Sameinaðir hagsmunir sjávarútvegs

Kolbeinn Árnason
31. október 2014

Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, flutti ræðu á stofnfundi samtakanna á Hilton Nordica í dag.

„Sjávarútvegur spannar óravítt svið. Við rekstur sjávarútvegsfyrirtækja verður að taka tillit til ótal þátta og mismunandi hagsmuna. Mismunandi hagsmunir togast oft á en það er ósk mín að með sameiningu hagmunasamtaka í sjávarútvegi verði hægt að taka ákvarðanir á breiðari grunni, skapast geti ríkari sátt um þessa mikilvægu atvinnugrein svo hún geti áfram staðist alþjóðlega samkeppni,“ þetta var meðal þess sem fram kom í ræðu Kolbeins Árnasonar, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi á stofnfundi samtakanna á Hilton Nordica í dag.

Yfirskrift fundarins var Samkeppnisfærni fyrirtækja í sjávarútvegi. Ræðumenn komu úr ólíkum greinum voru fengnir tilað varpa ljósi á breiða skírskotun sjávarútvegs og mikilvægi hans fyrir íslenskt atvinnulíf og samfélag.

„Við þurfum að horfa til framtíðar, greina sóknarfærin og vinna að eflingu og samkeppnisfærni sjávarútvegsins. Hluti af þessu er að sameina fyrirtæki í sjávarútvegi í ein öflug samtök, hvort sem þau starfa við veiðar, vinnslu, markaðsetningu eða sölu á sjávarafurðum. Öflugur sjávarútvegur hlýtur að vera sameiginlegt markmið okkar,“ sagði Kolbeinn í ræðu sinni. Áhersla á sjálfbærni og virðingu fyrir umhverfinu væri innbyggð í stjórnkerfi fiskveiða því það fæli í sér hagræna hvata til góðrar umgengni um auðlindina.

„Þetta kerfi hefur orðið grundvöllur þess að hér er rekinn ábyrgur sjávarútvegur sem hefur hvort tveggja sjálfbærni og arðsemi að leiðarljósi. Þetta kerfi varð til vegna þess að menn vildu taka á ofveiði með ábyrgri stjórn fiskveiða við Ísland. Það skyldi því enginn halda því fram að umhverfisvernd geti ekki verið arðbær. Við eigum að halda áfram á þessari braut og ég vil að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafi umhverfismál alltaf í öndvegi í starfi sínu,“ sagði Kolbeinn enn fremur.

Öflugur sjávarútvegur hlyti að vera markmið allra. Samfélagið þyrfti á því að halda að íslenskur sjávarútvegur skaraði fram úr á alþjóðavettvangi og að Íslendingar væru þekktir sem framleiðendur fyrsta flokks afurða. „Við þurfum að tengja skólakerfið betur við atvinnugreinina til að laða að færasta fólkið, byggja framþróun áfram á þekkingu og viðhalda því orðspori sem Íslendingar hafa skapað sér á alþjóðlegum mörkuðum. Við sem störfum að hagsmunamálum sjávarútvegsins viljum í ríkari mæli taka þátt í stefnumótun um menntamál til að tryggja að þessi mikilvæga atvinnugrein búi að starfsfólki með ólíka þjálfun og þekkingu,“ sagði Kolbeinn.

Í lok ræðu sinnar sagði hann: „Íslenskur sjávarútvegur hefur einstaka sögu að segja og tækifæri framtíðarinnar mótast af því sem vel hefur verið gert. Jafn magnaður atvinnuvegur og íslenskur sjávarútvegur er þarf hagsmunasamtök sem fylgja honum eftir og styðja og taka tillit til breiddar hans og fjölbreytni. Þannig eiga Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi að starfa.“

Viðburðir