% samdráttar í framlegð sjávarútvegsfyrirtækja. Þegar þetta er ritað hefur krónan styrkst um 16% frá áramótum. Gagnvart bresku pundi hefur krónan styrkst um 26%. Sé einvörðungu tekið tillit til þessarar breytu má ráðgera að EBITDA sjávarútvegs geti orðið 50 ma.kr. á þessu ári. Er þar um að ræða 30% lækkun á milli ára.


Árið 2016 höfðu um 400 aðilar veiðiheimildir. Hér er um fjölbreytta flóru fyrirtækja að ræða, bæði að því er varðar stærð og fjárhagslegan styrk. Þau eru því misjafnlega í stakk búin til að takast á við þær nýju slóðir sem raungengi krónunnar fetar. Í þessari gengisstyrkingu er óhjákvæmilegt að hluti þessara fyrirtækja muni eiga erfitt uppdráttar og súrefni einhverra þeirra mun því miður þverra. Fyrirtæki sem framleiða að mestu afurðir fyrir Bretlandsmarkað hafa farið og munu fara illa út úr lækkun breska pundsins. Í því samhengi er mikilvægt að hafa í huga að árið 2015 voru tekjur sjávarútvegs vegna útflutnings til Bretlands alls 48 ma.kr., en það sem af er árinu 2016 eru þær alls 34 ma.kr. Bretland er lang stærsti markaðurinn fyrir íslenskar sjávarafuðir og því veldur samdráttur í sölu í krónum talið töluverðum áhyggjum.


Allt er í heimi hverfult


Til viðbótar við fyrrgreint er rétt að hafa í huga að Rússlandsmarkaður botnfraus þegar bann var sett á sölu fiskafurða til landsins. Tekjur íslensks sjávarútvegs af sölu afurða til Rússlands árið 2015 voru tæpir 10 ma.kr., en árið 2016 eru þessar tekjur engar. Þá hafa efnahagserfiðleikar í Nígeríu leitt til þess að verulega hefur dregið úr eftirspurn eftir þurrkuðum fiskafurðum frá Íslandi. Tekjur íslensks sjávarútvegs af sölu þurrkaðra afurða til Nígeríu fyrstu tíu mánuði ársins 2015 voru alls 12 ma.kr., en fyrstu tíu mánuði ársins 2016 hafa tekjur aðeins verið 4,4 ma.kr. Er því um 63% samdrátt að ræða. Mikilvægt er að hafa þessar staðreyndir í huga þegar framtíð sjávarútvegs er kortlögð. Bæði stjórnmála- og efnahagsástand annarra ríkja eru þættir sem rekstraraðilar í sjávarútvegi hér á landi hafa engin áhrif á. Fjárfestingar í markaðsstarfi og tekjur af sölu afurða á hlutaðeigandi mörkuðum geta því tapast á augabragði. Við þá áhættu verður íslenskur sjávarútvegur að búa.


Eðli máls samkvæmt eru veiðar einstakra fiskstofna einnig óvissu háðar. Þannig hefur engin loðna fundist við loðnuleit á umliðnum mánuðum og að óbreyttu kann því að verða alger aflabrestur í þeirri tegund. Verði sú niðurstaðan kann það að hafa í för með sér um 10-15 ma.kr. tekjusamdrátt.


Samfélagsleg áskorun


Auðsýnt er að rekstrarumhverfi í sjávarútvegi á Íslandi mun versna á næstu misserum vegna fyrrgreindra þátta. Fullyrða má að þetta er stærsta áskorun sem íslenskur sjávarútvegur og samfélagið í heild standa frammi fyrir á komandi ári. Eru þá óátalin óvissa og mögulegt tjón sem kunna að verða vegna verkfalls sjómanna annars vegar og illa ígrundaðra breytinga stjórnmálamanna á fiskveiðistjórnunarkerfinu hins vegar. Arðbær sjávarútvegur leiðir til þess að fyrirtækin hafa burði til að greiða samkeppnishæf laun, ráðast í fjárfestingar og greiða skatta, veiðigjald og önnur opinber gjöld til ríkissjóðs. Þá skiptir ekki síður máli hver landsframleiðslan er og hvernig hún þróast. Í því samhengi verður ekki framhjá því litið að sjávarútvegur hefur lagt verulega til landsframleiðslunnar og þess hagvaxtar sem hér hefur verið umliðin ár. Varlega má áætla framlag sjávarútvegs til hagvaxtar um fimmtung. Af þessum sökum þarf ekki mikla breytingu til hins verra í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja til þess að hún endurspeglist í umtalsvert minni hagvexti en ella.


Af umræðu má stundum álykta að sjávarútvegur sé einkamálefni sjávarútvegsfyrirtækja eða stjórnmálamanna. Því fer hins vegar fjarri. Gott gengi sjávarútvegs er ein grunnforsenda velsældar íslensks samfélags í heild. Þegar blikur eru á lofti og aðgerða þörf er mikilvægt að gleyma því ekki.

Greinin birtist fyrst í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins. 

Viðburðir