Mikilvægt að hefja viðræður sem fyrst

24. júní 2016

Bretland mun ganga úr Evrópusambandinu miðað við niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu þar í landi í gær, svokallaðs Brexit. Þegar hafa orðið sterk viðbrögð á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og gengi pundsins fallið.

Stór markaður

Bretland er eitt helsta viðskiptalands Íslands og mikilvægasti markaðurinn fyrir íslenskar sjávarafuðir. Markaðurinn nam tæplega 50 m.a.kr. á síðasta ári. Þá eru Bretar stærsta viðskiptaþjóðin þegar kemur að ferðaþjónustu hér á landi. Áhrif í efnahagsmálum landsins gætu því orðið töluverð vegna áhrifa þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Í minnisblaði Seðlabanka Íslands sem birt var í morgun en afhent ríkisstjórn Íslands á miðvikudag er farið yfir möguleg áhrif á íslenskan efnahag. Bent er á að á síðasta ári voru fluttar vörur til Bretlands fyrir tæplega 73 ma.kr. eða sem nam tæplega 12% af vöruútflutningi ársins. Stærstur hluti þessa útflutnings eru sjávarafurðir en í fyrra voru fluttar um 48,5 ma.kr. eða sem nemur 18% af öllum sjávarvöruútflutningi ársins 2015.

Minnkandi hagvöxtur og veikara pund

Spár Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu,  OECD, gera ráð fyrir minnkandi hagvexti í Bretlandi vegna útgöngu Bretlands. Miðað við mat Seðlabanka Íslands telur Hallveig Ólafsdóttir, hagfræðingur Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, að það megi reikna með tæplega tveggja milljarða króna samdrætti á ársgrundvelli á Íslandi vegna lakari hagvaxtar í viðskiptalöndum okkar. Þar sem hér er um langvarandi aðgerð að ræða þá er núvirt tap því líklegast mikið hærra. Eins ef horft er til veikara punds sem hefur bein áhrif á kaupmáttinn í Bretlandi.

Tollamál

Hluti þeirrar óvissu sem ríkir um möguleg efnahagsleg áhrif útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu stafar af því að ekki er vitað hvert fyrirkomulag tollamála við ESB verður eftir formlega útgöngu Breta og líklegt að einhverjir mánuðir eða jafnvel ár líði uns niðurstaða liggur fyrir um það. Við útgöngu ættu ytri tollamúrar ESB gagnvart Bretlandi að taka gildi nema samið verði um annað.

Ákvörðun Evrópusambandsins um viðbrögð gagnvart Bretlandi ráða framhaldinu. Óvissan sem að fylgir aðgerðunum snýr fyrst og fremst að tollamálum. Langan tíma getur tekið fyrir ESB og Bretland að semja upp á nýtt og því er mikilvægt að íslensk stjórnvöld bregðist fljótt við svo að hægt verði að ná hagstæðum samningum er snúa að tollamálum. Á sama tíma ber að nefna að nýlega hafa viðskiptasambönd við Nígeríu og Rússland rofnað að mestu vegna gjaldeyrisskorts í fyrrnefnda landinu og stjórnmálalegs ástands í því síðara. 

Verð á öðrum vörum sem fluttar eru út til Bretlands yrðu líklega einnig lægri. Á móti vægi hins vegar að minni hagvöxtur í viðskiptalöndunum hefði í för með sér að verð á vörum sem Íslendingar flytja inn lækka.


Möguleikar eru á að Bretar fari inn í EES eða EFTA en þá yrðu líklega sambærileg kjör og á milli Íslands og annarra EFTA ríkja. Komi til þess að Bretar semji við hverja þjóð fyrir sig gæti Ísland þurft að semja um hvern tollaflokk. Í því samhengi hefur verið nefnt að Bretar gætu reynt að semja einnig um aðgang að hafsvæðum til veiða.

Mikilvægt fyrir stjórnvöld að hefja viðræður strax

Haukur Þór Hauksson, aðstoðarframkvæmdastjóri hjá SFS, bendir á að lágmarkstími til að semja um fríverslun er alla jafna um þrjú ár.

„Það gefur því auga leið að Ísland þarf að hefja viðræður strax sem að sama skapi gæti reynst erfitt í ljósi þess að Bretar þurfa núna að verja miklum tíma og orku í samningaviðræður við ESB og að margar stærri þjóðir hafa líklega áhuga á samningum við Breta,“ segir Haukur.

  • OECD gerir ráð fyrir að formleg útganga úr ESB eigi sér stað seint á árinu 2018 og að samningaviðræður Breta um tollamál við ESB hefjist í kjölfarið og standi yfir á tímabilinu 2019-23. 

Viðburðir