Nú er nóg komið

Norðmenn taka sér einhliða aukinn síldarafla
2. desember 2016

Í gær ákvað sjávarútvegsráðherra Noregs, Per Sandberg, einhliða að auka afla Norðmanna í norsk-íslenskri síld á komandi ári umfram þann hlut sem þeir áttu tilkall til samkvæmt fyrri samningi.

Í síldarsamningi frá árinu 2007 var hlutur Noregs 61%. Með einhliða ákvörðun sinni hafa Norðmenn ákveðið að taka sér sem samsvarar 67% hlut af ráðlögðum heildarafla á næsta ári, sem er aukning  um 10% eða um 40.000 tonn. Þannig verður heildarkvóti þeirra 432.870 tonn á næsta ári.

Árið 2013 sögðu Færeyingar sig frá síldarsamningi og hafa upp frá því krafist þess að hlutur þeirra hækki mikið. Varð þetta meðal annars til þess að ESB ákvað að grípa til viðskiptaþvingana gagnvart Færeyingum á sínum tíma, sem síðar var fallið frá. Í ár ákváðu Færeyingar að taka sér sem nemur 17,7% af ráðlögðum heildarafla, en voru með 5,16% hlut samkvæmt samningi frá 2007.

Frá því að Færeyingar sögðu sig frá samningi hefur verið samstaða meðal annarra standríkja (Noregs, Íslands, Rússlands og ESB) að tryggja sem best ábyrga stjórnun veiða úr þessum mikilvæga stofni sem hefur verið í lægð undanfarin ár.

Það eru því mikil vonbrigði að Norðmenn, sem eru stærsti hluthafinn í stofninum, ákveði nú að rjúfa samstöðu um ábyrgar veiðar sem hefur verið við lýði meðal strandríkjanna eftir að Færeyingar sögðu sig frá samningi og settu fram óraunhæfar kröfur um margfaldan hlut.

Ábyrgð Norðmanna er mikil. Til þeirra er gerð sú krafa að þeir virði sjónarmið verndar og sjálfbærrar nýtingar sem rituð eru í reglur þjóðaréttar meðal annars fyrir tilstuðlan Norðmanna. Það gera þeir ekki með einhliða ákvörðun um aukinn afla nú þegar síldarstofninn er talinn standa veikt. 

Þá er augljóst að þessi ákvörðun Norðmanna er síst til þess fallin að auka líkur á því að samkomulag náist um stjórn síldveiðanna og skiptingu veiðiréttar til framtíðar. Þá er einnig hætt við að þessar aðgerðir Norðmanna í síldinni trufli viðleitni strandríkjanna til að ná samkomulagi um veiðar á kolmunna og makríl.

 

 

Viðburðir