Öll skip ættu að skarta skeggi

3. mars 2015

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hvetja sjávarútvegsfyrirtæki til að skreyta skip sín og starfsstöðvar með yfirvaraskeggi í tilefni mottumars, árveknisátaks Krabbameinsfélagsins.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra og Jens Garðar Helgason, afhjúpuðu forláta yfirvaraskegg á ísfiskstogaranum Helgu Maríu frá HB Granda á blaðamannafundi sem haldinn var í brú skipsins þegar mottumars var formlega ýtt úr vör.

Rannsóknir sýna að karlmennskan getur verið dýrkeypt því karlar leita yfirleitt seinna til læknis en konur. Því fyrr sem sjúkdómurinn greinist – því meiri líkur á lækningu. Í mottumars er hins vegar reynt að nota karlmannlegt yfirvaraskeggið til að minna karlmenn á að gefa heilsu sinni gaum.

Við hvetjum því sjávarútvegsfyrirtæki og aðra sem vilja sýna málefninu stuðning með því að safna yfirvaraskeggi, setja mottu á skip sín og starfsstöðvar. Hægt er að nota meðfylgjandi mót til skreytinganna en ekki er verra að leyfa hæfileikamönnum í fyrirtækjunum að láta ljós sitt skína og leyfa hugarfluginu að ráða útliti mottunnar. Vitanlega er algjör skylda að birta myndir af skreytingunum á samfélagsmiðlum merktum #mottumars

Síðast en ekki síst hvetjum við fólk til að skrá sig á mottumars.is. 

Mót fyrir mottu

Viðburðir