Sjávarútvegur og Parísarfundur

Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri SFS
7. október 2015

Velferð Íslendinga byggist á skynsamlegri nýtingu auðlinda. Íslendingar hafa þegar náð miklum árangri við að draga úr umhverfisáhrifum í sjávarútvegi, reyndar svo miklum að litið er til greinarinnar sem fyrirmyndar í öðrum atvinnuvegum hér á landi og víða um heim.

En betur má ef duga skal. Ýmis rök benda til þess að ástand hafsins sé að breytast mjög hratt til hins verra og að súrnun sjávar, hlýnun jarðar og fleiri umhverfisþættir komi til með að ógna lífríkinu í hafinu á komandi árum. Það er því mikilvægt að Íslendingar taki virkan þátt í alþjóðlegum áætlunum um að sporna við þessari þróun. Næsta alþjóðlega ráðstefna þar sem þjóðir heims leitast við að sameinast um alþjóðleg losunarmarkmið er í París í lok þessa árs. Í aðdraganda þessa væntanlega fundar í París hafa íslensk stjórnvöld tilkynnt um landsmarkmið Íslands í loftslagsmálum fram til ársins 2030. Miða þau að því að ná sameiginlegu markmiði með ríkjum ESB og Noregi um 40% minnkun losunar miðað við árið 1990. Um þetta fjallaði Svavar Svavarsson, deildarstjóri viðskiptaþróunar HB Granda, á Umhverfisdegi atvinnulífsins sem haldinn var í fyrsta skipti í síðustu viku. Í máli hans kom meðal annars fram að árið 1990 eða fyrir 25 árum notaði íslenskur sjávarútvegur 207 þúsund tonn af jarðefnaeldsneyti á fiskiskip og 61 þúsund tonn í annan fiskiðnað, aðallega í fiskimjölsverksmiðjum, eða samtals 270 þúsund tonn. Núverandi notkun sjávarútvegs á jarðefnaeldsneyti er um 200 þúsund tonn á ári og hefur því minnkað um tæp 70.000 tonn frá árinu 1990 m.a. vegna hagræðingar í greininni. Til að mæta nýjum áformum Íslendinga í loftslagsmálum þarf árleg olíunotkun sjávarútvegs að fara samtals niður í 160 þúsund tonn fyrir árið 2030. Sjávarútvegurinn þarf með öðrum orðum að minnka núverandi notkun sína á jarðefnaeldsneyti úr 200 þúsund tonnum í 160 þúsund tonn eða um 40.000 tonn á næstu 15 árum.

Leita þarf allra leiða til að draga enn frekar úr mengun svo sem með því að ljúka við að rafvæða fiskimjölsvinnslur. Eins og staðan er núna er það ekki hægt nema með frekari uppbyggingu flutningsgetu raforkukerfisins. Stjórnvöld og fyrirtæki í sjávarútvegi þurfa því að líta heildstætt á viðfangsefnið og setja sér sameiginleg markmið í umhverfismálum og vinna saman að því að þau náist.

Það er því mikil áskorun fyrir sjávarútveginn sem og íslensku þjóðina að leita allra leiða til að draga úr mengun og ekki líta á umhverfisvernd sem ógn heldur tækifæri. Fátt sýnir það betur en íslenskur sjávarútvegur.


Það er því mikil áskorun fyrir sjávarútveginn sem og íslensku þjóðina að leita allra leiða til að draga úr mengun og ekki líta á umhverfisvernd sem ógn heldur tækifæri. Fátt sýnir það betur en íslenskur sjávarútvegur.

Viðburðir