Ótímabundið verkfall sjómanna hefst kl. 20:00

14. desember 2016

Kjarasamningar, sem undirritaðir voru í nóvember, á milli Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og Sjómannasambands Íslands (SSÍ), Verkalýðsfélags Vestfjarða (VV), Sjómannafélags Íslands (SÍ) og Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur (SVG) voru í dag felldir í atkvæðagreiðslu. Niðurstaða atkvæðagreiðslu vegna kjarasamninga á milli SFS og Félags vélstjóra og málmtæknimanna (VM) mun liggja fyrir næstkomandi föstudag, hinn 16. desember.

Kjarasamningar SFS við stéttarfélögin voru undirritaðir hver um sig dagana 11. til 15. nóvember sl. og verkfalli stéttarfélaga sjómanna var frestað í kjölfarið. Rafrænni atkvæðagreiðsla um þessa kjarasamninga lauk kl. 12:00 í dag, hinn 14. desember. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar er sú sem áður er greint frá. Sökum þessa hefst ótímabundið verkfall stéttarfélaganna á ný í kvöld kl. 20:00.

Samkvæmt Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra SFS veldur niðurstaðan vonbrigðum:

„Mikil vinna var lögð í samningana og miðað við gerðar kröfur sjómanna telur SFS að komið hafi verið verulega til móts við þær. Er því óljóst á hvaða forsendum sjómenn kjósa að fella gerða samninga. Ósætti, sem ekki er hönd á festandi, er erfitt að lækna. Við tekur hins vegar ótímabundið verkfall, með ófyrirséðu fjárhagslegu tjóni fyrir útgerðir, sjómenn og samfélagið allt. Það hljóta að vera vonbrigði fyrir alla hlutaðeigandi.“

 

Frekari upplýsingar veitir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, í síma 6933531

Viðburðir