Sjávarútvegsráðstefnan víkkar sjóndeildarhringinn

17. nóvember 2014

„Þetta víkkar sjóndeildarhringinn mjög og eykur skilning á þessari stóru atvinnugrein,“ segir Erla Kristinsdóttir, formaður Sjávarútvegsráðstefnunnar, sem haldin er í fimmta sinn næst komandi fimmtudag og föstudag. 

Tilgangur ráðstefnunnar er að stuðla að faglegri og fræðandi umfjöllun um sjávarútveg og að vera vettvangur fyrir samskipti allra þeirra sem koma að sjávarútvegi á Íslandi. Innan þessa hóps eru þeir sem starfa við veiðar, eldi, frumvinnslu, framhaldsvinnslu, sölu og markaðssetningu, þjónustu og rannsóknir og þróun, einnig opinberir aðilar, kennarar og nemendur, fjölmiðlar og aðrir áhugamenn.

Erla segir ráðstefnuna sem haldin var í fyrra þá stærstu sem haldin hefur verið hingað til. Útlit sé þó fyrir að sú sem fer fram í vikunni verði álíka vel sótt en áætlað er að um 550 manns mæti.

En af hverju sjávarútvegsráðstefna? Erla segir að mikilvægt sé að fólk læri af fortíðinni, greini og meti mögulega framtíð út frá núverandi stöðu í tækniþróun, markaðsþróun, út frá þróun auðlindarinnar, efnahagslífs og áherslum stjórnvalda. Allt séu þetta þræðir sem liggja í gegnum sjávarútveginn og tengja hagsmuni ólíkra fyrirtækja í greininni. Þessir hagsmunaþræðir tengja saman fyrirtækin hvort sem þau starfa við veiðar, framleiðslu, þjónustu eða sölu. Það er ekki að ástæðulausu sem verðmæti sjávarafurða hefur aukist á síðustu áratugum, á sama tíma og veitt magn úr sjó hefur dregist saman. Eða eins og Erla orðar það í formála Ráðstefnuheftisins. „Framþróunin verður vegna þess að fólk talar saman, lærir af reynslunni og metur ólíka kosti til þess að gera betur. Engin framþróun getur verið möguleg án þess að fólk komi saman, tali saman og taki ákvarðanir.

Erla segir auk þess að verðmætaaukning byggi á samspili vöruþróunar, markaðssetningar og skilvirkni í öllu ferlinu frá veiðum til afhendingar vöru. Ef ekki væri fyrir skapandi kraft Íslendinga, þá værum við eflaust komin skemur á veg með nýtingu alls þess sem úr sjónum kemur. En það er hugmyndaauðgi og sköpunargáfa sem hefur tengt hagsmuni sjávarútvegs saman við hagsmuni lyfja- og bætiefnaiðnaðar, við snyrtivöruframleiðendur og við tískufyrirtæki. Einu takmörk verðmætaaukningar í sjávarútvegi eru takmörk hugmyndaauðgi.

Á ráðstefnunni verður einnig farið yfir fjölda margar áleitnar spurningar tengdri greininni svo sem hvernig megi byggja upp öflugra markaðsstarf, hvað sé sanngjarnt auðlindargjald, hvar við stöndum í umhverfismálum, hvaða breytingar séu að verða og hvaða þýðingu þær hafi í framtíðinni, nýsköpun og fjárfestingartækifæri.

Dagskrá ráðstefnunnar.

Erla Kristinsdóttir, formaður Sjávarútvegsráðstefnunnar

Viðburðir