Metþátttaka í samfélagsverkefni í Nígeríu

Katrín framkvæmdastjóri Sölku-Fiskmiðlunar á Dalvík
1. júní 2016

Reglur Seðlabanka Nígeríu sem takmarka gjaldeyrisyfirfærslur vegna innflutnings til landsins hafa haft áhrif á útflutning þurrkaðra sjávarafurða hér á landi. Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra hyggst halda til Nígeríu síðar í sumar til þess að finna lausn á málinu. Prýðilega fréttaskýringu um málið má lesa hér hér. 

Katrín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Sölku-fiskmiðlunar á Dalvík, hefur átt mikil samskipti við Nígeríumenn á liðnum árum. Bendir hún á að Nígería hefur gegnt lykilhlutverki í útflutningi Íslands og verið eitt af stærstu útflutningslöndum íslenskra sjávarafurða um áratugaskeið.

Valgerður Gunnarsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, málið að umtalsefni í gær og benti á að um 450-500 manns starfa við þennan útflutning hér á landi hjá um 20 fyrirtækjum. Katrín segir að nokkrir hafi dregið mjög úr framleiðslunni eða hætt starfsemi enda sé dýfan nú mjög löng. Hún sé þó sannfærð um að Nígería jafni sig aftur en það getur tekið þó nokkurn tíma í viðbót.

Framleiðendur á Íslandi hafa verið leiðandi í verkefni sem snýr að augnaðgerðum á spítala í Calabar, í suðaustur Nígeríu. Frá því 2004 hefur hópur framleiðenda frá Sölku-Fiskmiðlun tekið þátt í verkefni í gegnum Tulsi Chanrai Foundation sem halda utan um mörg  góðgerðarverkefni í Nígeríu og víðar. Fleiri framleiðendur hafa svo bæst við með tíð og tíma.

Árlega er safnað þurrkuðum afurðum í einn gám og hann sendur til Nígeríu frítt. Þar eru svo afurðirnar seldar og afkoman fer óskipt til spítalans í Calabar þar sem gerðar eru augnaðgerðir á fátæku fólki. Fólki sem hefur ekki efni á að leita sér lækninga að öðrum kosti. Frá því að verkefnið hófst hafa verið gerðar 33.000 augnaðgerðir á spítalanum. 

„Í ár var metþátttaka íslenskra framleiðenda í verkefninu.  Við hittumst oftar en venjulega til að ræða ástandið á markaðnum og viðbrögð við því. Verkefnið var því vel kynnt meðal annarra framleiðanda og hefur vakið meiri athygli í Nígeríu líka“ segir Katrín. „Við fórum fyrr af stað í ár og söfnuðum í einn og hálfan gám, varan var send af stað í byrjun maí og ætti að vera komin í sölu þegar viðskiptasendinefndin fer til Nígeríu ef tekst að halda áætlun og fara í júlí eins og um er rætt“.

 Spurð hvort hún sé hrædd á ferðum sínum um Nígeríu segir hún að viðskiptavinir gæti vel upp á öryggimálin. „Mér finnst okkur algjörlega óhætt í Lagos. Það er kannski meira í austurhluta landsins sem þarf að hafa varann á“ segir hún en í þeim landshluta hefur óeirða helst gætt. „Þetta er bara svolítið ólíkt því sem við eigum að venjast og mikill fjöldi fólks sem er vanur því að leita leiða til að komast af með óhefðbundunum aðferðum" segir Katrín til skýringar og ber hún fólkinu og viðskiptavinunum þar í landi góða söguna.

Viðburðir