„Orkuiðnaðurinn á þeim stað sem sjávarútvegurinn var á“

26. júní 2015

Í ritinu Frumkvöðlar sem Viðskiptablaðið gefur út er sjónum beint að sprota- eða frumkvöðlafyrirtækjum. Viðskiptablaðið valdi Guðmund Fertram Sigurjónsson, forstjóra lækningavörufyrirtækisins Kerecis, sem frumkvöðul ársins en fyrirtækið Tulipop var valið sem sproti ársins. Ánægjulegt er að segja frá því Kerecis framleiðir vörur sínar úr þorskroði og hefur aðsetur á Ísafirði. Á und­an­förnu ári hef­ur Kerec­is náð mik­il­væg­um mark­miðum, þar á meðal fengið FDA-leyfi í Bandaríkjunumog aðgang að end­ur­greiðslu­kerfi banda­rískra trygg­inga­fé­laga. Fyrirtækið samdi einnig nýlega við bandaríska herinn um meðhöndlun við bráðaáverkum. Roð sem fellur til við roðflettingu á þroski er því í dag notað til að græða sár, byggja upp skaðaðan líkamsvef, svo sem eftir brjóstnám eða slys. Sjávarútvegsfyrirtækin Hraðfrystihúsið-Gunnvör og Klofningur  hafa komið að fjármögnun og uppbyggingu á starfssemi Kerecis á Ísafirði.

Samtök fyrirækja í sjávarútvegi óska Viðskiptablaðinu, Kerecis og Tulipop hjartanlega til hamingju með vel heppnað framtak og góðs gengis í framtíðinni. Til gamans fáum við líka að grípa inn í skemmtilegt viðtal við Hörð Arnarson, forstjóra Landsvirkjunar, um sjávarútveg og framþróun hans og þekkingarfyrirtækin sem hafa sprottið í skjóli hans:

„Okkur finnst sem orkuiðnaðurinn að mörgu leyti vera á þeim stað sem sjávarútvegurinn var í kringum 1990,“ segir Hörður. Sjávarútvegurinn var að vissu leyti mjög frumstæður á þeim tíma, en upp úr því fóru menn að þróa framleiðsluna. Það gerðist meðal annars með kvótakerfinu, en þá varð til markaðstenging, sem leiddi af sér að menn fóru að þróa miklu fjölbreyttari vörur og nýta auðlindina, fiskinn, mun betur en áður hafði verið gert. Alla tíð síðan höfum við aukið verðmætasköpun í sjávarútvegi, þótt veitt magn hafi minnkað,“ segir Hörður.

Hörður segist telja að orkuiðnaðurinn standi á svipuðum stað núna og sé að taka miklum breytingum. „Þegar þessar breytingar áttu sér stað í kringum 1990 urðu til alls konar þekkingarfyrirtæki í kjölfarið, líkt og Marel. En ef við horfum til dæmis til Noregs sjáum við að sambærileg fyrirtæki og Marel hafa orðið til í orkuiðnaðinum. Þar eru stór þekkingarfyrirtæki að vinna allskyns þjónustu og vörur í kringum orkuiðnaðinn. Ef við fáum sömu þróun í orkugeirann,  með öll þessi tækifæri til verðmætasköpunar, geta orðið til mjög áhugaverð fyrirtæki í kringum orkugeirann til viðbótar við verkfræðistofurnar.“


Kerecis stofnað af Guðmundi Fertram Sigurjónssyni [lengst til vinstri] framkvæmdastjóra ásamt Baldri Tuma Baldurssyni húðlækni og Hilmari Kjartanssyni lækni. Ernest Kenney einkaleyfalögfræðing vantar á myndina

Viðburðir