Rannsóknasjóður síldarútvegsins- Úthlutun styrkja 2015

2. júní 2015

Á ráðstefnu SFS föstudaginn 29.maí var úthlutað styrkjum til þeirra verkefna sem Rannsóknasjóður síldarútvegsins hefur valið. 

Rannsóknasjóður síldarútvegsins styrkir eitt doktorsverkefni um 15 milljónir króna yfir þriggja ára tímabil. Styrkurinn heitir Sigurjónsstyrkur eftir prófessor Sigurjóni Arasyni. Styrkurinn er til rannsókna á líffræði síldar, veiðum, vinnslu og markaðssetningu afurða og annarra uppsjávarfiska.

Sigurjónsstyrkur - doktorsverkefni

Doktorsneminn Stefán Þór Eysteinsson hlaut styrkinn en markmið verkefnisins er að meta skaðsemi rauðátu við vinnslu uppsjávarfiska og hvernig best sé að stýra vinnslu og geymslu afurða. Einnig verða áhrif rauðátu á mjöl- og lýsisvinnslu rannsökuð. Þess utan verða eiginleikar átunnar rannsakaðir og hvort nýta megi hana á einhvern hátt.

Stefán Þór Eysteinsson er handhafi Sigurjónsstyrksins 2015


Heiti verkefnis: Áhrif rauðátu (Calanus finmarchicus) á gæði uppsjávarfiska og stýring vinnsluferla.
Verkefnisstjóri og aðalleiðbeinandi: María Guðjónsdóttir, Háskóli Íslands.
Doktorsnemi: Stefán Þór Eysteinsson.
Samstarfsaðilar: Háskóli Íslands, Síldarvinnslan, Skinney - Þinganes og Matís.
Markmið verkefnis: Skaðsemi rauðátu við vinnslu uppsjávarfiska verður metin og hvernig best sé að stýra vinnslu og geymslu afurða. Einnig verða áhrif rauðátu á mjöl- og lýsisvinnslu rannsökuð. Þess utan verða eiginleikar átunnar rannsakaðir og hvort nýta megi hana á einhvern hátt

Fræðslu- og kynningarverkefni 

Rannsóknasjóður síldarútvegsins styrkir námsefnisgerð í grunnskólum og fyrir sjávarútvegstengt nám á framhaldskólastigi. Gerð er krafa um að fræðslu- og kynningarefni styrkt af sjóðnum verði öllum aðgengilegt á netinu án gjalds. Á árinu 2015 styrkir Rannsóknasjóður síldarútvegsins þrjú fræðslu- og kynningarverkefni í sjávarútvegi. Hvert verkefni fær 3 milljónir króna í styrk og er því heildarstyrkupphæð nýrra verkefna samtals 9 milljónir króna. Eftirtalin verkefni eru styrkt að þessu sinni:

Handbók um frystingu og þíðingu sjávarafurða.

Verkefnisstjóri er Páll Gunnar Pálsson hjá Matís en markmið verkefnisins er að taka saman hagnýtar upplýsingar um frystingu og þíðingu sjávarafurða, með svipuðum hætti og gert hefur verið í Saltfiskhandbókinni, Þurrkhandbókinni og Ferskfiskhandbókinni. 

“Sjómannaskólinn” – Gagnvirkt námsefni fyrir framhaldsskóla um sjálfbærar fiskveiðar.

Árni Gunnarsson framleiðandi hjá Skotta kvikmyndafjélag fékk styrk til að nýta kvikmyndaupptökur til sjós til að gera gagnvirkt kennsluefni fyrir nemendur í lífsleikni og líffræði í framhaldsskólum. Gerð verða tvö 30 mínútna fræðslumyndbönd um veiðar á Íslandsmiðum og fiskvinnslu, ásamt ítarefni og spurningatextum, sem nýtast við umræður í kennslustundum eftir sýningu efnisins. Verkefnið er unnið í samstarfi við Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra og Fisk Seafood.

Myndbönd um störf í uppsjávariðnaði – Verðmætasköpun með hátæknibúnaði.

Hörður Sævaldsson hjá Háskólanum á Akureyri mun gera 8-10 áhugaverð myndbönd um störf í uppsjávariðnaði á Íslandi. Kynnt verða flest störf í ferlinu frá veiðum og vinnslu, auk starfa sem tengjast rekstri, stjórnun og markaðssetningu. Markmiðið með verkefninu er að draga fram hversu spennandi vettvangur iðnaðurinn er og vekja þannig áhuga á þeim fjölbreyttu störfum sem unnin eru í sjávarútvegi. Verkefnið er unnið í samstarfi N4.

Nánar má lesa um Rannsóknasjóð síldarútvegsins undir Menntun og samfélag hér á heimasíðu SFS eða með því að smella hér

Þar má einnig nálgast úthlutanir fyrri ára, leiðbeiningar um umsókn styrks og fræðsluefni.

Viðburðir