Óhefðbundinn björgunarleiðangur í varðskipinu Þór

Mottumars
2. mars 2016

Árvekniátak Krabbameinsfélagsins um karlmenn og krabbamein, svokallaður Mottumars er hafinn. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi eru aðalstyrktaraðili átaksins sem snýst um að vekja karlmenn til vitundar um krabbamein og hvað sé hægt að gera til að varast það. Landhelgisgæslan rétti einnig fram hjálparhönd í þessu mikilvæga máli og bauð til samsætis í varðskipinu Þór að þessu tilefni. 

Siglt var með fréttamenn í varðskipið með léttabát en Kristján Oddsson, forstjóri Krabbameinsfélagsins, Jens Garðar Helgason, formaður SFS,  og Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, ferðuðust hins vegar með þyrlu gæslunnar að þessu tilefni.  Þegar komið var um borð afhentu þeir Sigurður Steinari Ketilssyni, skipherra Þórs, svokallað björgunarbox sem innhélt upplýsingar um krabbamein. Slíkum boxum verður dreift um borð í öll skip félagsmanna SFS auk þess sem fulltrúargóðgerðarsamtaka á borð við Kiwanis og Rotary, sem einnig voru við afhöfnina um borð í Þór, ætla vinna að því að miðla áfram upplýsingum um málið.

Málið er Landhelgisgæslunni skylt því á skömmum tíma hafa þrír starfsmenn þar látist fyrir aldur fram eftir að hafa glímt við krabbamein. Við athöfnina minnti Jens Garðar menn á að vera ekki aðeins vakandi fyrir ytri hættum í umhverfinu, svo sem þegar kemur að sjólagi og gangi vélarinnar í skipinu, heldur einnig fyrir eigin heilsu og leita til læknis ef eitthvað bjátar á.

Kjörorð átaksins í ár er: „Ekki farast úr karlmennsku. Lærðu að þekkja einkennin. Það er ekkert mál.“ Og er því ætlað að hvetja menn til að harka ekki af sér heldur gæta að heilsunni eins og kostur er. 

Samtök fyrirækja í sjávarútvegi hvetja sitt fólk sem og aðra til að kynna sér boðskap Krabbameinsfélagsins en það má meðal annars gera með því að smella HÉR.

Þá er hægt að skoða myndir frá athöfninni á Facebook-síðu SFS, sem ljósmyndarinn Anton Brink tók. 

Einnig vill SFS og Krabbameinsfélag Íslands hvetja fólk til að taka þátt í átakinu með því að smella myndum sem minna á átakið og merkja með myllumerkinu/hashtaginu #karlmennskan #mottumars

Karlmennska


Jens Garðar Helgason, formaður SFS, Kristján Oddsson, formaður Krabbameinsfélags Íslands, Sigurður Steinar, skipherra á varðskipinu Þór og Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, ræða um björgunarboxið og forvarnir.
Mynd/Anton Brink

Viðburðir