Sjávarútvegsfyrirtæki áberandi á lista yfir framúrskarandi fyrirtæki

8. febrúar 2016

Þriðja árið í röð er sjávarútvegsfyrirtækið Samherji efst á lista yfir framúrskarandi fyrirtæki. Rekstur félagsins byggir á sjófrystingu, landvinnslu á bolfiski, fiskeldi og markaðs- og sölustarfsemi.

Ítarlega er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu og segir þar að tæknilega séð væri réttast að kalla Samherja eignarhaldsfélag en árið 2012 var móðurfélag Samherja skipt upp í tvö félög. Annars vegar rekstrarfélag um veiðar og vinnslu á Íslandi, það er Samherji Ísland ehf., og hins vegar eignarhaldsfélag um eignarhluti í dóttur- og hlutdeildarfélögum samstæðunnar, Samherja hf. sem trónir á toppi listans. Alls á samstæðan 16 dótturfélög auk þess sem það á hlutdeild í átta félögum til viðbótar. Fjögur dótturfélög og fimm hlutdeildarfélög samstæðunnar eru erlend. Athygli vekur að þrjú dótturfélög Samherja eru á lista yfir framúrskarandi fyrirtæki þetta árið. Þau eru Íslandsbleikja í 177. sæti, Samherji Ísland í 10. sæti og Útgerðarfélag Akureyringa í 28. sæti. Eitt hlutdeildarfélag Samherja er á listanum en það er Síldarvinnslan sem er í sjötta sæti á lista yfir framúrskarandi fyrirtæki ársins.

Sjávarútvegsfyrirtæki eru sem fyrr áberandi á lista yfir framúrskarandi fyrirtæki en á svokölluðum topp 20 lista má auk þeirra sem þegar eru upptalin finna HB Granda, Stálskip, FISK-Seafood á Sauðárkróki, Fiskveiðahlutafélagið Venus, Ísfélag Vestmannaeyja og Skinney-Þinganes á Höfn í Hornafirði.

Í fylgiriti Viðskiptablaðsins sem helgað er framúrskarandi fyrirtækjum er meðal annars viðtal við Þorstein Má Baldvinsson, forstjóra Samherja. Gleðst hann yfir árangrinum en minnir á að alltaf má bæta og gera betur. Eða eins og hann segir:

„Á Íslandi þurfum við að halda áfram að þróa vélar, tæki, hugbúnað og hugmyndir sem auka framleiðsluverðmæti okkar. Það gerum við með samvinnu milli sjávarútvegsins, tæknigreina og hugbúnaðarfyrirtækja. Það hefur verið horft til Íslendinga þegar rætt er um arðbæran og sjálfbæran sjávarútvegi og þar viljum við vera áfram,“ leggur hann áherslu á.

„Fjölbreytt fyrirtæki sem hafa vaxið á Íslandi með samvinnu við sjávarútveg eru orðin stærri og öflugri og sækja einnig á erlenda markaði með fullmótaðar vörur, sem er frábær þróun. Það eru spennandi tímar í sjávarútvegi eins og oft áður og af nógu að taka til að móta framtíðina,“ segir Þorsteinn.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi óska framúrskarandi fyrirtækjum hjartanlega til hamingju með góðan árangur.


Til að komast í hóp framúrskarandi fyrirtækja eru gerðar strangar kröfur: Það þarf að vera minna en 0,5% líkur á alvarlegum vanskilum, fyrirtækið þarf að hafa sýnt jákvæðan rekstrarhagnað þrjú ár í röð, niðurstaða ársreiknings þarf að hafa verið jákvæð þrjú ár í röð og eignir séu 80 milljónir eða meira á árunum 2011-2013. Fyrirtækjum er veitt viðurkenning í þremur flokkum og alls uppfylltu 682 fyrirtæki skilyrði Creditinfo af tæplega 35.000 fyrirtækjum sem skráð eru í landinu.

Viðburðir