Mikil tækifæri í heilsudrykkjum

5. október 2015

Codland og Mjólkursamsalan hafa ákveðið að hefja samstarf um þróun á tilbúnum drykkjum þar sem hráefni frá báðum aðilum myndu njóta sín. Tómas Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Codland segir þetta einstakt tækifæri til að búa til náttúrulega og hágæða vöru sem tengir saman landbúnað og sjávarútveg. Codland hefur unnið að þróun hágæða kollagens vöru úr íslensku þorskroði í samstarfið við Matís og með styrk Tækniþróunarsjóðs. Efnið kollagen er eitt mikilvægasta prótein líkamans sem heldur húðinni stinnri og styrkir liðamót. Tómas segir því að tækifæri liggi í því að þróa mismunandi vörur sem henta mismunandi þörfum fólks. „Erlendar rannsóknir sýna að það er gríðarlegu vöxtur í tilbúnum drykkjum sem þessum. Við gætum því sett saman drykki sem eiga að hafa styrkjandi áhrif á liði og aðra sem eiga að hafa góð áhrif á húðina í framtíðinni,“ segir Tómas. Hann segir enn nokkuð í að hægt verði að nálgast vörur frá Codland og MS í verslunum. Nú sé unnið að rannsóknum og greiningum á því hvort hægt verði að byggja verksmiðju sem myndi vinna kollagen úr roði hér á landi. „Við viljum fara varlega og greina tækifærin vel áður en haldið er af stað af fullum krafti,“ segir Tómas. Hann segir að menn horfi nokkuð til Reykjanessins þegar kemur að uppbyggingu verksmiðjunnar. Þar sem hreina og góða orku að fá auk þess sem staðurinn hafi aflað sér orðspors tengdu hreinleika og heilsu og henti því markmiðum Codland vel.

Vinnslan á roðinu færir Codland nær markmiðum sínum um að auka verðmæti þorsksins með betri nýtingu hliðarafurða. Mjólkursamsalan er leiðandi fyrirtæki í matvælaiðnaði á Íslandi. Hlutverk hennar er að taka við mjólk frá eigendum sínum og umbreyta í hollar og góðar mjólkurafurðir í takt við þarfir íslenskra neytenda. Grundvöllur fyrir samstarfi á milli þessara tveggja fyrirtækja, þar sem nýsköpunarfyrirtæki fer í samstarf með leiðandi fyrirtæki varð til í Sjávarklasanum á Grandagarði. Einnig er unnið að stofnun Matarklasa sem nýttur verður til að fjölga enn frekur nýsköpun á þessu sviði.


Tómas Eiríksson framkvæmdastjóri Codlands og Björn Sigurður Gunnarsson Vöruþróunarstjóri Mjólkursamsölunnar undirrita samninginn. 

Viðburðir