Öryggi sjómanna

15. október 2015

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi leggja áherslu á að öryggi sjómanna sé tryggt eins vel og nokkur kostur er. Til að svo megi vera hafa fyrirtæki í sjávarútvegi unnið að því með sjómönnum að auka öryggisbúnað um borð í skipum, stuðlað að menntun og fræðslu sem og að þróa vinnureglur og ferla. Sjómenn mega ekki búa við falskt öryggi. Sú virðist hafa verið raunin 7. júlí þegar fiskibáturinn Jón Hákon frá Bíldudal sökk út af Aðalvík. Björgunarbúnaður skipsins virkaði ekki og það þarf að komast að því hvers vegna. Við hvetjum til þess að kapp verði lagt á að ná upp flakinu af Jóni Hákoni svo hægt verði að rannsaka hvers vegna svona fór. Tilgangurinn er ekki að leita að sökudólgi heldur að reyna að koma í veg fyrir að hryllileg slys sem þessi endurtaki sig. 

Íslendingar hafa lyft grettistaki í að auka öryggi á sjó á undanförnum árum. Við hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi vitum samt að vinnuvernd og öryggismál eru verkefni sem sífellt þarf að huga að. Þetta er verkefni sem aldrei tekur enda og alltaf þarf að reyna að komast til botns í því hvað gerist þegar slys verða.

Jens Garðar Helgason , formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi
Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi

Viðburðir