Mikið traust á Hafró

Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafró ræðir traust
24. september 2015

Hafrannsóknarstofnun nýtur traust 80% þjóðarinnar. Þetta kom fram í nýlegri Gallup könnun. Hafrannsóknarstofnun er því í 5. sæti af helstu stofnunum landsins. Jóhann Sigurjónsson, forstjóri stofnunarinnar segist finna fyrir miklum stuðningi. „Ekki aðeins meðal almennings heldur ekki síður meðal sjómanna og útvegsmanna. Og við finnum fyrir að þessum aðilum þykir eins og okkur að ekki megi slaka á í rannsóknarstarfinu - of mikið er í húfi - og því nauðsynlegt að tryggja rannsóknum og vöktun fiskistofna betri stuðning,“ segir Jóhann.

Hófleg nýting tryggir best sterka fiskistofna

Jóhann segir að án efa helgist þetta traust af því að okkur hefur tekist að útskýra vísindin og vinnuna að baki ráðgjöf okkar til stjórnvalda og að almenningur hafi öðlast góðan skilning á því að best er að byggja nýtingu á vísindalegri þekkingu og hóflegri nýtingu.

„Fólk áttar sig vel á að hófleg nýting tryggir best sterka fiskistofna og staða þorskstofnsins afar skýr sönnun þess.“ Hann segir það afar hvetjandi og ánægjulegt fyrir starfsfólk Hafrannsóknarstofnunar að fá niðurstöður sem þessar.

Á réttri leið

„Mikilvægast er að halda úti vönduðu vísindastarfi, öflugri vöktun fiskistofnanna, nánu samstarfi við atvinnugreinina og stjórnvöld. Og vitanlega áframhaldandi samtali við almenning um mikilvægi vísindalegrar undirstöðu. Þessu starfi lýkur aldrei og er mikilvægt að hafa það í huga,“ segir hann um það hvernig best sé að halda því trausti sem áunnist hefur meðal almennings undanfarin ár.   

Jóhann bætir svo við að þetta sé enn eitt dæmi um að fiskveiðistjórn Íslendinga sé á réttri leið. „Þetta segir okkur að halda áfram á sömu braut og að við séum á réttri leið. Það er líka ánægjulegt og maður er þakklátur að finna hve í meginatriðum er víðtæk sátt um rannsóknirnar í atvinnugreininni, þó ávallt megi betur gera.“

 

Á réttri leið


„Þetta segir okkur að halda áfram á sömu braut og að við séum á réttri leið. Það er líka ánægjulegt og maður er þakklátur að finna hve í meginatriðum er víðtæk sátt um rannsóknirnar í atvinnugreininni, þó ávallt megi betur gera,“ segir Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafró. 

Ljósmyndari: Sverrir Vilhelmsson

Aðferðarfræði

Netkönnun var gerð fyrri hluta júlímánaðar og náði til 1450 manna tilviljunarúrtaks af öllu landinu. Svarhlutfall var 56,1%. Hafrannsóknastofnun hefur áður látið gera svipaðar kannanir, síðast árið 2012.
Helstu niðurstöður voru þær að 80% þeirra sem afstöðu tóku voru jákvæðir gagnvart Hafrannsóknastofnun. Af þeim sem afstöðu tóku töldu 84% fiskveiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar áreiðanlega og 56,6% fannst stofnuninni takast vel að miðla upplýsingum til almennings.
75,5% þeirra sem afstöðu tóku, bera mikið traust til Hafrannsóknastofnunar og þess á geta að Hafrannsóknastofnunin lenti í 5. sæti í samanburði við helstu stofnanir landsins, hvað varðar traust.  

Viðburðir