Miklu til kostað án sjáanlegs ávinnings

Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri SFS
22. desember 2015

Evrópusambandið hefur ákveðið að framlengja viðskiptaþvinganir sínar gegn Rússlandi í 6 mánuði en vonir voru bundnar við að þær myndu falla niður í lok janúar 2016. Í ljósi þessa er eðlilegt að Íslendingar fari yfir stöðuna, vegi og meti hagsmuni og taki ákvarðanir í framhaldi af því hagsmunamati.

Á meðfylgjandi mynd sést vel hversu mikil áhrif umræddar viðskiptaþvinganir hafa á íslenskan efnahag í samanburði við þau áhrif sem þær hafa á efnahag annarra ríkja sem eru hluti af þvingununum. Rússland hefur verið vaxandi markaður fyrir íslenskar sjávarafurðir og útflutningur þangað leikið stórt hlutverk í gjaldeyrisöflun þjóðarinnar. Óumdeilt er að sala á uppsjávarafurðum hefur skipt sköpum í efnahagsbata þjóðarinnar eftir hrun. Myndin dregur einnig fram að Íslendingar eiga mun meira undir en flestar aðrar þjóðir þegar kemur að útflutningi til Rússlands.

Í grundvallaratriðum snúast viðskiptaþvinganir „bandalagsþjóða“ (ESB, USA, Kanada o.fl.) gagnvart Rússlandi um bann á vopnaviðskiptum og takmörkunum á fjármögnun ákveðinna fjármálastofnana í Rússlandi. Þar sem Íslendingar hafa ekki staðið í vopnasölu og eru enn í fjármagnshöftum skiptir stuðningur okkar við umræddar takmarkanir ekki nokkru máli.

Enginn þessara þátta tekur til íslenskra viðskipta. Afleiðingar stuðningsyfirlýsingar Íslands eru hins vegar þær að Rússar hafa svarað fyrir sig með banni á innflutning matvæla. Hvaða afleiðingar hefur það fyrir Ísland? Undanfarinn áratug hefur sjávarútvegur verið að meðaltali 10% af vergri landsframleiðslu. Athyglivert er að skoða aðrar greinar sem teljast mikilvægar fyrir þjóðir, eins og bílaiðnaðurinn er fyrir Þýskaland. Árið 2013 var hann 5% af vergri landsframleiðslu Þjóðverja. Það verður að teljast afar líklegt að þýsk stjórnvöld myndu staldra við, vega og meta hagsmuni þýsks efnagshags, áður en þau kvittuðu á samkomulag sem hefur engar afleiðingar fyrir Rússa en skaðaði þýskan iðnað stórkostlega og stefndi fjölda starfa í hættu. Afleiðingar bannsins hafa mikil áhrif á íslenskt samfélag. Launatekjur dragast saman þar sem mun meira magn uppsjávartegunda fer í bræðslu í stað manneldis, störfum fækkar við það og launatekjur dragast saman, við það dragast útsvarstekjur til sveitarfélaga saman.

Afleiðingarnar verða svo enn meiri því lengur sem bannið varir því viðskiptasambönd sem hefur tekið áratugi að byggja upp tapast og aðrir matvælaframleiðendur koma inn okkar í stað. Það er kaldhæðnislegt til þess að hugsa að nú þegar eru Rússar að kaupa iðnaðarvörur til að koma til móts við aukna matvælaframleiðslu í Rússlandi vegna þessara breytinga á mörkuðum. Vörurnar kaupa þeir meðal annars frá bandalagsþjóðum á listanum.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa bent á að Ísland getur komið skoðun sinni á deilunni á Krímskaga á framfæri með öðrum hætti en að taka gagnrýnislaust þátt í viðskiptaþvingunum sem hafa engin áhrif á Rússa en miklar afleiðingar fyrir íslenskan efnahag. Þannig má nefna að nágrannar okkar Færeyingar taka ekki þátt í viðskiptaþvingunum gegn Rússum og selja þangað sjávarafurðir sínar á góðum verðum. Utanríkisráðherra fullyrti í Morgunblaðinu í gær að engar breytingar yrðu gerðar á stuðningi Íslands við viðskiptaþvinganir ESB gegn Rússlandi.

Í ljósi þeirrar yfirlýsingar er eðlilegt að maður spyrji hvort sú ákvörðun liggi fyrir, hvenær sú ákvörðun var tekin og hvaða hagsmunir voru hafðir til grundvallar þeirri ákvörðun? Þá má spyrja hvert mat utanríkisráðuneytisins er á því hve lengi þessar viðskiptaþvinganir muni verða í gildi og hvort utanríkisráðherra telji þær líklegar til lausnar deilunnar um Krímskaga?

Í ljósi áðurnefndra hagsmuna Íslands, og þeirrar staðreyndar að við getum komið okkar skoðunum á framfæri án þess að skaða íslenskt efnahagslíf, er mikilvægt að ákvörðun um framhald stuðnings við viðskiptaþvinganir gagnvart Rússlandi sé vel ígrunduð.

Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Greininn birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. desember 2015. 

Viðburðir