Sætasta stelpan á ballinu

Haukur Þór Hauksson, aðstoðarframkvæmdastjóri SFS, fjallar um gengisþróun
29. nóvember 2016

Haukur Þór Hauksson, aðstoðarframkvæmdastjóri SFS, fjallar um gengisþróun.

Íslenska krónan er einn stærsti áhrifaþáttur í rekstri íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja. Í bankahruninu 2008 veiktist krónan sem aldrei fyrr, Bandaríkjadalur (USD) fór hæst í gengið 148, Sterlingspund (GBP) í 222 og Evra (EUR) í 187. Það má til sanns vegar færa að „hrunin króna“ var af mörgum talin ónothæfur gjaldmiðill nema þá í litlu lokuðu hagkerfi. Krónan varð litli ljóti andarunginn og erlendir aðilar sem brenndu sig illa á viðskiptum við Ísland misstu skyndilega fjárfestingaáhuga á landinu. Innflutningsfyrirtæki börðust í bökkum, byggingageirinn botnfraus, verðbólga hækkaði og fólk missti vinnuna. Við tók 7 ára samfellt tímabil gjaldeyrishafta og veikrar krónu.

En tilveran er síbreytileg. Veik króna hleypti auknu lífi í útflutningsgreinarnar og fjöldi starfa skapaðist í útflutningsgreinum. Ferðaþjónustan óx ævintýralega hratt og sjávarútvegurinn náði vopnum sínum. Smá saman fóru efnahagstölur Íslands að batna og á síðustu misserum hefur myndin orðið allt önnur og betri en áður var.

Helstu ástæður þess að krónan hefur styrkst verulega á árinu, eða um 15%, eru eftirfarandi:

  • Hár vaxtamunur við útlönd laðar að erlent fjármagn
  • Lækkandi skuldir fyrirtækja og heimila auka tiltrú á hagkerfið
  • Batnandi lánshæfismat ríkisins, fyrirtækja og stofnana
  • Vöxtur í ferðaþjónustu og velgengni í sjávarútvegi
  • Uppbygging myndarlegs gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands

Íslenska krónan er aftur orðin sætasta stelpan á ballinu. Margir greiningaraðilar meta stöðuna svo að þrátt fyrir snarpa styrkingu á síðustu mánuðum eigi krónan enn einhverja styrkingu inni. Lífeyrissjóðir hafa til dæmis enn ekki farið af miklum þunga í erlendar fjárfestingar sem bendir til að þeir bíði enn eftir rétta tímanum til að fjárfesta erlendis í auknum mæli. Við fyrrgreindar aðstæður með styrkingu krónunnar og að viðbættum erfiðleikum á mörkuðum í Nígeríu, Tyrklandi og lokun Rússlandsmarkaðar, er óhjákvæmilegt að sjávarútvegsfyrirtæki sjái blikur á lofti í rekstri sínum.  Að óbreyttu mun árið 2017 verða mun þyngra í rekstri útflutningsfyrirtækja en undangengin ár.

Það er mikilvægt að læra af reynslunni og láta ekki snarpa styrkingu krónunnar og batnandi hagtölur villa sér sýn. Innstreymi erlends fjármagns til landsins getur hæglega snúist við á skömmum tíma og þá er mikilvægt að skuldsetning sé ekki úr hófi.

Styrking krónu þýðir að tekjur útgerða jafnt sem sjómanna dragast saman. Þannig deila útgerðarfélög og sjómenn í hlutaskiptakerfi gleði og sorg þegar kemur að sætustu stelpunni á ballinu.

 

Greinin birtist fyrst í Fiskifréttum 24. nóvember 2016.

 

 

 

Viðburðir