Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi styðja Krabbameinsfélagið

23. febrúar 2015

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, og Krabbameinsfélag Íslands hafa skrifað undir samning til þriggja ára um stuðning SFS við Mottumars/Karlar og Krabbamein, en það er átaksverkefni Krabbameinsfélagsins til að vekja athygli á krabbameinum hjá körlum. Krabbameinsfélagið telur þennan stuðning mjög mikilvægan og væntir góðs af samstarfinu, ekki síst þar sem sjávarútvegurinn tengist margvíslegum atvinnugreinum í þjóðfélaginu og hefur starfsstöðvar víða um landið. 

Skrifað var undir samninginn í Saltfisksetrinu í Grindavík og voru nokkrir starfsmenn sjávarútvegsfyrirtækjanna Vísis, Þorbjarnar, Codland og Haustaks viðstaddir. Staðurinn þykir táknrænn fyrir sjávarútveg á Íslandi í fortíð og framtíð en á Saltfisksetrinu er fortíðarinnar minnst en á efri hæð hússins hefur nýsköpunarfyrirtækið Codland aðsetur. Þá hefur fjölskyldan í Vísi látið sig málefni Krabbameinsfélagsins miklu varða í gegnum tíðina og stutt starfsemina dyggilega. Með því hefur fjölskyldan viljað sýna þakklæti sitt í verki en Margrét Sighvatsdóttir, móðir Péturs Pálssonar, framkvæmdastjóra Vísis, glímdi við brjóstakrabbamein á miðjum aldri en fékk lækningu. Þá lést faðir hans, Páll H. Pálsson í þessum mánuði eftir baráttu við krabbamein.

Meginmarkmiðið með Mottumars er að hvetja karlmenn til að þekkja einkenni krabbameina og stuðla að breytingum á lífsháttum til að draga úr líkum á að fá krabbamein. Einnig er markmiðið að kynna fyrir karlmönnum þá þjónustu sem stendur til boða og hvetja þá til að hika ekki við að leita til læknis.

Ár hvert greinast um 750 íslenskir karlar með krabbamein. Í marsmánuði er lögð áhersla á að hver og einn getur gert ýmislegt til að draga úr líkum á að fá krabbamein, til dæmis með því að reykja ekki, hreyfa sig reglulega, borða hollan og fjölbreyttan mat, takmarka neyslu áfengis og varast óhófleg sólböð. Því fyrr sem sjúkdómurinn greinist, því meiri líkur eru á lækningu.

Samninginn undirrituðu þau Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Ragnheiður Haraldsdóttir, forstjóri Krabbameinsfélags Íslands. 

Skálað í þorskroði


Að lokinni undirskrift skáluðu fulltrúar Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Krabbameinsfélags Íslands í kollageni en það er fæðubótarefni sem unnið er úr þorskroði í nýsköpunarfyrirtækinu Codland í Grindavík. 

Talið frá vinstri: Heiðar Hrafn Eiríksson, skrifstofustjóri Þorbjarnar, Gunnar Tómasson, framkvæmdastjóri framleiðslu og sölumála Þorbjarnar, Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Ragnheiður Haraldsdóttir forstjóri Krabbameinsfélagsins, Erla Ósk Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Codlands, Karen Kjartansdóttir, upplýsingafulltrúi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Pétur Pálsson, forstjóri Vísis. 

Frekari upplýsingar veita:

Ragnheiður Haraldsdóttir, forstjóri Krabbameinsfélagsins

ragnheidur@krabb.is, s: 895 0218

Karen Kjartansdóttir, upplýsingafulltrúi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi

karen@sfs.is, s: 6929797

Viðburðir