Sænsk veitingahús mæla sérstaklega með íslenskum gullkarfa

27. janúar 2015

Á sameiginlegri heimasíðu veitingahúsa í Svíþjóð, Professional Secret, er fólk nú hvatt til að gæða sér á íslenskum gullkarfa. Bent er á að veiðar Íslendinga á gullkarfa séu einu karfaveiðar veraldar sem hafi hlotið vottun Marine Stewardship Council (MSC) en það eru óháð alþjóðleg samtök sem ekki starfa í hagnaðarskyni og vinna að verndun sjávar og sjávarafurða í gegnum vottunarkerfi. Gísli Gíslason, þróunarstjóri MSC hér á landi, segir tíðindin ánægjuleg. „Mér finnst þessi tilkynning jákvæð því þarna er bent á íslenskan uppruna vörunnar og vottunina og síðast en ekki síst hvatt til fiskneyslu.”

Lesi fólk sænsku má fræðast nánar um málið á síðu Professional Secret.

Þá má einnig nefna að veiðar Íslendinga á gullkarfa hafa einnig hlotið vottun  Iceland Responsible Fisheries. 

Kröfur um vottanir sem þessar hafa aukist á undanförnum árum samfara aukinni eftirspurn á alþjóðlegum mörkuðum eftir sjávarafurðum úr vottuðum nytjastofnum. 

Viðburðir