Hugmyndir í Noregi um að taka upp fiskveiðistjórn að íslenskri fyrirmynd

25. febrúar 2015

Hugmyndir eru upp í Noregi um að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu í átt að því sem tíðkast á Íslandi. Norska ríkisútvarpið í Finnmörku fjallaði um málið í gær í Oddasat, fréttatíma á samísku, með norskum texta. 

Norsku sjónvarpsmennirnir ræddu við nokkra Íslendinga um skipulag fiskveiða hér á landi og var í fyrsta hlutanum, sem birtist í gær, var meðal annars rætt við Birgi Haukdal smábátasjómann, sem taldi að það væri galið af  Norðmönnum að taka upp kvótakerfi sem svipaði til þess íslenska. Hann sagði kerfið hafa brotið niður smábátafiskimenn og lítil samfélög á Íslandi. Jóhann Guðmundsson, skrifstofustjóri í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, sagði að kvótakerfið hefði styrkt efnahagslífið á Íslandi en haft neikvæðar afleiðingar fyrir minni sjávarbyggðir.

Ragnar Tveterås, prófessor við háskólann í Stafangri segir í fréttinni að Norðmenn eigi ekki aðra kosti en taka upp kvótakerfi, sérstaklega ef það ætli sér að verða stærsti fiskvinnsluframleiðandi í heimi.

Í skýrslu sem kom út í fyrra og var unnin af Háskólanum í Tromsö og Nofima, að beiðni Sjávarútvegsráðuneytis í Noregi, kom fram að óbreytt ástand í sjávarútvegi viðheldur ekki hefðbundnum sjávarútvegi heldur eykur á hnignun greinarinnar sem aftur getur ekki nýtt sér kosti markaðsdrifins fyrirkomulags. Í skýrslunni voru settar fram hugmyndir til þess að framlegð sjávarútvegs yrði viðunandi. Sagt var að norski sjávarútvegurinn þyrfti að færast frá „landbúnaðarmódeli“ í átt að „olíumódeli.“ Helsta lausnin sem lögð er fram er að norski sjávarútvegurinn verði markaðsdrifinn, líkt og sá íslenski.

Í stórri úttekt á nýsköpun og samkeppnishæfni norsk sjávarútvegs í fyrra var leitað lausna á því sem í skýrslum OECD hefur verið kallað „The Norwegian puzzle“, ráðgátan um það hvers vegna Norðmenn séu aðeins leiðandi í nýsköpun í olíu og gasiðnaði. Auk þess kemur fram að afar lítil arðsemi er í greinum sjávarútvegs og fá fyrirtæki innan hverrar greinar skila ásættanlegum hagnaði. Hér á Íslandi hefur sjávarútvegur hins vegar verið ein helsta vagga nýsköpunar undanfarin ár og skapað fjölda nýrra og vel launaðra starfa. 

Í desember síðastliðnum lagði sjávarútvegsráðuneytið fram tillögur að breytingum á norska fiskveiðikerfinu til þess að gera norska sjávarútveginn arðbærari. Tillögunum er ætlað að hækka laun þeirra sem starfa við veiðar og vinnslu.

Fyrsti kafli var sendur út á Oddasat í gærkvöldi, Það eru fréttir á samísku sem sendar eru út í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi.

Þá má benda á svokallaða Tveterås-skýrslu sem gerð var fyrir sjávarútvegsráðuneytið í Noregi. 

Sjá einnig frétt RÚV um málið. 

 

 

 


Á meðfylgjandi mynd má sjá Kolbein Árnason, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, ásamt norsku sjónvarpsmönnunum þegar þeir voru hér á landi. Viðtalið við hann hefur enn ekki verið birt.

Viðburðir