Sjávarútvegsráðherra fer eftir ráðgjöf Hafró

24. júní 2016

Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur tekið ákvörðun um heildarafla tiltekinna fisktegunda fyrir næsta fiskveiðiár, 2016/2017 eftir samráð í ríkisstjórn. Ráðherra fylgir tillögum Hafrannsóknarstofnunnar um ráðlagðan heildarafla í öllum tegundum líkt og gert hefur verið undanfarin ár. Í samráði í ríkisstjórninni ítrekaði ráðherra nauðsyn þess að stórauka fjármagn til hafrannsókna.

„Ráðgjöf Hafrannsókarstofnunar var viss vonbrigði miðað við væntingar. Við erum að sjá ákveðin lúxusvanda á Íslandi vegna góðrar fiskveiðistefnu og þurfum að styrkja hafrannsóknir til þess að leita skýringa á því til dæmis hversvegna nokkrir árgangar þorsksins eru að léttast.“ Sagði Gunnar Bragi Sveinsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Margir nytjastofna á Íslandsmiðum eru í ágætu jafnvægi og nýting þeirra hófleg, eins og segir í nýrri skýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar. Veiðum úr mörgum mikilvægustu nytjastofnum á Íslandsmiðum er stýrt á grundvelli aflareglna sem hafa verið prófaðar af Alþjóða hafrannsóknaráðinu (ICES) og standast alþjóðleg varúðarsjónarmið. 


Þessar aflareglur styrkja einnig stöðu íslenskra sjávarafurða á alþjóðamarkaði, enda er vaxandi áhersla markaðsaðila erlendis á að selja sjávarafurðir sem vottaðar eru sem sjálfbærar.

Um mikilvægasta nytjastofninn, þorskinn er það að segja að nýliðun undangengin allmörg ár hefur verið nokkuð undir meðallagi en stækkun stofnsins á undanförnum árum talin bein afleiðing af minni sókn.

Nánar á vef Sjávarútvegsráðuneytisins. 

Viðburðir