Samhengi hlutanna – af uppboðstilraunum Færeyinga

11. ágúst 2016

Tilraun færeyskra stjórnvalda með uppboð á takmörkuðum hluta aflaheimilda Færeyinga hefur vakið nokkra umræðu hér á landi. Eðlilega er nú tekist á um það í Færeyjum hvort uppboð almennt og aðferðarfræðin sé skynsamleg leið við gjaldtöku af færeyskum sjávarútvegi og þá hvort það þjóni þjóðarhagsmunum Færeyinga. Þegar gerð er tilraun til að yfirfæra reynslu af þessum uppboðum Færeyinga yfir á íslenskan veruleika er eðlilegt að horfa til samhengis hlutanna. Um þetta fjalla þeir Kristján Þórarinsson, stofnvistfræðingur SFS, og Steinar Ingi Matthíasson, sérfræðingur SFS í alþjóðamálum. 

Efnahagur og ástand fiskistofna

Færeyingar hafa um langt skeið átt í nokkrum efnahagsvanda sem er helst til kominn vegna þess hversu einhæfir útflutningsatvinnuvegir þeirra eru, en sjávarútvegur er meginstoð efnahagskerfis þeirra (fiskveiðar og fiskvinnsla, fóðurframleiðsla og fiskeldi). Hefðbundnar botnfiskveiðar á heimamiðum Færeyinga hafa því miður litlu skilað undanfarin mörg ár (sjá mynd 1). Færeyingum hefur ekki auðnast að ná utan um stjórn botnfiskveiða á heimamiðum og efla fiskistofna sína (sjá mynd 2), enda ekki heppilegir hvatar til þess í fiskidagakerfi því sem Færeyingar nota við stjórn veiðanna. Þá standa eftir veiðar á uppsjávarfiski – makríl, norsk-íslenskri síld, kolmunna og loðnu – en  í þeim veiðum hefur gengið vel nokkur undanfarin ár, auk botnfiskveiða í Barentshafi (mest þorskur). Þessar fiskveiðar eru tæknivæddar og fjármagnsfrekar og í höndum mun færri aðila en hefðbundnar botnfiskveiðar á heimamiðum. Þetta er því á vissan hátt sitt hvor kúltúrinn, annars vegar hefðbundnar botnfiskveiðar Færeyinga  á heimamiðum, sem stjórnað er með sóknarmarki í fiskidagakerfinu, og hins vegar tæknivæddar uppsjávarveiðar auk botnfiskveiða í Barentshafi.


Hefðbundnar botnfiskveiðar á heimamiðum Færeyinga hafa því miður litlu skilað undanfarin mörg ár (sjá mynd 1). Færeyingum hefur ekki auðnast að ná utan um stjórn botnfiskveiða á heimamiðum og efla fiskistofna sína (sjá mynd 2), enda ekki heppilegir hvatar til þess í fiskidagakerfi því sem Færeyingar nota við stjórn veiðanna. Þá standa eftir veiðar á uppsjávarfiski – makríl, norsk-íslenskri síld, kolmunna og loðnu – en  í þeim veiðum hefur gengið vel nokkur undanfarin ár, auk botnfiskveiða í Barentshafi (mest þorskur).

Rótin er uppsjávarfiskur

Umræðan í Færeyjum núna og uppboð aflaheimilda snýst ekki um hefðbundnar botnfiskveiðar á heimamiðum, enda ekkert til að bjóða upp þar vegna bágborinnar stöðu helstu fiskistofna, heldur snýst hún um hlut ríkissjóðs í því sem gefur meira af sér hjá þeim, þ.e.a.s veiðum á uppsjávarfiski og botnfiskveiðum í Barentshafi. Uppboðin ná aðeins til lítils hluta þessara aflaheimilda eða sem nemur um 8-9% af heildar aflaheimildum Færeyja í kolmunna, síld og makríl. Þá eru um 11% af botnfiskheimildum Færeyinga í Barentshafi einnig boðin upp.

Uppruni aflaheimildanna sem boðnar eru upp er að stofni til úr sameiginlegum fiskistofnum strandríkja í Norðaustur Atlantshafi.

Hlutur Færeyinga

Fyrir liggur að Færeyingar hafa sagt sig frá milliríkjasamningum um stjórn veiða úr sameiginlegum stofnum kolmunna og síldar. Í kjölfarið hafa þeir sett sér einhliða kvóta í þessum tegundum langt umfram þann hlut sem þeir áttu skv. samningum og höfðu áður samið um. Þannig hafa þeir sett sér einhliða kvóta í norsk-íslenskri síld í ár sem nemur rúmlega 56 þúsund tonnum eða um 17,7% af veiðiráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES), en hlutdeild þeirra samkvæmt síldarsamningi var 5,16% og er því um rúmlega þreföldun að ræða miðað við fyrri hlut. Í kolmunna hafa Færeyingar sett sér tæplega 276 þúsund tonna heildarafla í ár, eða sem nemur um 35.5% af ráðgjöf ICES en hlutur þeirra skv. kolmunnasamningi var tæplega 25%. Auk þess færðu þeir liðlega 71 þúsund tonn á milli ára af óveiddum heimildum en á síðasta ári gáfu þeir út rúmlega 100 þúsund tonna viðbótarkvóta í kolmunna sem engin leið var að þeir næðu að veiða. Á sama tíma hefur Ísland ákvarðað heildarafla sinn í þessum tegundum síðustu ár á grundvelli fyrri samninga í síld og kolmunna.

Í skiptum fyrir uppsjávarfisk

Botnfiskinn í Barentshafi, bæði í norskri og rússneskri lögsögu, fá Færeyingar á grundvelli tvíhliða samninga þar sem þeir greiða fyrir veiðiréttinn fyrst og fremst með framsali á veiðiheimildum í uppsjávarfiski (kolmunna, síld og makríl) og í skiptum fyrir aðgang erlendra skipa til veiða á uppsjávarfiski í lögsögu Færeyja. Þannig fá Færeyingar til að mynda í ár um 20.000 tonn af botnfiski frá Rússum og láta í staðinn 81.000 tonn af kolmunna, 14.500 tonn af makríl og 10.000 tonn af norsk íslenskri síld.

Þessar umræddu aflaheimildir úr sameiginlegum stofnum uppsjávarfiska nota þeir nú að hluta til beinnar sölu á uppboði og að hluta sem skiptimynt fyrir veiðiheimildir í Barentshafi sem líka eru að hluta seldar á uppboði. Aflaheimildirnar sem þeir bjóða upp eiga því rót sína a.m.k. að hluta til í því sem þeir taka sér einhliða úr sameiginlegum fiskistofnum þar sem ekki hafa náðst samningar um heildstæða veiðistjórnun. Þá eru Færeyingar aðilar að þríhliða samningi um stjórn makrílveiða og voru þannig þátttakendur í því að skilja Ísland eftir utan samnings um markrílveiðar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. ágúst. 

Viðburðir