Rammi semur um smíði á stórum frystitogara

6. mars 2015

Rammi hf. í Fjallabyggð hefur samið um smíði á nýjum frystitogara hjá Tersan skipasmíðastöðinni í Tyrklandi fyrir jafnvirði 5,5 milljarða króna. Gert er ráð fyrir að hann verði afhentur í desember 2016.

Skipið verður með vinnslubúnað eins og best gerist. Allur afli nýtist og verðmætasköpun verður að sama skapi mun meiri en ella.

Sjálfvirkni á vinnsluþilfari verður meiri en nú þekkist á flakafrystitogurum. Rými verður fyrir allt að 1.200 tonn af afurðum á brettum í 1.900 rúmmetra frystilest.

Í skipinu verða líka mjöl- og umbúðarlestir og í því verður ný gerð fiskimjölsverksmiðju frá Héðni.

Nýi togarinn leysir af hólmi frystitogarana Mánaberg og Sigurbjörgu, sem báðir eru komnir til ára sinna. Mánaberg er 43 ára en Sigurbjörg 36 ára. Nýi togarinn verður sparneytinn mjög, sem sést best á því að þrátt fyrir stærð hans sjálfs og aðalvélarinnar mun hann brenna álíka mikilli olíu og annar togarinn sem hann leysir af hólmi!

o   Hönnuður skips: Skipsteknisk AS í Noregi.

o   Lengd: 80 metrar, breidd: 15,4 metrar.

o   Aðalvél: Wartsila, 4.640 Kw.

o   Frystigeta: 90 tonn af afurðum á sólarhring.

o   Aðbúnaður skipverja og aðstæður til vinnu verða eins og best er á kosið.

o   Kojur fyrir 38 manns.

Spurning hlýtur að vakna þegar við blasir að Rammi hf. „sigli á móti straumnum“ í íslenskum sjávarútvegi þar sem þróunin hefur verið sú að frystitogurum fækkar og vinnsla færist í land.

Ólafur Marteinsson framkvæmdastjóri svarar:

„Við höfum komist að þeirri niðurstöðu að arðsemi nýja skipsins jafnast fyllilega á við landvinnslu og ísfiskútgerð, miðað við samsetningu aflaheimilda okkar. Markaðurinn er traustur og vörumerkið RAMMI þekkt fyrir gæði og áreiðanleika; reyndar trúlega þekktasta vörumerkið í “fish and chips“-geiranum í Bretlandi. Við teljum það vera bæði mikilvægt og verðmætt að halda þeirri góðu stöðu.

Við búum svo vel að á skipum okkar eru frábærar áhafnir. Ef sú ákvörðun hefði orðið ofan á að fara að gera út á ísfisk og vinna fisk í landi hefðum við þurft að fækka sjómönnum og líklega flytja inn vinnuafl til fiskvinnslu. Heildarlaunagreiðslur í Fjallabyggð hefðu lækkað með tilheyrandi neikvæðum áhrifum. Þetta er svarið!“

 

Rammi hf. gerir út Mánaberg ÓF-42, Sigurbjörgu ÓF-1, Fróða ÁR-38, Múlaberg Sl-22 og Jón á Hofi ÁR-42.

 

Fyrirtækið starfrækir fiskiðjuver í Þorlákshöfn og rækjuvinnslu á Siglufirði.

 

Starfsmenn á sjó og landi eru alls 230 talsins.

 

 

Viðburðir